11. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Embætti landlæknis 26. pistill. Fíknivandi vegna ávanabindandi lyfja á Íslandi
Í þingsályktun um lyfjastefnu til ársins 2022 er meðal annars stefnt að því að minnka notkun ávanabindandi lyfja á Íslandi. Einnig hefur starfshópur á vegum velferðarráðuneytis skilað tillögum um hvernig minnka megi ávísun ávanabindandi lyfja.1 Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er mikil notkun þessara lyfja hér á landi. Svíar koma næst á eftir Íslendingum í notkun tauga- og geðlyfja meðal Norðurlandaþjóða en árið 2017 fengu 27,7% Svía ávísað lyfjunum en 37,8% Íslendinga.2,3
Hluti tauga- og geðlyfja eru ávanabindandi en árið 2017 fengu 92.000 einstaklingar2 ávísað ávanabindandi lyfjum4 á Íslandi. Af þessum einstaklingum fengu 1736 ávísað sem nemur þreföldum dagsskammti (DDD), eða meira á hverjum degi af einu eða fleirum ávanabindandi lyfjum. Flestir (83.755 einstaklingar) fengu hins vegar innan við einn skilgreindan skammt á dag að meðaltali allt árið, sjá töflu I (*án methýlfenídats).
Embætti landlæknis gaf nýlega út leiðbeiningar um góðar ávísanavenjur lækna sem nálgast má á heimasíðu embættisins. Þar er meðal annars fjallað um að ákveðnar samsetningar ávanabindandi lyfja beri að forðast.5 Í töflu II kemur fram að margir eru að fá nokkrum ávanabindandi lyfjum ávísað en 5804 fengu ávísað fjórum eða fleiri mismunandi ávanabindandi lyfjum árið 2017.
Þol getur myndast mjög hratt fyrir róandi lyfjum og sterkum verkjalyfjum. Sennilega finna tugir þúsunda Íslendinga fyrir vægum fráhvörfum frá ávanabindandi lyfjum á hverju ári og samkvæmt ofannefndum tölum skipta þeir þúsundum sem hafa þróað með sér þol og myndu upplifa veruleg fráhvörf ef ávísun lyfjanna yrði hætt. Einhverjir þessara hafa myndað fíkn í lyfin. Af ofannefndum tölum og af bréfaskiptum Embættis landlæknis við lækna má ráða að fjölmargir læknar á Íslandi virðast stunda viðhaldsmeðferð á fíknisjúkdómi upp á sitt eindæmi. Þessir læknar virðast líta svo á að heillavænlegast sé fyrir sjúklinginn, með tilliti til öryggis, líðanar, lifnaðarhátta (til dæmis vændis) og afbrota, að þeir ávísi fíknilyfjunum fast á þessa einstaklinga. Í nýlegri skýrslu frá velferðarráðuneytinu er skýrt tekið fram að „Viðhaldsmeðferð er aðeins framkvæmd á vegum læknis meðferðarstofnunar eða heilbrigðisstofnunar sem býður upp á slíka þjónustu.“1 Þetta ákvæði er skiljanlegt í ljósi eftirfarandi: Það er mjög örlagarík ákvörðun að skilgreina ákveðinn einstakling þannig að hann muni aldrei hætta neyslu ávanabindandi lyfja og að setja hann fast á ávanabindandi lyf það sem eftir er ævinnar, sú ákvörðun verður varla tekin af einyrkja. Flestar rannsóknir á viðhaldsmeðferð miðast við þá sem eru að nota heróín í æð og ekki liggur alltaf ljóst fyrir hvernig heimfæra skuli þá þekkingu upp á Ísland. Einyrki á stofu eða heilsugæslu á Íslandi getur ekki gefið lyfin eins þétt og þarf í viðhaldsmeðferð heldur fær sjúklingurinn lyf til langs tíma í einu. Þess vegna ratar hluti þeirra ávanabindandi lyfja sem læknir ávísar „til viðhaldsmeðferðar“ til annarra aðila sem eykur fíknivandann í landinu, þar með talin dauðsföll. Ekki er heldur unnt fyrir heimilislækna eða stofulækna að fylgjast reglulega með því hvort önnur efni finnist í þvagi.
Til þess að þróa með sér lyfjafíkn þarf einstaklingurinn bæði að hafa fólgna í sér tilhneiginguna til lyfjafíknar og að rekast á lyfin. Það liggur í hlutarins eðli að margir sem gætu hafa orðið háðir ávanabindandi lyfjum verða það ekki ef minna er af ávanabindandi lyfjum í umhverfi þeirra og minna um að læknar ávísi þannig lyfjum á þá.
Það er vandamál á Íslandi að þegar einn læknir reynir að takmarka ávísun á ávanabindandi lyf getur sjúklingur hæglega leitað til annarra lækna.
Það skal áréttað að hjá meirihluta lækna á Íslandi eru þessi mál í góðu lagi.