09. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 25. pistill. Akstur undir áhrifum slævandi lyfja

Akstur undir áhrifum lyfja getur skert hæfni ökumanna til að stjórna ökutækjum og haft í för með sér slysahættu. Talið er að áfengi og lyf komi við sögu í 24% allra dauðsfalla í umferðarslysum í Noregi og hafa Norðmenn birt reglur um magn lyfja sem má greinast í blóði ökumanna. Reglurnar eru settar til að auka öryggi í umferðinni og til að auka skilvirkni dómsmála er varða slík umferðarlagabrot.

Í Noregi eru refsimörk miðuð við 0,02% áfengisstyrks í blóð með stigvaxandi þyngingu refsingar eftir því sem meira magn greinist. Á Íslandi eru refsimörk áfengis 0,05% og fara sektir hækkandi með auknum áfengisstyrk. Ólíkt því sem gildir í Noregi vantar skýrar reglur á Íslandi um hversu mikið magn af lyfjum má greinast í blóði ökumanna. Lengi vel þurfti að fá sérfræðiálit í hverju dómsmáli í Noregi en þegar reglunum var breytt árið 2012 voru skilgreind mörk á styrk 20 mismunandi -lyfja/eiturlyfja í blóði sem gerði úrvinnslu mála einfaldari. Mörkin fyrir hvert lyf voru heimfærð upp á, eða borin saman við mismunandi styrki af áfengi í blóði (0,02%, 0,05% og 0,12%). Listi yfir lyfin og reglurnar má finna hér: regjeringen.no/contentassets/61d8bf75d02e4b64ab0bfbea244b78d9/sd_ruspavirket_kjoring_net.pdf

Í listanum eru tilgreind helstu róandi lyf eins og  díazepam, oxazepam, nítrazepam, alprazolam; svefnlyf eins og zópíklón  og zolpídem, ásamt morfíni og skyldum lyfjum eins og buprenorfín og metadón.  

Notkun svefnlyfja var 55% meiri hér á landi miðað við Noreg og notkun róandi og kvíðastillandi lyfja var 78% meiri hér á landi árið 2017, sjá línurit 11,2 en mun fleiri nota lyfin hér á landi en til dæmis í Noregi, sjá töflu I. Fram kemur í nýjustu skýrslu frá Nomesco að sala ópíóíða var 50% meiri hér á landi miðað við Noreg árið 2016 og hefur notkun verið að aukast hér á landi en hún hefur dregist saman á hinum Norðurlöndunum.3

Norsk yfirvöld skilgreindu ekki aðeins mörk í blóði heldur einnig hversu mikið af ávanabindandi lyfjum læknir megi ávísa án þess að sjúklingurinn verði sviptur ökuleyfi. Danir hafa gefið út svipuð viðmið.4 Til eru viðmið fyrir ópíóíða, lyfjasamsetningar og fleira en hér er fyrst og fremst sýnt dæmi um leyfilegt magn ávísaðra benzódíazepína, svefnlyfja og Parkódín forte (tafla II).

Árið 2017 fengu 23.000 einstaklingar ávísað Parkódín forte og 7.000 manns alprazolam og hefðu því samkvæmt dönskum reglum ekki mátt aka þá daga sem þeir voru að taka þessi lyf. Auk þess fengu 20.000 einstaklingar ávísað zópíklón og 9.000 zolpídem, og samkvæmt Sérlyfjaskrá er varhugavert að aka bifreið nema 12 klukkustundir séu liðnar frá inntöku zópíklón, norskar reglur miða við 8 klukkustundir.5

Hér hafa ekki verið taldar með lyfjasamsetningar, ofnæmislyf eða aðrir ópíóíðar en ljóst er að á Íslandi skipta þeir þúsundum sem teldust einhvern hluta ársins ekki hæfir til þess að aka um götur í Noregi eða Danmörku.

Lyfjateymi embættisins hefur haft til skoðunar lyfjatengd andlát þar sem einstaklingar hafa látist við akstur bifreiða undir áhrifum lyfja. Full þörf er á að taka upp sambærilegar reglur hér á landi og í Noregi og Danmörku til að stuðla að auknu umferðaröryggi.

Heimildir

1. Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis: https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisthjonusta/rafraen-sjukraskra/adgangur-ad-lyfjagagnagrunni/
 
2. reseptregisteret.no  
 
3. nowbase.org  
 
4. stps.dk/da/udgivelser/2017/vejledning-om-helbredskrav-til-koerekort/~/media/9BE267FAC6AE4BE3ABB93FAA6E7C2347.ashx  
 
5. helsedirektoratet.no/Retningslinjer/Ørerkortveilederen.pdf  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica