12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Einn með Dante í Svíþjóð, Einar Thoroddsen lýsir þeirri sambúð

Einar Thoroddsen læknir lærði ítölsku á puttaferðalagi og hefur nú þýtt meistarasmíðar Dantes frá 14. öld sem lögðu grunninn að ítölsku ritmáli

                                                                    

 

                                                                       
                                                                       Í Ásmundarsal á Skólavörðuholti um
                                                                      daginn, þeir bræður Nonni og Einar í
                                                                      fluggírnum að kynna þýðinguna á
                                                                      Dante.
                                                                      Myndir/Védís.

Áratugsverk er að baki hjá háls-, nef- og eyrnalækninum Einari Thoroddsen sem sá þýdda bók sína, Víti eftir Dante, útgefna á dögunum. Bókin er glæsileg, prýdd teikningum listamannsins Ragnars Kjartanssonar og ritstýrt af bróður Einars, Jóni Thoroddsen. „Það býr margt í Nonna,“ segir Einar og lýsir því hvernig yngri bróðir hans hvatti hann áfram. Einar nýtti tímann sinn vel því að loknu dagsverki í Svíþjóð hafði hann fært ljóðlínurnar 15.000 yfir á íslensku.

„Þar hef ég fengið næði. Þar býr maður einn í íbúð við spítalann og hefur tíma með sjálfum sér til að ganga í verkið,“ segir Einar með bókina fyrir framan sig. Við setjumst niður í stofunni á heimili hans í Fossvogi, þar sem sólargeislarnir teygja sig inn um gluggana og yfir ítalskan, svartglansandi flygilinn. Hann er gerður  úr sama viði og frægu Steinway-píanóin, nefnir læknirinn og hellir tei í bollana. Upptökutækið fer á borðið á milli okkar. Snjallsíminn er nýttur til að taka upp viðtalið.

                                        
                                                  Einar Thoroddsen í sínu náttúrulega umhverfi. Mynd/gag

                                  
                                     Opna úr Víti,  - ítalski frumtextinn á vinstri síðu og íslenska
                                     þýðingin á hægri síðu, - inn á milli arka er skotið
                                     blýantsteikningum Ragnars Kjartanssonar af nokkrum
                                     útfærslum á víti nútímamannsins.

Leikur sér að tungumáli

„Ertu með I-fón eða Samsöng?“ spyr Einar og hefur íslenskað nöfn þessara fjarskiptarisa og keppinauta. Við ræðum símana og tæknina, en Einar segir að hann sé lítið fyrir hana. „Þegar ég horfi á tölvur horfi ég á idjót og það gerir tölvan einnig. Hún horfir á idjót. Þannig að þetta er gagnkvæmt,“ segir Einar glettinn. Hann þekkir það að færa flókna texta yfir á okkar ylhýra mál, hefur nú þýtt bæði hinn ítalska Dante og þýska Heine. Tungumál virðast ekki flækjast fyrir honum og ítölsku lærði hann á puttanum sem skiptinemi á áttunda áratugnum.

„Ég fór sem skiptistúdent til Ítalíu árið 1974 og var fljótur að ná ítölskunni, eða um tvær vikur. Ég kunni frönsku fyrir af skólabókum og þriggja mánaða sumardvöl þar og hafði lesið ítölsku málfræðina áður en ég fór út,“ segir hann.

„Ég á frekar auðvelt með tungumál. Sérstaklega var gagnlegt að þarna voru spænskar stelpur, skiptistúdentar líka, sem tóku okkur strákana út á vegina og við fórum á þumalfingri út um allt. Svo er maður einn í bíl með einhverju fólki og þá er talað og talað. Þetta var því intensífur kúrsus og maður varð betri og betri með hverjum deginum,“ segir hann rólega. Það er alveg ljóst að hans fag er að leika sér með tungumálið, þetta samskiptaform sem við teljum svo sjálfsagt, en þorum fæst að leika okkur með, eftir áratuga réttritunarumvandanir og stífa málfræði.

 

Hálfnaður með allt verkið

Við ræðum útkomu meistaraverks Dantes og elju Einars. „Útgáfan er viss léttir og það kemur yfir mig svona: Loksins, loksins.“

Einar stefnir á að þýða kómedíuna alla, Víti (Inferno), Hreinsunareldinn (Purgatorio) og Paradís (Paradiso). „Víti er 34 kviður en hinar tvær 33. Ég á 11 kviður eftir af Hreinsunareldinum, sem ég er að hugsa um að kalla Skírnarfjallið, svo ég er meira en hálfnaður með allt verkið,“ segir hann.

„Og ég hef, þegar best hefur gengið, náð heilli kviðu á viku. Það eru 40 þriggja línu erindi,“ segir hann. „En þá þarf ég að vera í stuði að því leyti að vera ekki þreyttur og maður verður að halda sig á mottunni. Svo drekkur maður ókjör af tei og þá vaggast maður niður í vissan dugnað. En þetta er ekki inspirasjónverk. Þetta hefur með rassinn að gera, að setjast niður. Eitt prósent talent og 99% rass. Svo nagar maður ekki penna þar til eldingunni slær niður heldur er sífellt að,“ lýsir hann vinnslu verksins og framhaldinu sem verði þó ekki auðveldara með tímanum.

„En Dante er það hugmyndaríkur sjálfur að hann er ekki með miklar endurtekningar. Þess vegna þarf þýðandinn ekki að hafa áhyggjur af því. Dante varðar veginn.“

 

Sinnir enn læknastörfum

Þrátt fyrir að standa á sjötugu starfar Einar enn sem læknir. „Ég var að vísu að hætta á Borgó um daginn,“ segir hann. „Af því að ég varð sjötugur treysta þeir manni ekki lengur en ég er með stofu áfram. Það sér svo sem ekki fyrir endann á því.“

Dante skrifaði verkin í upphafi 14. aldar og bendir Einar á að rétt eins og við skiljum ekki allt sem stendur í Íslendingasögunum hafi ítalskan breyst. Hann hafi því grúskað í mörgum þýðingum.

„Ég hef notað öll þau tungumál sem ég hef fundið þetta á; sænsku, ekki svo mikið dönsku en þó aðeins, ensku og kíkt á frönsku. – Allt sem maður nælir í til samanburðar til að vita hvað maðurinn er að segja. Og oft hafa þessar þýðingar verið tví- og þrísaga.”

Í Víti fjallar Dante um ferð sína um víti þar sem rómverska skáldið Virgill fylgir honum. Þar er bæði afneitun og viðurkenningu syndarinnar lýst. Verk sem Jóni bróður hans fannst vert að tæki við eftir Heine.

„Ég hélt bara áfram, hvattur af Nonna bróður allan tímann. Þetta er eiginlega hans verk líka. Alltaf með hvatningar og hrósyrði og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Einar um yngri bróður sinn, Jón Thoroddsen sem kennir krökkum heimspeki í Laugalækjarskóla.

 

Vandasömu verki hnoðað saman

Varðstu aldrei leiður á verkinu? „Nei, en það tók óskaplegan tíma að hnoða saman einu erindi. Eitt erindi eða rímorð gat tekið þrjá daga að finna. Ég skrifaði niður öll rímorð sem ég þekkti og punkta hvað væri mögulega hægt að nota og klína því inn með góðu eða illu,“ segir hann. Oft hafi verið þrautin þyngri að láta orðin passa. „Stundum var þetta alveg skelfilegt og ég varð að flytja línur fram, en þó innan þeirra marka sem Dante setur.“

Guðrún útgáfufélag ehf. gefur verkið út og sáu Hjalti Snær Ægisson, Stefano Rosatti, Árni Óskarsson, Páll Baldvin Baldvinsson og Ármann Jakobsson um yfirlesturinn. „Hjalti Snær var ansi strangur á meiningunni. Maður á náttúrulega ekki að sleppa þessu með komprómesi. Það var því rosalegt gagn að þeim,“ segir Einar. Sigurður Gísli Pálmason var bakhjarl þeirra bræðra, einnig Börkur Arnarson, sem fékk listamanninn Ragnar Kjartansson til að teikna það sem hann teldi Víti. „Hann sér til dæmis fyrir sér de Gaulle flugvöllinn, eða kolagrill í rigningu.“

 

Íslenskur kveðskapur nýttur

Einar segir að þótt hann fylgi textanum eins og nokkur kostur sé, vitni hann dálítið í íslenskan kveðskap og flytur þá ljóð:

Heyrið vella' á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja' í veri
.
   Íslands er það lag

Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskoru bruna.
   Íslands er það lag

Grímur Thomsen

„Á einum stað þegar Dante hittir Virgil leiðsögumann sinn, sem var stórskáld, og gerði Eneasar-kviðu, þegar Eneas fór frá Tróju og endaði í Róm – í þessum skógi sem hann villtist í – þá segir hann: Þá ertu Virgill, orðsins ofurmenni, er lætur skáldleg fljót á flúðum duna. Þarna tek ég beint úr íslenskum kveðskap. Svo læt ég Virgil segja, þegar hann hljómar eins og heigull eða skræfa: Þá er þinn hugur Björn að baki Kára.“

Þar vitnar Einar til þeirra Björns hvíta í Mörk og tengdasonar Njáls, Kára Sölmundarsonar, í Brennu-Njáls sögu. Skólaljóðin hafi líka komið sér vel, segir Einar, og bragarhátturinn sá sami og í Gunnarshólma.

En svipar sögu Dantes þá til Íslendingasagnanna? „Nei,“ svarar Einar en útilokar þó ekki áhrif þeirra á þýðingarnar. „Eins og þegar ég þýddi Heine var ég miklu knappari en Heine sjálfur. Þegar upp var staðið var ljóðaflokkurinn eftir Heine 12.000 orð en 9000 orð sögðu það sama á íslensku. Það er kannski afleiðing Íslendingasagnanna að það þurfti að velja og segja frá í sem fæstum orðum.“

 

Góð gjöf og flott svefnlyf

Yfir hundrað manns mættu í útgáfuhóf bókarinnar í Ásmundarsal fimmtudaginn 25. október og „slatti“ seldist, eins og Einar orðar það. „Þetta fer aldrei upp í hinn sanna kostnað við útgáfu bókarinnar,” segir hann þó og bendir á að seint verði hægt að lifa af bókaútgáfu. „Þetta er ekki bestseller, en ágætis gjöf og eins og Hilmar í Morkinskinnu sagði: Hún fer vel í rúmi. Flott á náttborði og gott að svæfa sig með því að grípa í eina og eina kviðu.“

 

Hver var Dante?

Durante degli Alighieri, eða Dante, fæddist í Flórens árið 1265 og lést í Ravenna  árið 1321. Verk hans þrjú, Inferno, Purgatorio og Paradiso, heyra til Hins guðdómlega gleðileiks. Verkið þykir með merkustu bókmenntum miðalda og er talið grunnur ítalsks ritmáls „Hann er furðulega nútímalegur í hugsun. En það er ekki skrýtið því mannkynið hefur furðulega lítið breyst,“ segir Einar Thoroddsen sem hefur þýtt fyrsta bindi verks hans; Víti.

 

XXVI

 

61       Piangevisi entro l´arte per che, morta,

    Deїdamìa ancor si duol d´Achille,

    e del Palladio pena vi si porta».

64       «S´ei posson dentro da quelle faville

    parlar», diss´io, «maestro, assai ten priego

    e ripriego, che ´l priego vaglia mille,

67       che non mi facci de l´attender niego

    fin che la fiamma cornuta qua vegna;

    vedi che del disio ver‘ lei mi piego!».


   Þeir harma svik við dána Deidamíu,     61

sem ennþá vegna Akkillesar grætur,

og þjást svo fyrir þjófnað Palladíu.

   „Ef þeim í þessum loga tala lætur,“    64

mælti ég, „ég þrábið þig, minn herra,

þúsundfalt að mér þú bannir vætur

   að hinkra unz er hornótt loga snerra    67

hingað fer, þú sérð ég fram mér halla,

því ekki sérðu þessa löngun þverra.“

Brot úr 26. kviðu Vítis, ítalskan og íslenskan hlið við hlið. Hexameter heitir bragarhátturinn, forngrískur og kjörinn fyrir söguljóð, Jónas Hallgrímsson færði Íslendingum þetta form á silfurfati með Gunnarshólma.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica