09. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Vegleg siðfræðiráðstefna í Hörpu – Jón Snædal er forseti ráðstefnunnar

 

„Læknafélag Íslands var eitt 27 stofnfélaga WMA, World Medical Association, árið 1947 og sagt er frá þeim viðburði í skemmtilegri grein í Læknablaðinu í desember það sama ár,“ segir Jón Snædal sem var forseti samtakanna fyrir áratug og þekkir starfsemi þeirra til hlítar. Samtökin munu halda ársfund sinn hér í Reykjavík dagana 2.- 4. október en auk hefðbundinna ársfundarstarfa verður augum sérstaklega beint að siðfræði læknisfræðinnar. Er gert ráð fyrir allt að 400 þátttakendum og fara fundurinn og siðfræðimálþingið fram í Hörpu.

                                         
                                         Á stórri ráðstefnu Læknafélags Íslands og WMA, Alþjóðafélags lækna, í
                                        Hörpu 2.-4.október verður fjallað um ýmis siðfræðileg álitamál innan
                                        læknisfræðinnar að sögn Jóns G. Snædal öldrunarlæknis og fyrrverandi
                                        forseta WMA.

„Þetta er í fyrsta skipti í sögu WMA sem ársfundurinn er haldinn hér á landi þannig að það er tími til kominn,“ segir Jón.

 

Líknarmeðferð og líknardráp

„Á aðalfundinum er yfirleitt tekinn frá einn dagur til umfjöllunar um afmarkað efni á sviði læknavísinda en við brydduðum upp á nýjung núna þannig að í stað eins dags fundar efnum við til ráðstefnu í tvo og hálfan dag um siðfræði læknisfræðinnar. Fyrirkomulagið er þannig að ráðstefnan hefst daginn fyrir aðalfundinn, heldur síðan áfram daginn eftir þegar fastanefndir WMA eru að störfum og henni lýkur svo þriðja daginn sem er hinn hefðbundni dagur fyrir vísindaumfjöllunina. Við ákváðum strax í upphafi að fjalla um siðfræðileg efni og því var mjög vel tekið enda er þetta eitt af því sem samtökin fjalla mest um. Umræðan verður breiðari en annars hefði verið og get ég nefnt að töluverðum tíma verður varið í umfjöllun um lífslokameðferð og þá ekki síst svokallaða virka lífslokameðferð þar sem veitt er annaðhvort bein eða óbein aðstoð. Samtökin hafa staðið fyrir fundum í öllum heimsálfum um þetta efni undanfarna 18 mánuði og málþingið hér verður nokkurs konar endapunktur þar sem greint verður frá því hvað þeir fundir hafa leitt í ljós.“

Aðspurður segir Jón að bein dánaraðstoð sé þegar læknir beinlínis deyðir sjúkling. „Af 112 aðildarfélögum WMA er þetta leyft í þremur þeirra og svæðisbundið í fáeinum öðrum löndum. Óbein dánaraðstoð er þegar læknir útvegar efni sem viðkomandi notar sjálfur og er það sjálfsvíg með aðstoð læknis. Þetta verður töluvert til umræðu en það er vert að leggja áherslu á að einnig verður fjallað ítarlega um klíníska líknarmeðferð en þar stöndum við nokkuð framarlega hér á Íslandi.“

 

Mörg siðfræðileg álitamál um erfðafræði

„Annað efni sem verður nokkuð áberandi er erfðafræði en nú er unnið að endurskoðun álits WMA á því sviði og vinnuhópur samtakanna verður að störfum á lokuðum fundi og kynnir svo niðurstöður sínar á opnum fundi á ráðstefnunni.“

Jón segir álitaefni um siðfræði erfðafræðinnar innan læknisfræði vera æði mörg og fjölga eftir því sem greininni fleygir fram. „Við fjöllum um að hve miklu leyti á að upplýsa fólk um erfðafræðilegar niðurstöður sem kannski fást í tengslum við aðrar og óskyldar rannsóknir og ekki var spurt um. Annað efni sem hefur verið mikið í umræðunni hér er hvort rétt sé að finna fólk og hafa samband við það ef það er með tiltekin gen eins og til dæmis BRCA-gen. Þá verður fjallað um hversu langt eigi að ganga með þeirri tækni sem nú er að ryðja sér til rúms innan erfðalæknisfræði þar sem beinlínis er hægt að gera erfðafræðilegar breytingar á fólki í læknisfræðilegum tilgangi. Norræna siðfræðinefndin verður með tvöfalt málþing þar sem fjallað verður um fósturerfðafræði og einnig verður sérstakt málþing um erfðafræði undir stjórn Reynis Arngrímssonar formanns Læknafélags Íslands í samvinnu við Evrópsk samtök, European Society of Human Genetics, Public and Professional Policy Committee.“

Þá verður fjallað um almennari siðfræði lækna sem byggir á Genfar-heiti lækna og var endurnýjað fyrir liðlega ári og LÍ hefur látið þýða og birt í Læknablaðinu. „Hugsanlega verður þetta nýr texti í bókinni góðu sem nýútskrifaðir læknar undirrita þegar þeir fá læknaskírteini sín. Sá eiður sem íslenskir læknar hafa skrifað undir frá 1932 er bókin var fyrst lögð fram er stytt útgáfa af Hippókratesareiðnum. Genfar-heitið byggir á Hippókratesareiðnum og hefur tekið nokkrum breytingum og síðasta breytingin var gerð með mjög víðtæku alþjóðlegu samráði læknafélaga um allan heim. Það er því sameiginleg niðurstaða og kannski eðlilegt að við nýtum okkur það.“

Jón segir að vissulega séu mörg álitamál innan siðfræðinnar sem ekki gefst tími eða tækifæri til að ræða á þessu málþingi. „Hvað varðar fóstureyðingar hafa Norðurlöndin sameiginlega stefnu sem tekin var fyrir 40 árum og hefur smátt og smátt verið að dreifast um heiminn. Á Írlandi var nýverið samþykkt sam-bærileg fóstureyðingalöggjöf og þar með var síðasta vígið í Evrópu fallið ef svo má segja, fyrir utan Vatíkanið. Fulltrúi Vatí-kansins í WMA leggur reyndar ávallt orð í belg þegar þetta málefni ber á góma og þrátt fyrir eindregna afstöðu gegn fóstureyðingum er málflutningur hans ávallt málefnalegur. Í Suður-Ameríku hefur frjálslyndari löggjöf verið að ryðja sér til rúms.“

Áhyggjur hafa aukist vegna aukinna smittilfella mislinga og annarra smitsjúkdóma sem bólusett er fyrir en sumir forráðamenn neita að láta bólusetja börn sín. Jón segir að ekki verði fjallað um þetta enda séu læknafélög og samtök lækna um heim allan algjörlega sammála um nauðsyn og mikilvægi bólusetninga gegn hættulegum smitsjúkdómum. „Þó eru einstaka læknar sem hafa náð einhverri athygli með því að andmæla þessu og samtök leikmanna og einstaklingar hafa náð eyrum fólks með málflutningi sínum gegn bólusetningum. Innan læknaheimsins er þetta ekki umræðuefni enda ekki álitamál.“

 

Árekstur siðfræði og lögfræði

Samskipti læknis og sjúklings hafa breyst verulega á umliðnum árum og snerta þar ýmsa fleti, bæði siðfræðilega og lögfræðilega. „Þetta efni verður tekið fyrir undir yfirskriftinni Góðir starfshættir lækna og Runólfur Pálsson forseti Evrópusamtaka lyflækna verður okkar fulltrúi í þeirri umræðu. Þá verður einnig fjallað um siðfræði rannsókna á mönnum sem byggir á Helsinki-yfirlýsingu WMA. Þar verður fjallað um hversu langt eigi að ganga í rannsóknum á mönnum og hversu mikilvægt sé að upplýsa þátttakendur um eðli rannsóknar. Þar komum við hjá LÍ nokkuð við sögu þegar samin var yfirlýsing WMA um notkun á gögnum um fólk. Þetta var svokölluð Taipei-yfirlýsing en vinna við hana var undir okkar stjórn. Umfjöllun ráðstefnunnar um rannsóknir á mönnum verður væntanlega upphaf endurskoðunar WMA á Helsinki-yfirlýsingunni sem upphaflega var gerð 1964 og hefur verið endurskoðuð á 5-10 ára fresti síðan. Síðast var hún endurskoðuð 2013 en endurskoðunarferlið tekur mörg ár og nú þegar eru komnar upp hugmyndir að breytingum. Það er skemmtilegt að nefna að lokahönd endurskoðunarinnar 2013 var lögð hér á vinnufundi fastanefndar WMA í húsakynnum LÍ og nú er væntanlega að hefjast endurskoðun hennar með umræðum á þinginu í haust.“

Að sögn Jóns er mikið til umræðu í Evrópu hvernig læknar skuli sinna óskráðum innflytjendum. „Þetta voru áður kallaðir ólöglegir innflytjendur en núna eru þeir sagðir óskráðir. Þetta er fólk sem dvelur í viðkomandi landi án vitundar yfirvalda. Um hundruðir þúsunda manna er að ræða í Evrópu og umræðan hefur verið hávær meðal annars í Svíþjóð og Þýskalandi. Á ráðstefnunni verður málþing um hvernig læknar eigi að þjónusta þetta fólk sem er algjörlega utan heilbrigðiskerfisins. Læknir hefur lagalegan rétt til að vísa slíkum einstaklingi frá en siðfræðilega ber honum skylda til að sinna hverjum þeim sem til hans leitar. Þetta er eitt dæmi um árekstur milli þess lagalega og siðfræðilega og kemur oft á tíðum upp en leysist þó oftast með tímanum. Klemman sem læknirinn stendur frammi fyrir getur falist í því að vinnustaðurinn, stofnunin þar sem hann vinnur, setur ákveðnar reglur en það er ekki víst að þær séu samhljóða siðfræðinni sem lækninum ber að starfa eftir.“

Enn eitt umræðuefnið sem Jón nefnir að verði sífellt áleitnara er notkun gervigreindar í læknisfræðilegum tilgangi. „Bandaríska læknafélagið tók að sér að undirbúa málþing um þetta efni og hefur boðið tveimur virtum rannsakendum á þessu sviði að halda erindi á málþinginu. Þetta verður eflaust mjög áhugavert enda hefur tækni á þessu sviði fleygt mjög hratt fram á síðustu árum.“

 

Margir þekktir fyrirlesarar

Af fyrirlesurum sem boðið hefur verið til siðfræðiþingsins nefnir Jón Ilonu Finchley barónessu frá Englandi. „Hún hefur verið mjög virk í umræðu um lífslokameðferð og líknardráp og hún stýrði þeirri umræðu í breska þinginu sem lyktaði með því að líknardráp eru ekki leyfð í Bretlandi. Hún er mjög sterkur andmælandi líknardráps. Ruth Maclean kemur frá Bandaríkjunum og hefur rannsakað siðfræði erfðafræðinnar og Bartha Knoppers frá Kanada hefur rannsakað siðfræði erfðarannsókna. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar verður einnig frummælandi. Kirsty Boyd líknlæknir kemur frá Skotlandi og Otmar Kloiber framkvæmdastjóri WMA mun fjalla sérstaklega um sögu samtakanna og hvað þau standa í rauninni fyrir. Ég nefni þessa fyrirlesara þar sem þau eru með staka fyrirlestra en síðan eru fjölmargir fyrirlesarar og frummælendur sem koma fram á málþingum innan ráðstefnunnar og best er fyrir þátttakendur að kynna sér í dagskrá.“

Umfang aðalfundarins og ráðstefnunnar er verulegt en fulltrúar WMA eru um 200 talsins og síðan er gert ráð fyrir jafnmiklum fjölda sem sækir ráðstefnuna. „Þetta verða því líklega á fimmta hundrað manns sem sækja bæði ársfundinn og ráðstefnuna og sannarlega ánægjulegt að Læknafélag Íslands skuli bera hitann og þungann af svo stórri samkomu. Við njótum síðan krafta aðalskrifstofu WMA en við höfum átt mjög gott og náið samstarf við starfsfólk hennar undanfarna mánuði,“ segir Jón Snædal að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica