11. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Sjálfstæði er lykill að góðri heilsu lækna
Fimm formenn Læknafélags Íslands settust niður og ræddu fortíð og framtíð læknastéttarinnar. Þau eru sammála um að sjálfstæður rekstur forði læknum frekar frá því að kulna í starfi
Fyrrum og núverandi formenn Læknafélagsins áttu góða stund saman
og rifjuðu upp málefnin á þessu afmælisári. Reynir Arngrímsson,
Sigurbjörn Sveinsson, Guðmundur Björnsson, Birna Jónsdóttir og
Þorbjörn Jónsson. Mynd/gag
Sjálfstæði íslenskra lækna og stjórn á tíma sínum og verkum er einn lykilþátta gegn kulnun í starfi. Þetta eru fimm formenn Læknafélagsins fyrr og nú sammála um. Þetta eru Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, Þorbjörn Jónsson, Birna Jónsdóttir, Sigurbjörn Sveinsson og Guðmundur Björnsson og þau telja þá lækna sem stunda sjálfstæðan rekstur ólíklegri til að upplifa kulnun. Þau eru öll sammála því að nú liggi í loftinu að vega eigi að sérfræðiþjónustunni og skera niður.
„Að stjórna sjálfum sér er ventillinn sem íslenskir læknar hafa haft gegn kulnun. Menn fara á eigin stofur til að anda; til að stjórna sjálfum sér og koma ferskir á spítalana,“ segir Reynir. „Umræðan um breytingar á umhverfi sjálfstætt starfandi lækna skellir þeim í mikið -óöryggi og erfitt að vita hver áhrifin verða. Tilhneiging á Norðurlöndunum og víða annars staðar er að kerfið eigi læknana, spítalinn eigi læknana. Þeir eigi að vera í 100% starfi og gera það sem þeim er sagt. Mörgum þykir erfitt að samsama sig því og finnast áhugavert.“
Formenn Lí síðustu áratugi: Reynir frá 2017, Sigurbjörn 1999-2007,
Þorbjörn 2011-2017, Guðmundur 1997-1999 og Birna 2007-2011.
Sigurbjörn, sem vermdi formannsstólinn á árunum 1999-2007, bætir við: „Þegar ég er á stofunni er ég frjáls maður. Læknafélagið hefur borið gæfu til þess að standa vörð um starfsumhverfi lækna þegar þessar hugmyndir um að allir vinni á spítalanum hafa farið á flug. Við þurftum líka að standa gegn því að læknar yrðu einangraðir inni á spítalanum á mínum formannstíma. Ýmislegt var markvisst gert til að grafa undan sjálfstæði þeirra.“
Reynir segir að sjálfsákvörðunarréttur sé sterkasti þátturinn gegn kulnun. „Að hafa áhrif á starfsumhverfi sitt, skipulag vinnunnar og hvað þeir gera. Í Bandaríkjunum hafa læknar tapað þessu, sem sést á heilsu þeirra.“ Alþjóðalæknafélagið, sem fundaði hér á landi í októberbyrjun, hafi áhyggjur af kulnun. Þar hafi komið fram að niðurstaða bandarískrar rannsóknar hafi sýnt að 59% þarlendra lækna hefðu svarað því neitandi hvort þeir vildu að börn þeirra fetuðu í fótspor þeirra. „Á Alþjóðalæknaráðstefnunni var rætt sem hluti af kulnunar-umræðunni hvað álagið væri mikið, menn óánægðir með starfið og hvernig það hefur þróast til hins verra. Þetta svar gefur mynd af frústrasjón ákveðinnar stéttar.“
Sigurbjörn spyr hvort þetta segi ekki meira um bandaríska heilbrigðiskerfið en önnur. Reynir svarar: „Jú, en þróunin er að verða eins í Evrópu.“
Reynir segir þó að læknar eigi að hafa val. „Það má ekki skilja mig svo að enginn læknir eigi að gegna 100% stöðu á sjúkrahúsinu. Við sjáum að menn rótera. Eru stundum í 100% vinnu og stundum að blanda sérfræðiþjónustu við. Sveigjanleikinn þarf að vera til staðar,“ segir hann. „Þetta getur líka falist í því að læknar hafi umsaminn eða skilgreindan tíma til að sinna fræðastörfum í sinni sérgrein. Læknisstarfið er fjölþætt; lækningar, miðlun reynslu og kunnáttu og nýsköpun þekkingar.“
Formenn funda
Við vindum okkur nú á byrjunarreit. Formennirnir fimm eru saman komin til að rifja upp markverða tíma á þessu aldarafmælisári félagsins. Nett skot, hressilegar athugasemdir og hlátur einkenndi þá einu og hálfu klukkustund sem þau fimm vörðu saman á köldu októbersíðdegi.
„Hvað er að sjá þig,“ voru fyrstu orð Birnu Jónsdóttur, formanns á árunum 2007-2011, þegar hún gekk inn í fundarherbergið og sá Þorbjörn Jónsson eftirmann sinn í stóli, í fatla við borðið að ræða kjaramál. „Ég er nú bara orðinn brothættur, gamall maður,“ sagði hann í gamansömum tóni. „Elsku vinur, láttu ekki svona,“ sagði Birna og valdi sæti við enda borðsins. Viðtalið er rétt hafið. „Ég er í það minnsta ekki síðust,“ segir hún fegin, en stuttu síðar gengur Sigurbjörn Sveinsson í hús og sest gegnt henni. „Ég verð hér við endann; er kvefaður og vil engan smita.“
Kjaramál, skipulagsbreytingar, bæði innri og ytri barátta, einkenna árin sem þau sinntu formennsku. Öll tókust þau á við erfið mál. Öll eru þau sammála um að tíminn hafi verið gefandi. Öll segja þau þó að álagið hafi verið mun meira en þau reiknuðu með – nema Sigurbjörn, enda hafði hann setið lengi í stjórn áður en hann tók við stjórnartaumunum. Reynir er enn að hita stólinn en aðeins er ár frá því að hann settist í hann. Við höfum ákveðið að fara yfir allra stærstu mál formannstíðar hvers þeirra.
Erill í kringum gagnagrunninn
„Þessi tími var mjög spennandi,“ segir Guðmundur, sem er sérfræðingur í læknisfræðilegri ráðgjöf og mati á líkamstjóni. Hann settist í stjórn félagsins árið 1993 og var formaður á árunum 1997-1999. „Ég ætlaði nú að vera lengur en þessi formannstíð var svo erilsöm og áreitið mikið að ég ákvað að láta ekki fjölskylduna líða meira fyrir þátttöku mína í félagsstörfum. Ég hætti alfarið,“ segir hann og hlær. Þrjú erfið mál lituðu formannstíð Guðmundar: Erfið samningahrina þar sem læknar fengu í fyrsta sinn helgun, skrifstofunni var umbylt til nýrra tíma og gagnagrunnsmálið.
„Ég var með mjög góða stjórn sem var sammála um að það þyrfti að taka félagið í gegn. Það var orðið gamaldags. Skrifstofa með gamlar rútínur og ekki á netinu. Engir tölvupóstar sendir, sem við vorum þó farin að nota. Við gerðum því gangskör og fengum ráðgjafafyrirtæki í lið með okkur og tókum allan rekstur í gegn; sjóðina, Læknablaðið. Eins og með allar breytingar var andstaðan mikil. Fólk veit hvað það hefur en ekki hvað það fær.“
Guðmundur segir gagnagrunnsmálið hafa verið snúið, pólitíkin mikil og læknar ekki samstíga í málinu. „Það var róið í allar áttir. Málið var rekið og blásið upp í fjölmiðlum. Við réðum því fjölmiðlaráðgjafa sem kom okkur á betri kúrs með hvernig við komum fram. Við reyndum að vera málefnalegir og í fyrsta skipti varð Læknafélagið sýnilegt í sjónvarpi,“ segir hann.
„Við ákváðum að leiða umræðuna en bíða ekki alltaf eftir að svara. Við tengdum okkur við Alþjóðalæknasamtökin, WMA, í fyrsta skipti og ráðfærðum okkur við þau. Við réðum breskan tölvusérfræðing sem kunni á gagnagrunnskerfið og vissi hvernig það virkaði, en það átti að vera dulkóðað,“ segir Guðmundur.
„Pólitíkin var mikil. Stjórnmálamenn höfðu ærinn áhuga. Mikil sundrung var milli lækna. Sumir unnu fyrir Íslenska erfðagreiningu og aðrir áttu rannsóknarhagsmuni. Hópurinn var sundurleitur en við lögðum línur sem sameinuðu félagið nokkuð sterkt,“ segir hann, en á sama tíma hafi skort á traust í samskiptum við yfirvöld.
„Þetta var mjög lærdómsríkur tími og ég kvaddi með bros á vör og ákvað að gefa ekki kost á mér aftur. Mér fannst ég hætta á góðum tímapunkti,“ segir Guðmundur.
Lofuðu sameiningu undir einu þaki
Sigurbjörn, sem setið hafði lengi í stjórn félagsins, tók svo við formannskeflinu þegar Guðmundur hætti og þegar deilan þroskaðist náðist á endanum sátt. „Menn áttuðu sig á því að það þurfti að gera hlutina öðruvísi.“
Sigurbjörn segist lítið hafa hugsað út í tímann sem hann gegndi formennsku. „Í skuggsjá eru það átökin um siðfræðileg málefni, eins og hugmyndin um gagnagrunn á heilbrigðissviði og átökin við Íslenska erfðagreiningu sem tóku mestan tímann,“ segir Sigurbjörn. Læknafélagið hafi orðið málpípa þeirra sem hafi verið á móti hugmyndinni um gagnagrunn á heilbrigðissviði.
„Orkan fór í þetta fyrstu árin. Hitt sem stendur uppúr eru málefni Landspítala og sameining sjúkrahúsanna. Um aldamótin féllst Læknafélagið á sameiningu Borgarspítala og Landspítala gegn því að spítalinn yrði undir einu þaki. Það var skýrt orðað í yfirlýsingu læknafélaganna,“ segir hann.
„Þessi sameining var ekki vel teiknuð upp af heilbrigðisstjórninni. Það varð til hírarkí á nýja sjúkrahúsinu, sem við töldum í andstöðu við lög. Tíminn okkar fór í að reyna að viðhalda stjórnendastöðum læknanna á þessu nýja sjúkrahúsi og stöðu þeirra sem yfirlækna. Þegar ég horfi til baka var stjórnartíð mín endalaus átök við yfirstjórn sjúkrahússins í þágu lækna. Við töldum rangt staðið að uppbyggingu stjórnar spítalans,“ segir Sigurbjörn. „Þetta var áratugur búrókratanna. Þeir voru að taka yfir sjúkrahúsþjónustuna.“
Linuðu áhrif hrunsins á lækna
Birna Jónsdóttir, röntgenlæknir og formaður félagsins á árunum 2007 til 2011, segir hrunið fyrir áratug hafa yfirskyggt allt annað í störfum félagsins. „Á þessum árum fór allur kraftur í að standa vörð um hagsmuni lækna. Alls staðar kreppti að. Við vörðum öllum kröftum og baráttuþreki í þetta áfall þjóðarinnar. Ekkert annað mál komst í hálfkvisti við þetta.“
Birna segir hrunið hafa haft mikil áhrif á lækna. „Mjög fljótlega varð ljóst að læknar fóru að draga lappirnar að flytja heim. Læknaskortur blasti við. Allt frá október 2008, já og alltaf, fór mikill tími í samskipti við ríkisvaldið,“ segir Birna. „Verja lækna fyrir niðurskurðarhnífnum, aðgerðum stjórnvalda og öllum þeim áhrifum sem hrunið hafði. Eitt af hlutverkum félagsins er að vinna í öllu því sem er til framdráttar heilsu landsmanna í víðasta skilningi og það er meðal annars gert með samskiptum okkar við Alþingi og ráðuneyti. Við vorum ekki aðeins að verja lækna heldur íslensku þjóðina. Það fór geysilega mikil vinna í þetta.“ Birna segist ánægð með framlagið en verkefnið hafi verið ærið, meðal annars rýrnuðu eignir félagsins mikið.
„Ég hafði verið formaður í slétt ár þegar hrunið verður. Ég hafði ekki, fyrr en ég fór að vinna sem formaður, gert mér grein fyrir hversu mikill tími fer í að gefa álit á lögum og reglum og framgangi heilbrigðisþjónustunnar. Það kristallaðist mjög vel þarna.“
Spurð hvort hlustað sé á það sem félagið hafi að segja svarar Birna: „Það er hlustað á okkur og að einhverju leyti er tekið mark á okkur. Klárlega,“ segir Birna. Undir það tekur Þorbjörn og bætir við að Alþingi geri það frekar en ráðuneyti málaflokksins. „Maður áttar sig á leikreglunum og vinnuframlaginu þegar mætt er á völlinn,“ bætir Birna við.
Kjaramálin kjarni ára Þorbjörns
Þorbjörn Jónsson, sérfræðingur í ónæmisfræði, stýrði Læknafélaginu á árunum 2011-2017. Hann segir að stærstu málin í hans tíð hafi verið kjaramálin. „Þegar kjarasamningar renna út í ársbyrjun 2014 voru kjör sjúkrahúslækna orðin frekar bág. Það var virkileg þörf á að bæta úr því og það fer af stað þessi harðvítuga deila við ríkið sem endaði með því í október 2014 að læknar sem unnu fyrir hið opinbera fóru í verkfall,“ segir Þorbjörn.
„Við höfðum almenning með okkur, sem við áttum ekki von á í upphafi. Aðstæðurnar voru þannig að þessi stemning skapaðist og við fórum í allsherjarverkfall; þótt aðeins hluti lækna væri í verkfalli á hverjum tíma.“ Þorbjörn segir að verkfallsaðgerðir hafa verið settar upp á mjög ábyrgan hátt í þetta fyrsta sinn sem læknar fóru í allsherjarverkfall.
„Ég held að það sé óhætt að segja að læknar fengu umtalsverða kauphækkun sem virkilega munaði um. Þetta er það sem ég er stoltastur af á mínum ferli.“
Spurður hverju hann þakki þennan árangur stendur ekki á svari. „Samstaða lækna. Ekki aðeins höfðum við ákveðinn velvilja hjá stærstum hluta almennings heldur sýndu allir hópar lækna, hvort sem þeir unnu fyrir ríkið eða sjálfstætt, samstöðu.“
Þorbjörn nefnir einnig skipulagsbreytingar. „Aðildarfélög læknafélagsins eru nú fjögur en voru miklu fleiri. Núna er horft til þess hvaðan læknarnir þiggja laun; hvort þeir séu á vegum ríkisins, með eigin rekstur, séu heimilislæknar eða unglæknar. Þá færðum við formannskosninguna í nútímalegra form. Áður kusu 70 aðalfundarfulltrúar en núna hafa allir 1000 læknar félagsins kosningarétt. Ég vona að tíminn leiði í ljós að þetta hafi verið góð breyting.“
Reynir og nútíminn
Reynir Arngrímsson sér ekki langt aftur litið í baksýnisspeglinn á formannstíð sinni. Hann hefur aðeins gegnt starfinu í tæpt ár, en eitt stærsta mál líðandi er vinnuaðstaða lækna. Nýr spítali er þar á meðal. „Þessi bygging við Hringbraut verður byggð. Það er alveg ljóst, en hún er ekkert í samræmi við það sem farið var af stað með í upphafi,“ bendir hann á og Sigurbjörn skýtur að: „Já, það verður byrjað á þessum nýja spítala en óvíst hvort hann verður kláraður.“
Reynir segir að nú þegar sé ljóst að starfsemin sem tilheyri spítalanum rúmist ekki innan hans. „Það eru að verða tvö ár síðan byrjað var að tala um að halda yrði öðru hvoru húsinu, Landakoti eða Fossvogsspítala.“ Birna nefnir að ljóst sé að hvorki sé gott fyrir læknisfræðina né sjúklinga að slíta starfsemina svona í sundur.
Eru það vonbrigði fyrir Læknafélagið hvernig þessi spítalamál hafa þróast? Formennirnir tala nú afar varfærnislega enda skiptast læknar í fylkingar með eða á móti núverandi áformum. „Þetta hefur gengið allt of hægt,“ segir Þorbjörn svo en bendir þó á að nýtt hús verði mikil framför.
Guðmundur segir skiljanlegt að fólk vilji betri aðstöðu. „Þessi spítalamál sundra læknum frekar en sameina og því ekki skemmtilegt umræðuefni hér.“ Sigurbjörn grípur boltann: „Af hverju má ekki segja sannleikann?“
Reynir segir að alltaf hafi verið skiptar skoðanir um spítalann sem hafi áhrif á félagið. „Þess vegna liggur engin afgerandi ályktun Læknafélagsins fyrir um annað en að segja að menn vilji sameina spítalana, en ekki hvar eða hvernig. En afstaða lækna mun skýrast, því við erum að fara af stað með skoðanakönnun og þar verður spurt um afstöðuna til nýbyggingar sjúkrahúss.“
Sigurbjörn rammar umræðuna inn með því að benda á að að seta þessara fimm formanna spanni einmitt tímann sem hafi snúist um nýja spítalann. „Þegar Guðmundur tekur við sem formaður lýsir Ingibjörg Pálmadóttir, þá heilbrigðisráðherra, því yfir að það eigi að sameina spítalana og ráða einn forstjóra. Þá byrjar þessi tími, en ef maður lítur á þessar fyrirætlanir eins og þær liggja fyrir núna eru verulegar líkur á óförum um þessa framkvæmd. Prótótýpan af óförunum er sjúkrahótelið. Ævintýralega er staðið að hlutunum þar,“ segir hann og lýsir heimsókn sinni með sýni yfir gámasvæði Landspítala, þar sem göt og gámar mörkuðu leiðina á áfangastað. „Svona verður þetta líkast til næstu 15 árin.“ Þau taka undir og tala um að hér á landi sé framkvæmdatíminn almennt tvöfaldur á helmingi hærri kostnaði en ætlað hafi verið.
„Þar er vanhæft fólk að fara eftir lélegu skipulagi,“ segir Sigurbjörn en þau hin vilja tala af meiri mildi um málið svo Sigurbjörn bætir við. „Ég vil hafa þessa skoðun sem fyrrum formaður á þessu afmælisári.“ Guðmundur bætir við: „Auðvitað megum við hafa skiptar skoðanir. Málið er þess eðlis.“
Úr fortíð í framtíð
Spurð hvort þau væru til í að vera nýútskrifaðir læknar á þeim tíma sem nú er uppi svara þau öll játandi. Og þau sjá mikla framþróun í störfum sínum. Birna bendir á að við röntgenlækningar nýtist gagnasöfn í sífellt meira mæli til greininga.
„Það breytir starfi lækna, en starfið hefur alltaf verið að breytast svo það er ekkert nýtt. Ég lít svo á að hlutverk mitt sé að setja kröfur á tölvubúnaðinn fyrir hönd sjúklinganna. Ég ber ábyrgð á því að búnaðurinn uppfylli kröfurnar. Ég er verndari sjúklingsins og það er mikilvægt hlutverk okkar lækna,“ segir hún.
Guðmundur tekur við. „Ég er endurhæfingalæknir og menn eru að koma með gervilimi sem lúta stýringu heilans. Það er stórkostleg framför.“
Reynir nefnir einnig hvernig erfðaráðgjöf sé að breytast í erfðameðferð. „Svo eru krufningar að verða myndgreiningafag. Það sýnir hvað þróunin er byltingarkennd.“
En oft verða áhyggjurnar fögnuði framtíðarinnar yfirsterkari, sérstaklega við rekstur fagfélags. Reynir segir umhugsunarvert hversu fáir læknar sækist eftir stjórnunarstöðum. Styrkja þurfi lækna til að gera það.
„Okkur vantar virkilega stjórnendur. Athyglisvert er að aðeins einn læknir sinnir framkvæmdastjórastöðu á klínísku sviðunum á Landspítala. Allir hinir eru hjúkrunarfræðingar. Skurðlækningasviði er stjórnað af hjúkrunarfræðingi, aðgerðasviði – sem eru svæfingar og blóðbanki – einnig. Hjúkrunarfræðingar stýra kvenna- og barnasviði. Einnig geðsviðinu. Lyflækningasvæðinu einu er stýrt af lækni,“ segir Reynir.
Spurð hvað skýri þessa tregðu lækna til stjórnendastarfa svara þau: „Við erum þjálfuð í því að sinna sjúklingum og viljum mörg vinna okkar sérhæfðu verk sem við höfum eytt gífurlegum tíma í að ná.“ Guðmundur bætir við: „Fólki finnst mikil fórn að stíga út úr þessu læknahlutverki. Og um leið og þú stígur út og ferð að gera annað er fljótt að fenna yfir reynslu og kunnáttu. Þetta vita allir.“
Reynir segir að þótt læknishlutverkið sé svo stór hluti af sjálfsmynd læknis sé stjórnendareynsla þess virði. „Ef læknar átta sig á að hægt er að hafa miklu meiri áhrif í stjórnunarstarfi gæti þetta breyst.“
Formenn í framtíðinni
Þau svara því misjafnlega hvort þau væru til í að verma formannsstólinn aftur.„Ég hefði ekki viljað missa af því að vera formaður Læknafélagsins. Reynslan er feikilega góð,“ segir Guðmundur án frekari útskýringa og Þorbjörn tekur undir.
„Þú kynnist fólki sem þú myndir annars aldrei kynnast. Bæði málefnum og fólki. En þetta er erfitt starf og ágætt að hætta þegar maður hættir,“ segir Þorbjörn. „Ég tel að menn eigi ekki að vera lengi í svona starfi, því við erum ekki öll eins og fjölbreytni því góð.“
Sigurbjörn segir að hann færi aftur fram sem formaður. „Já, ef ég sæi ekki fram á það að ég yrði önnur 8 ár.“ Öll hlæja. „Þú varst óvenju þaulsætinn,“ segir Guðmundur við Sigurbjörn í léttum tóni. „Já, en þegar ég hætti fór ég í annað sem var helvíti á við þetta. Það var í stjórn lífeyrissjóðs,“ segir hann og hlær. „Já, þá fékkstu líka kreppuna í andlitið,“ segir Birna og hlær. Hún væri aftur til: „Já, ég myndi bjóða mig aftur fram með reynsluna.“
Reynir klykkir út: „En ætli þessi spurning eigi ekki raunverulega best við mig?“