09. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Grein eftir Pál Sigurðsson úr Læknablaðinu frá árinu 1947. Alþjóðalæknafélagið – World Medical Association

 

                                 

Fram að heimsstyrjöldinni fyrri kvað heldur lítið að alþjóðasamvinnu á sviði heilbrigðis- og félagsmála. Helzt var þá um að ræða samþykktir og milliríkjasamninga um sóttvarnir. Stundum með tilliti til ákveðinna sótta eða miðaðir við takmarkað landssvæði í heiminum. Eftir að styrjöldinni lauk var eins og augu manna opnuðust fyrir mikilvægi slíkrar samvinnu. Í sambandi við Þjóðabandalagið gamla var, eins og kunnugt er, sett á stofn Heilbrigðisstofnun Þjóðabandalagsins (Health Organisation of the League of Nations), sem gerði ómetanlega mikið gagn meðan hennar naut við. Eftir síðari heimsstyrjöldina hefir þó fyrst komið skriður á þessi mál. Má segja, að hvert sambandið rísi upp á fætur öðru og hver ráðstefnan reki aðra. Helzta stofnunin, sem komið hefir verið á fót til þess að starfa að heilbrigðismálum, er eins og kunnugt er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (World Health Organisation). Hefir dr. med. Helgi Tómasson flutt erindi nokkuð um hana í dagblöð. Það má segja, að til þessa hafi það verið miklum erfiðleikum bundið að gera sér grein fyrir og fylgjast með því, sem gerzt hefir á sviði heilbrigðismála og menningarmála í heiminum, þar sem ekki hefir verið völ neinnar hentugrar handbókar, erlendrar eða innlendrar, um þessi mál. Nú hefir Vilmundur Jónsson landlæknir unnið það þarfa verk, að draga saman í heildarriti það helzta, sem snertir þetta efni. Bók þessi er nýútkomin sem fylgirit með heilbrigðisskýrslunum 1944 og heitir „Alþjóðasamvinna um heilbrigðismál“.

                                  

Mér er ekki kunnugt um, að nein alþjóðleg læknasamtök, sem nokkuð hefir að kveðið, hafi starfað fyrr en stofnað var Alþjóðasamband lækna (L'association Professionnelle Internationale des Medecine). Komst það á fót skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Var það einkum bundið við Evrópu, en þó sérstaklega við meginlandið. Það hafði höfuðbækistöðvar í París og aðalskrifstofa þess var í sambandi við skrifstofur Franska Læknafélagasambandsins. Eina viðurkennda tungumálið var Franska. Starfsemin var einkum innifalin í bréfaviðskiptum við sambandsfélögin og fundahöldin. Auk þess gaf það út tímarit. Aðalritari þess mestallan tímann, sem það starfaði eða frá 1925-1939, var Dr. Fernand Decourt.

Á meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði lá starfsemi þessa félags niðri, en í lok hennar var ýmsum málsmetandi læknum orðið það ljóst, að alþjóðafélagsskapur lækna gæti gert ómetanlegt gagn á sviði heilbrigðis- og félagsmála. Fyrir atbeina Brezka Læknafélagsins (British Medical Association) komu nokkrir læknar saman á fund í London í júní 1945, þar á meðal voru nokkrir erlendir læknar, sem þá voru staddir í Bretlandi. Eftir þennan fund hóf Brezka Læknafélagið (B.M.A.) og Alþjóðasamband lækna (A.P.I.M.) undirbúning að stofnun alþjóðalæknafélags. Var ákveðið að halda undirbúningsfund í London í sept. 1946. Læknafélögum 45 þjóða var boðið að senda fulltrúa á þennan fund, þar á meðal Læknafélagi Íslands, og varð það við þeim tilmælum. Fundinn sóttu 43 fulltrúar frá 38 löndum. Af hálfu Íslands mætti sem fulltrúi Karl Strand. Auk fulltrúanna mættu 32 áheyrendur.

Á fundi þessum var ákveðið að stofna alþjóðalæknafélag á miklu breiðari grundvelli en hið gamla hafði verið. Til þess að undirbúa félagsstofnunina voru ráðnir tveir bráðabirgðaritarar, þeir Charles Hill, ritari Brezka Læknafélagsins og P. Cibrie, ritari Franska Læknafélagasambandsins.

Auk þess var kosin 9 manna undirbúningsnefnd og hlutu þessir læknar kosningu:

F. Decourt (Frakkland),

P. Glorieux (Belgía),

D. Knutson (Svíþjóð),

O. Leuch (Sviss),

J.A. Pridham (Bretland),

T.C. Routley (Kanada),

L. Shawki (Egiptaland),

L. Tornel (Spánn),

A. Zahor (Tékkóslóvakía).

Skömmu eftir fundinn bættist Læknafélag Bandaríkja N.-Ameríku í hópinn og var þá talin ástæða til að bæta við 10. manni í undirbúningsnefndina frá því félagi. Fyrir valinu varð Louis H. Bauer.

Á undirbúningsfundinum í London var félaginu gefið nafnið Alþjóðalæknafélagið (World Medical Association) og ákveðið að halda stofnfund þess og fyrsta aðalfund í París í september 1947. Vegna eindreginna tilmæla forgöngumanna þessa félagsskapar tók Læknafélag Íslands þátt í honum og sendi fulltrúa á stofnþingið í París s.l. haust. Mættu sem fulltrúar af hálfu félagsins Þórður Þórðarson og ég. Áður hafði Læknafélag Íslands átt nokkur bréfaskipti við bráðabirgða ritarana, einkum ritara Brezka Læknafélagsins, og meðal annars svarað allnákvæmri fyrirspurn um læknaskipun og heilbrigðismál á Íslandi. Samsvarandi fyrirspurn hafði verið send læknafélögum 61 þjóðar.

Á þinginu í París mættu fulltrúar frá 44 þjóðalæknafélögum. Auk þess fjöldi áheyrenda, bæði frá læknafélögum og ýmsum stofnunum, meðal annars frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (World Health Organisation) og menningar- og fræðslustofnunum Sameinuðu þjóðanna (United Nations Educational, Scientif and Cultural Organisation). Þingið hófst miðvikudaginn 18. september og var lokið laugardaginn 20. september.

Þinginu var skipt í tvennt. Fyrri hlutanum, sem einkum fjallaði um skipulag félagsins, lög þess og reglugerð, var stjórnað af þeim Sir Hugh Lett og Dr. T.C. Routley. Í lok fyrri hluta þingsins var borin upp og samþykkt svolátandi ályktun:

„Hinn 18. september 1947, klukkan 3 og 40 mínútur eftir hádegi, var stofnað í Parísarborg Alþjóðalæknafélagið (The World Medical Association).“

Síðari hluta þingsins stjórnaði prófessor Eugéne Marquis, en hann hafði verið valinn forseti félagsins fyrir árin 1947 og 1948 á fundinum í London.

Aðeins þau læknafélög, sem kenna sig við eitthvert land eða þjóð, geta fengið upptöku í Alþjóðalæknafélagið. Hvert landsfélag, hversu fjölmennt eða fámennt sem það er, hefir rétt á tveimur atkvæðum.

Stefnuskrá Alþjóðafélagsins er í höfuð-atriðum þessi:

a.    Að tengja traustari böndum þjóðalæknasamtök og auka samstarf lækna með persónulegum kynnum og alls konar öðrum ráðum, sem til greina geta komið.

b.    Að halda uppi heiðri læknastéttarinnar og vernda áhugamál hennar.

c.    Að rannsaka og gefa skýrslur um læknisfræðileg verkefni, sem mæta stéttinni í hverju landi fyrir sig.

d.    Að skipuleggja gagnkvæma fræðslu um áhugamál læknastéttarinnar.

e.    Að koma á framfæri sjónarmiðum læknastéttarinnar við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (W.H.O.) U.N.E.S.C.O. og aðrar slíkar stofnanir og hafa samvinnu við þær.

f.     Að hjálpa öllum þjóðum heims til þess að komast á svo hátt stig heilsufarslega, sem auðið er.

g.    Að vinna að heimsfriði.

Upphaflega var ráðgert að aðaltungumálin, sem félagið notaði, yrðu tvö, Enska og Franska, en á stofnþinginu í París bættust Læknafélög Suður-Ameríku í hópinn. Var þá talið rétt, að bæta við Spænsku sem einu af aðaltungumálunum, enda gerðu þau það að skilyrði fyrir þátttöku sinni.

Ákveðið var að aðalskrifstofa félagsins yrði í Norður-Ameríku. Var það einkum
gert með tilliti til þess að félagið ætlar sér að starfa í sambandi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (W.H.O.) og U.N.E.S.C.O., en þessar stofnanir hafa skrifstofur sínar þar.

Ekki telst ástæða til, að þessu sinni, að greina nánar frá því, sem gerðist á þinginu í París eða skipulagi Alþjóðalæknafélagsins, þar sem gert er ráð fyrir, að lög þess og reglugerð verði fjölrituð ásamt fundargerðinni, eða að minnsta kosti útdráttur úr henni og síðan sent félögum Læknafélags Íslands.

Þess má geta, að Læknafélag Íslands hefir í Alþjóðalæknafélaginu sömu aðstöðu til þess að hafa áhrif á gang mála og læknafélagasamtök stórþjóðanna, svo sem Stóra-Bretlands og Bandaríkja Norður-Ameríku.

Yfirstjórn Alþjóðalæknafélagsins er í höndum sérstaks ráðs 10 lækna, sem kosnir eru á hverju aðalþingi. Að þessu sinni voru þessir valdir í ráðið:

T.C. Routley (Kanada), formaður,

D. Knutson (Svíþjóð), varamaður,

L.H. Bauer (Bandaríkin),

J.A. Bustamante (Kúba),

P. Cibrie (Frakkland),

A. Hartwich (Austurríki),

P.Z. King (Kína),

J.A. Pridham (Bretland),

S.C. Sen (Indland),

L.G. Tornel (Spánn).

Samþykkt var, að næsta aðalþing, 1948, skyldi haldið í Prag.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica