11. tbl. 104. árg. 2018

Ritstjórnargrein

Fjölmiðlar og heilbrigðiskerfið

Magnús Haraldsson‚ geðlæknir við Landspítala‚ dósent við læknadeild Háskóla Íslands og situr í ritstjórn Læknablaðsins

doi: 10.17992/lbl.2018.11.201

Málefni heilbrigðiskerfisins eru oft til umfjöllunar í fjölmiðlum enda er um að ræða stóran og mikilvægan málaflokk sem snertir líf allra landsmanna einhvern tímann á lífsleiðinni. Heilbrigðiskerfið er dýrasti og sennilega flóknasti hluti okkar samfélags og á fáum sviðum hafa orðið eins miklar framfarir og breytingar á undanförnum árum. Öll viljum við geta gengið að því vísu að þjónustan sé góð og að hún sé örugg og aðgengileg öllum sem á henni þurfa að halda. En að sjálfsögðu er ekkert fullkomið í þessum heimi. Því miður er fjölmiðlaumræða um heilbrigðismál oft á afar neikvæðum nótum og orð eins og úrræðaleysi, niðurskurður, mannekla og fjársvelti eru algeng.

Fréttir af sumarlokunum, kjaradeilum, biðlistum og miklu álagi á heilbrigðisstarfsfólk eru nánast daglega á síðum fjölmiðla. Þetta eru að sjálfsögðu afar erfið mál og raunverulegar áskoranir sem kerfið stendur frammi fyrir og mikilvægt er að fjalla um þau með gagnrýnum hætti í fjölmiðlum en það skiptir líka máli hvernig það er gert. Það er afar mikilvægt að umfjöllun fjölmiðla um þennan málaflokk sé yfirveguð, byggð á staðreyndum og að reynt sé að forðast gífuryrði og upphrópanir.

Það gerist reglulega að á síður fjölmiðla rata umfjallanir um erfið mál einstakra sjúklinga. Nú á tímum netmiðla geta einstaklingar með einföldum hætti deilt persónulegum reynslusögum sínum á netinu. Stundum er um að ræða lýsingar sjúklinga eða aðstandenda þeirra á samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk þar sem kvartað er yfir því að viðkomandi hafi ekki fengið viðhlítandi þjónustu eða verið neitað um þjónustu. Jafnframt eru oft dregnar þær ályktanir að slíkar lýsingar á högum einstaklinga lýsi kerfinu eða þjónustunni í heild.

Af og til gerist það líka að ákveðnir fjölmiðlar birta svona lýsingar á síðum sínum og skrifa með þeim frétt. Í slíkum fréttum koma aðeins fram lýsingar og sjónarmið þeirra sem telja að með einhverjum hætti hafi verið brotið á rétti þeirra. Öllum fréttamönnum á að vera vel kunnugt um að á heilbrigðisstarfsfólki hvílir afar ströng þagnarskylda og trúnaður sem gerir þeim ókleift að tjá sig um mál einstakra sjúklinga. Heilbrigðisstarfsmenn geta því ekki brugðist við ef þeir telja að hallað sé réttu máli eða að mikilvægar upplýsingar vanti í umfjöllunina. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu viðkvæm og flókin mál sem þessi geta verið. Það er mikill ábyrgðarhluti að taka fyrir mál einstakra sjúklinga í fjölmiðlum.

Alltaf er hætta á því að dregnar séu rangar ályktanir af því sem á að hafa gerst og hætt er við því að fréttir sem þessar ýti undir ótta og tortryggni hjá fólki sem þarf að sækja þjónustu heilbrigðiskerfisins. Fréttaflutningur af þessu tagi er einnig líklegur til að valda heilbrigðisstarfsfólki miklu hugarangri og vanlíðan, sérstaklega ef það þarf að sitja undir óvæginni gagnrýni í fjölmiðlum og getur ekki komið fram og tjáð sig um sína hlið á málinu.  

Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að sjúklingar og aðstandendur þeirra geti á skilvirkan og einfaldan hátt komið kvörtunum sínum á framfæri við þá sem stýra þjónustunni og bera ábyrgð á að gæði hennar séu tryggð. Síður fjölmiðla eru ekki rétti vettvangurinn til að ræða eða útkljá mál sem þessi enda slíkt ekki hægt þegar aðeins önnur hlið málsins er rædd. Alltaf er hætt við að umræðan verði mjög tilfinningahlaðin og einkennist af upphrópunum og gífuryrðum.

Æskilegt væri að ritstjórar og ábyrgðarmenn helstu fjölmiðla landsins settust niður með for-svarsmönnum heilbrigðiskerfisins og ræddu hreinskilnislega um hvernig best sé að fjalla með ábyrgum og yfirveguðum hætti um heilbrigðismál, þjónustunni til framdráttar,  og hvernig koma megi í veg fyrir að lýsingar sem oft eru settar fram í mikilli reiði og geðshræringu séu gerðar að fréttaefni í fjölmiðlum.

Einnig er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn sem eru aðilar að málum sem rata í fjölmiðla hafi vettvang innan kerfisins til þess að ræða málið og geti jafnframt fengið viðeigandi stuðning þegar þeir sitja undir alvarlegum ásökunum í fjölmiðlum. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica