12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Fjórar fyrirmyndir í læknastétt heiðraðar á aðalfundi LÍ

                                         
                                         Bergþóra, Guðrún, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, og Helga.
                                         Mynd/Védís

                                        
                                                                  Þórey og Reynir formaður. Mynd/Dögg

 

Læknafélag Íslands heiðraði fjóra kvenlækna sem allar eiga það sammerkt að vera frumkvöðlar og fyrirmyndir í læknastétt. Þær eru Bergþóra Sigurðardóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Helga Ögmundsdóttir og Þórey J. Sigurjónsdóttir.

Í hátíðarkvöldverði aðalfundar LÍ sagði Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, þær vera fulltrúa þeirra sem brutu ísinn fyrir komandi kynslóðir kvenna í læknastétt. „Þökk sé þeim og öðrum konum sem á eftir komu, er staðan sú núna, einni öld og ári betur eftir að fyrsta konan útskrifaðist úr læknadeild, að konur eru um 40% íslenskra lækna,“ sagði hann.

Bergþóra, sem útskrifaðist árið 1958, var heimilislæknir í Hafnarfirði, yfirlæknir á Ísafirði og héraðslæknir Vestfjarða. Hún var stundakennari í lyflæknis- og lyfjafræði við hjúkrunardeild HÍ og sat í stjórn Læknafélagsins. Hún er heiðruð fyrir framlag til jafnréttis í læknastétt.

Guðrún, sem útskrifaðist 1968, helgaði ekki aðeins læknisfræðinni starfskrafta sína heldur sat á Alþingi um 7 ára skeið. Hún starfaði sem sérfræðingur í veirufræði á Keldum og var forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Þá var hún yfirlæknir neyðarmóttöku vegna nauðgana og sat í stjórn Læknafélagsins. LÍ heiðrar hana fyrir störf að samfélagsmálum.

Helga, útskrifuð 1975, er frumkvöðull í uppbyggingu rannsóknartengds náms í læknisfræði og lífvísindum. Hún hefur birt yfir 100 ritrýndar greinar í öllum helstu og fremstu vísindaritum heims. Hún starfaði á Rannsóknarstofu HÍ í veirufræði og var prófessor í frumulíffræði. Helga er heiðruð fyrir þátt sinn í uppbyggingu rannsóknarnámsins.

Þórey, sem fékk almennt læknaleyfi 1961, var aðstoðarlæknir við sérfræðinám á barnadeildum Landspítala, Borgarspítala og á Heilsuverndarstöðinni. Hún var barnalæknir á eigin stofu frá 1968 og um skeið skólalæknir í Reykjavík. Þá var hún ritari Félags barnalækna. Hún er heiðruð fyrir framlag til jafnréttis í læknastétt.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica