09. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Sameiginleg yfirlýsing læknasamtaka í Evrópu: Áhersla á lykilhlutverk lækna í sjúkdómsgreiningu, meðferð og þverfaglegri umönnun sjúklinga
Hágæðaheilbrigðisþjónusta er veitt af flóknum teymum heilbrigðisstarfsmanna sem hvert um sig leggur fram sinn sérstaka skerf til að sinna megi hverjum sjúklingi eins og best verður á kosið. Kjarni þessa starfs er samband læknis og sjúklings. Nákvæm sjúkdómsgreining og samskipti við einstaka sjúklinga sem afleiðing af henni skipta meginmáli við umsinnu þeirra. Læknanám leggur lækni til þekkingu og færni í verkum og samskiptum sem nauðsynleg eru til að fyrirbyggja, greina og meðhöndla sjúkdóma. Þau verklegu störf og skref sem stíga þarf til þess að nálgast nákvæma greiningu og meðferð má leggja í öruggar hendur annarra heilbrigðisstétta innan þess ramma sem settur er hverri stétt. Það er hins vegar einungis læknismenntun sem veitir þá yfirsýn sem til þarf þegar hafa á yfirumsjón með samþættingu starfa hinna ýmsu heilbrigðisstétta.
Undirrituð samtök evrópskra lækna leggja af tveimur ástæðum áherslu á lykilhlutverk lækna við að stýra þverfaglegri meðferð:
Viðurkennt er að best fari á því að sjúkdómsgreining og meðferð fari fram í þvegfaglegu umönnunarteymi sem leitt er og samræmt af lækni. Umönnun sem veitt er án þess að til hafi komið sjúkdómsgreining og stofnað hafi verið til viðeigandi meðferðar af hálfu læknis er ógnun við gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu.
Í öllum Evrópulöndum eru læknar uppstaðan í læknisþjónustu þrátt fyrir að heilbrigðisstofnanir, atvinnurekendur og stuðningsþjónusta beri einnig ábyrgð á því að nægu fjármagni sé veitt til þjónustunnar og rétt skilyrði sköpuð. Án læknis sem uppistöðu í þverfaglegri þjónustu verður óljóst hver ber ábyrgð á sjúkdómsgreiningu og meðferð.
Við treystum því að ríki Evrópusambandsins og evrópskra stofnana haldi áfram að tryggja að skipulag heilbrigðisþjónustu byggi áfram á því klíníska fyrirkomulagi sem þróað hefur verið út frá lykilhlutverki lækna.
Eftirtalin læknasamtök í Evrópu standa að yfirlýsingunni:
European Association of Senior Hospital Doctors (AEMH), European Council of Medical Orders (CEOM), Standing Committee of European Doctors (CPME), European Working Group of Practitioners and Specialists in Free Practice (EANA), European Junior Doctors Permanent Working Group (EJD), European Medical Students' Association (EMSA), European Federation of Salaried Doctors (FEMS), European Union of General Practitioners/Family Physicians (UEMO), og European Union of Medical Specialists (UEMS),
Fastanefnd lækna hjá Evrópusambandinu, Comité
Permanent des Médecins Européens (CPME)
Læknafélag Íslands varð aðili að fastanefnd lækna í hjá Evrópusambandinu í Brussel (Comité Permanent des Médecins Européens, CPME) um miðjan 10. áratug síðustu aldar. CPME eru Evrópusamtök læknafélaga og stéttarfélög lækna í aðildarríkjum Evrópusambandsins eiga aðild að því. Stofnun CPME má rekja til ársins 1959 um það leyti sem Rómarsáttmálinn, stofnsáttmáli Evrópusambandsins, var gerður. Skrifstofa CPME hefur verið í Brussel frá 1992. CPME er helsti þrýstihópur lækna gagnvart framkvæmdastjórninni í Brussel. Samtökin móta sér pólitíska stefnu í málefnum lækna í Evrópu svo sem um lagaumhverfi og vinnumarkaðsmál. CPME hefur áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum innan ESB en slíkar ákvarðanir teygja anga sína til Íslands vegna EES-samningsins. Katrín Fjeldsted heimilislæknir hefur verið ötull fulltrúi LÍ í samtökunum frá 1999. Hún var innri endurskoðandi samtakanna árin 2005-2006, einn af fjórum varaformönnum 2006-2009, gjaldkeri 2010-2012 og loks formaður samtakanna 2013-2015. Katrín er fyrsta konan sem gegnt hefur embætti forseta fastanefndarinnar.
Evrópusamtök sérgreinalækna,
Union Européenne des Médicins Spécialistes (UEMS)
Læknafélög frá 40 þjóðum eiga aðild að samtökunum. Læknafélag Íslands ákvað árið 2017 að sækjast á ný eftir aðild að UEMS, en þá hafði verið hlé á þátttöku LÍ frá 2008.
Friðbjörn Sigurðsson er tilnefndur af LÍ í fulltrúaráð UEMS. Innan UEMS eru 43 sérgreinafélög lækna, sem beita sér fyrir hagsmunum sérgreinanna, og 15 samstarfsnefndir þar sem fleiri en ein sérgrein vinna saman að málum. Sum íslensk sérgreinafélög eru virk innan sérgreinafélaganna og má þar nefna að Anna Björg Jónsdóttir er ritari öldrunarlækningaeiningar UEMS og Runólfur Pálsson er varaforseti lyflækningaeiningar UEMS. Meginverkefni samtakanna er að efla símenntun lækna, sérfræðinám lækna og gæði heilbrigðisþjónustu.