07/08. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Miklar væntingar gerðar til fjarheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Í lok maí stóðu Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) og Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) fyrir sameiginlegu málþingi á Kirkjubæjarklaustri. Tilefnið var upphaf á innleiðingu á notkun á fjarheilbrigðisþjónustu á 8 nýjum stöðum á Suður- og Austurlandi. Tækjabúnaðurinn sem um ræðir var keyptur fyrir styrkfé velferðarráðuneytisins frá fyrirtækinu AMD Global Telemedicine. Tæki HSU eru staðsett í Laugarási, Hellu, Hvolsvelli og Vestmannaeyjum en tæki HSA eru á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað.

                                      
                                      Sigurður Árnason læknir á Kirkjubæjarklaustri og Riley Normandi frá
                                      AMD Global Telemedicine við hluta af fjarlækningarbúnaðnum sem
                                      staðsettur er á heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri. Fram kom á
                                      málþinginu að þjálfun starfsmanna á nýju tækin er hafin og það er hugur
                                      í heilbrigðisstarfsfólki og stjórnendum HSA og HSU að leggja sitt af mörkum
                                      við að jafna aðgengi íbúa á landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu.

Frumkvöðulsstarf á Kirkjubæjarklaustri

Kirkjubæjarklaustur er gott dæmi þar sem fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið innleidd að frumkvæði heimamanna. Ástæðan er sú að þar er ekki alltaf læknir á staðnum en það er þá hlutverk hjúkrunarfræðingsins á staðnum að sjá til þess að læknirinn fái upplýsingar og gögn en á Klaustri hafa verið tæki til fjarheilbrigðisþjónustu í 5 ár og gefist einstaklega vel. Fimm fyrirlestrar voru haldnir á málþinginu en það voru þau Auðbjörg Bjarnadóttir hjúkrunarstjóri Kirkjubæjarklaustri, Guðjón Hauksson forstjóri HSA, Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri HSU og þeir Eric Bacon forstjóri og Riley Normandin framkvæmdastjóri alþjóðaviðskiptadeildar AMD Global Telemedicine fyrirtækisins þar sem fjarlækingatækin voru keypt.

                                       
                                       Um 50 stjórnendur úr heilbrigðiskerfinu ásamt erlendum gestum og
                                       sérfræðingum mættu á málþingi um fjarlækningar á Kirkjubæjarklaustri
                                       28. maí í vor.

Miklar væntingar til fjarheilbrigðisþjónustu

Á málþinginu kom meðal annars fram að væntingar eru miklar til fjarheilbrigðisþjónustu, ekki eingöngu til notkunar á nýrri tækni heldur einnig væntingar sem fólgnar eru í því að geta fært sérhæfða heilbrigðisþjónustu nær íbúum í dreifðum byggðum. „Árangur af verkefnum á sviði fjarheilbrigðisþjónustu hefur oft skilað miklu hagræði, sem er meðal annars fólgið í því að sjúkraflutningum hefur fækkað, ferðakostnaður skjólstæðinganna sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda hefur minnkað og skilað betri nýtingu sérfræðinga og fagfólks. Verkefni sem þetta er ekki hugsað til að leggja niður þjónustu eða spara,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, um leið og hún leggur áherslu á að fjarheilbrigðisþjónustan snýst um að nýta tíma og fjármuni á sem bestan hátt á sama tíma og þjónustan er færð nær íbúum með aukinni samvinnu fagaðila innan og milli stofnana í heilbrigðisþjónustu. „Það sem er mikilvægast er að sjúklingur fáir skoðun og úrlausn í sínu héraði þegar þess er kostur,“ segir Herdís.

 

Búnaðurinn er tengdur við Sögu

Búnaðurinn sem HSA og HSU keyptu gengur með öðrum tölvubúnaði og hann má nýta á margan hátt og búið er að samtengja tækin við rafræna sjúkraskrárkerfið Sögu. Fjarheilbrigðistækjunum fylgja ýmis tæki, meðal annars til að mynda í eyru, augu, munn, húð. Að auki fylgja hjartsláttarrit, blóðþrýstingsmælir, mettunarmælir, hjartalínurit og öndunarmælir. Tæknin býður upp á þrívíddarskoðun, þar sem hægt er að skoða hreyfingu sjúklings og fleira. Samhliða almennri heilsugæsluþjónustu og þjónustu sérgreinalækna má einnig nýta búnaðinn til bráðaþjónustu, sálfræðiþjónustu, fjareftirlit með sjúklingum, heimahjúkrunar og fjarþjálfunar. „Svona tæki gætu mögulega verið til staðar til dæmis í skólum og á fjölsóttum ferðamannastöðum eða litlum þéttbýlisstöðum þar sem engin heilbrigðis- eða læknisþjónusta er venjulega til staðar,“ bætir Herdís við.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica