11. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

„Kulnun er heimsfaraldur í nútímasamfélögum“

Þetta segir Leonid Eidelman, nýr forseti Alþjóðalæknafélagsins. Hann tók við keflinu í Hörpu á aðalfundi félagsins sem haldinn var í fyrsta sinn hér á landi

                                                                 
                                                                  Eidelman stýrir nú starfi félagsins
                                                                  gegn kulnun lækna sem hann segir
                                                                  brýnt að koma í veg fyrir vegna
                                                                  læknaskorts í heiminum. Blóðugt sé
                                                                  að missa reyndustu læknana úr stéttinni.

Nýr forseti Alþjóðalæknafélagsins, Leonid Eidelman, vonast til þess að þjóðum innan vébanda þess fjölgi á næstu misserum. Hann vill sjá araba og múslíma verða meira áberandi innan félagsins. Eidelman er þriðji Ísraelinn sem stýrir félaginu og tók við stjórnartaumunum á aðalfundi þess sem haldinn var í Hörpu. Skortur á læknum og kulnum ráða ríkjum þetta ár hans í embætti.

„Gullfallegt land. Ég var hér á ferðalagi fyrir tveimur árum og naut þess virkilega vel,“ segir Leonid Eidelman sem leiðir Alþjóðalæknafélagið, World Medical Association, WMA, næsta árið. „Ég hef lítið annað séð en Hörpu í þessari ferð en í þeirri síðustu fórum við fjölskyldan víða um og fengum góða leiðsögn alvöru víkings. Hann var umhverfissinnaður og fékk mig til að dást að landi og þjóð. Ég dáist að því hvernig svona fámenn þjóð getur haldið uppi nútímasamfélagi – með öllu sem því fylgir og náð árangri.“

Eidelman settist niður með Læknablaðinu milli fundarseta í Hörpu. Úti rigndi en sólin skein þó í gegnum regnið þegar við tylltum okkur niður úr augsýn annarra ráðstefnugesta á Smurstöðinni á fyrstu hæð glæsilega tónleikahússins. Eidelman segir einnig magnað að finna kraftinn í Læknafélagi Íslands.

„Það heldur úti fagtímariti á íslenskri tungu. Þótt við höfum haft læknatímarit á hebresku í rúm 90 ár er stöðug pressa, og var á mér, að gefa ekki út tímarit sem næði ekki til stærri hóps. Við höfum jú ekki milljónir lækna í Ísrael og afar erfitt að halda fast í þjóðleg gildi og þýðingu hugtaka gegn efnahagslegum þrýstingi. En hér á Íslandi ætti verkið að vera enn erfiðara, enda íslenskir læknar rétt um 1000. Það er ekki annað hægt en að dást að þessari elju.“ Samkvæmt Wikipedia eru um 35.000 læknar í Ísrael.

 

Til Ísraels á níunda áratugnum

Eidelman flutti á fertugsaldri til landsins helga. „Þegar ég flutti frá Eistlandi árið 1987 átti ég ekki von á því að svo miklar breytingar væru þar í vændum. Það var stutt í sögulega tíma þegar ég flutti en ég sá þá ekki fyrir,“ segir hann. „Þegar ég fór var ég svo viss um að Sovétríkin í öllu sínu veldi yrðu eilíf. Ég var ekki mikill spámaður,“ segir hann og hlær.

Fyrirkomulagið hjá Alþjóðalæknafélaginu er að menn gegna fyrst ársstöðu sem viðtakandi forseti (President-Elect) og verja svo ári sem fráfarandi forseti (Immediate Past President) eftir að forsetaárinu er lokið. Því er um þriggja ára setu að ræða sem leiðtogi innan félagsins. Eidelman segir að 140 félög séu innan vébanda Alþjóðalæknafélagsins.

„Það eru um 10 milljónir lækna um allan heim í félaginu. Við erum talsmenn þessara lækna og viljum að þeir viti að við stöndum með þeim sem starfa í samræmi við gott siðgæði. Við höfum ákveðið að gefa fleiri þjóðum tækifæri til þess að ganga til liðs við félagið. Ég vona að araba- og múslímaþjóðir – lönd við Miðjarðarhafið og Mið-Austurlönd – sem standa utan félagsins, gangi í það,“ segir hann.

Eidelman er lærður svæfinga- og bráðalæknir og kenndi meðal annars á árum áður í læknisfræði við hebreska háskólann Hadassah Medical School í Jerúsalem. Hann var yfirmaður svæfingadeildarinnar í Rabin Medical Center-Beilinson Campus í Petah Tikva þar í landi þegar hann var kosinn í fyrra og hefur verið formaður ísraelska læknafélagsins.

 

Kulnun ógni læknum

Eidelman vill meðal annars sem forseti fara ofan í kjölinn á framtíðarhlutverki lækna í samfélaginu. „Mun það breytast og þá hvernig? Ég trúi því að með því að kafa ofan í þetta mál getum við komið í veg fyrir neikvæða þróun, sérstaklega ef við vinnum að því að forða læknum frá kulnun,“ segir hann.

„Margar rannsóknir sýna að allt að helmingur lækna upplifir skerta starfsorku og við vitum að læknar sem þjást af kulnum veita ekki jafn góða læknisþjónustu. Við ættum því að reyna að gefa þeim áþreifanlegar leiðbeiningar um hvernig þeir forðast hana; og að skaðast á líkama og sál,“ segir hann.

„Margir læknar fara snemma á eftirlaun. Reyndustu læknarnir hætta störfum því þeir hafa ekki kraft til að halda áfram; hafa misst þrautseigjuna. Kulnun er heimsfaraldur í nútímasamfélögum,“ segir Eidelman og nefnir einnig mikilvægi þess að allt fólk, hvar sem er í heiminum, fái læknisþjónustu.

„En til þess að það sé hægt verðum við að hafa fleiri lækna. Við sjáum skort á læknum í þróuðum löndum. Það vantar lækna í Bandaríkjunum, Bretlandi, jafnvel í Þýskalandi þar sem það þekktist ekki áður. Skorturinn hjá þessum stóru, þróuðu ríkjum dregur lækna frá verr stöddum svæðum, sem eykur vandann þar. Víða í Afríkuríkjunum er læknaskortur.“

Eidelman segir að verði komið í veg fyrir skerta starfsorku lækna geti þeir unnið fleiri stundir og þjónað almenningi betur. „Kulnun ýtir undir skort á læknum. Ég vil því líta til framtíðar á þessu ári mínu í embætti og sjá fyrir bæði bestu og verstu mögulegu sviðsmyndina, til þess að geta komið í veg fyrir að fari á versta veg. Til þess að geta brugðist við þessum vanda verðum við að skilja hvert stefnir og hvað getur gerst.“

 

Þriðji ísraelski formaðurinn

Hann svarar því neitandi hvort ekki sé harla óvanalegt að ísraelskur læknir gegni stöðu forseta Alþjóðalæknafélagsins. „Ég er sá þriðji til þess,“ segir hann. „Ekki svo óvanalegt, en þó ekki algengt.“ Spurður hvort viðkvæmt samband Ísraels og Palestínu hafi flækst fyrir honum í kjöri segir hann lækna ekki leysa vanda landanna. Það geri stjórnmálamenn.

„Flest fólk styður frið. Spurningin er hvernig við náum friði. Enginn vill hörmungar og sjá fólk drepið. Enginn vill búa við eldflaugaárásir og sprengjur. Níu milljónir búa í Ísrael og 20% ísraelskra ríkisborgara eru arabar. Hlutverk okkar er að sinna þeim sjúklingum sem koma á spítalana. Ekki aðeins þeim aröbum sem eru með ísraelskt vegabréf heldur öllum. Við gerum engan greinarmun á fólki eftir því hvaðan það kemur. Þúsundir íbúa Gaza njóta heilbrigðisþjónustu í Ísrael dag hvern. Jafnvel nú þegar stríð geisar í Sýrlandi höfum við fengið þúsundir þaðan á ísraelsk sjúkrahús. Ísraelskt heilbrigðiskerfi er opið öllum sem það sækja og við sinnum hverjum sjúklingi óháð uppruna,“ leggur Eidelman áherslu á.

 

Stóð gegn pyntingum

Hann segir frá því þegar palestínskir fangar fóru í hungurverkfall og hæstiréttur Ísraels heimilaði árið 2016 að næring yrði þvinguð ofan í þá. Rökin voru þau að inngripið væri réttlætanlegt til að halda þeim á lífi. Hann hafi mótmælt því í hæstarétti fyrir hönd ísraelska læknafélagsins. Þau hafi talið aðferðina til pyntinga og hvatt ísraelska lækna til að taka ekki þátt í slíku.

„Enginn dó og enginn var píndur til þess að borða,“ segir Eidelman og áréttar þar með að læknar verði að standa fastir á siðferðisvitund sinni. „Við búum við þennan raunveruleika alla daga. Við megum aldrei gefa afslátt af gildum okkar og siðferðisvitund. Læknar eru skyldugir til þess hvar í heimi sem þeir búa.“

Hann segir að þótt aðstæður séu mjög flóknar standi ísraelskir læknar styrkum fótum. „Við vitum um dæmi þar sem sjálfsmorðsárásarmaður fékk hágæða læknaþjónustu hjá okkur. Jafnvel þótt læknarnir hafi misst börn sín í hryðjuverkaárásum gerðu þeir að sárum hryðjuverkamannsins eftir sinni bestu þekkingu.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica