07/08. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Háskaferðir héraðslæknis fyrir einni öld - um Ingólf Gíslason

Á aldarafmælinu höfum við minnst frækinna frumkvöðla sem allir kannast við. Mér barst í hendur nær aldargamalt póstkort með jólakveðju frá Ingólfi Gíslasyni, sem þá var héraðslæknir í Vopnafirði, til Skúla Guðjónssonar stud. med. (sjá mynd). Það ýtti við mér að rifja upp sögu hans sem fulltrúa gleymdu einyrkjanna sem með fábreyttum tækjakosti og meðferðarúrræðum stóðu við rúmstokk sjúklinga og urðu að lækna eða líkna, oft örmagna eftir háskalegar svaðilfarir um fjöll og firnindi.

                                      
                                       Ingólfur Gíslason læknir var  bláfátækur bóndasonur, fæddur 1874 og
                                       uppalinn að Þverá í Fnjóskadal.

Ingólfur Gíslason var bláfátækur bóndasonur, fæddur 1874 og uppalinn að Þverá í Fnjóskadal. Hann lýsir skemmtilega í minningabók sinni, Læknisævi, æskuárunum, námi í Menntaskólanum í Reykjavík og síðan Læknaskólanum og kennurum þar, Guðmundunum þremur. Eftir útskift í febrúar 1901 vann hann um vorið á sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn og var skipaður héraðslæknir í Reykjadal í Þingeyjarsýslu í ágúst sama ár. Ekki leið á löngu þar til hann 2. ágúst fékk að reyna á eigin skinni hættuna af því að veikjast af botnlangabólgu úti á landsbyggðinni: „Ég varð sjálfur eitt af fyrstu og erfiðustu viðfangsefnunum í þeirri grein norðanlands,“ segir hann. Eftir fjögurra daga kölduköst, lítt þolandi kvalir og nokkuð háan hita var lagt af stað með hann í kistu á kviktrjám: „Settir voru plankar á hlið tveggja, stilltra hesta og kista með sjúklingnum sett þversum á trén. Tveir hraustir menn gengu og studdu kistuendana og þriðji maður reið eða gekk á undan og teymdi. Ég lá í kistunni, hreyfingin var ónotaleg og þrautin óx, en til allrar hamingju held ég, að ég hafi verið hálf meðvitundarlaus með köflum.“ Fyrra daginn var farið yfir Reykjaheiði og gist um nóttina að Hálsi í Fnjóskadal, og seinni daginn „ferjað yfir Fnjóská, sem þá var óbrúuð, og svo haldið eftir bröttum, ósléttum, krókóttum vegi yfir Vaðlaheiðina niður að sjó hjá Veigastöðum, ferjað yfir Eyjafjörð og kistan loks borin af bryggjunni á sjúkrahúsið. Mun það ferðalag hafa minnt á líkfylgd, því góðgjarnir og hjálpsamir menn komu þarna til aðstoðar, hjálpuðu til að bera, en aðrir fylgdust með eins og gengur.“ Guðmundur Hannesson og Steingrímur Matthíasson nýútskrifaður skáru hann svo upp og Matthías Einarsson nemandi svæfði. Nú tóku við blóðuppköst, hita- og svitaköst og loks var hann borinn út af sjúkrahúsinu 9. desember og vóg þá 40 kg. Þetta mun hafa verið fyrsti botnlangaskurðurinn á Íslandi.

                                   
                                                   Póstkortið frá 1921, mynd af kauptúninu á Vopnafirði.

                                                                                                                                                                           7/12 1921.
                                      Kæri Skúli! Bestu þakkir fyrir síðast.

                                     Alt vel hjer. Hefi haft töluvert að gera, nýl. orðið að hjálpa 3 konum í
                                     barnsnauð, taka 2 börnin með töngum alt slisalaust og ánægjulegt. Töluvert
                                     um lungnabólgu hjer en slarkast af. Sendu mjer línu um horfur og stefnur og
                                     áhugamál, stjettarmálefni, laus hjeruð etc. Við biðjum kærl. að heilsa Dyllu
                                     og Auði et Co. Óskum ykkur öllum gleðil. jóla og góðs árs. Kærar kveðjur frá
                                     konu og Obbu og mjer, þinn I. Gíslason.

 

Árið 1906 varð Ingólfur héraðslæknir í Vopnafirði. Í minningabókum sínum segir hann frá svaðilförum til að sinna sjúklingum, meðal annars Lárusi:

                                         
                                                                          Kápan á bók Ingólfs: Læknisævi.

„Við héldum af stað ríðandi inn Tangann, fórum af baki í sköflum, skeiðriðum sandinn fyrir fjarðarbotninum, teymdum yfir Hofsá á lélegum ís, og svo var löng ferð út með firðinum. Ekki sá til sólar, jörðin hulin snjó, brotin og bækluð brú á Gljúfurá, mannskæð heiði framundan og svo áhyggjurnar út af veslings Lárusi. Allt þetta gerði ferðalagið fremur ömurlegt, ekki að tala um að syngja eða kveða, né segja kýmnisögur, sem annars var oft gripið til, þegar skár lá á manni, til þess að stytta stundir og veginn.

Loks komum við að heiðinni, og árennileg var hún ekki í myrkri og norðan garraveðri seint á þorra. Þessi austfirska Hellisheiði er há og illviðrasöm, og sé nokkuð að ráði villzt af réttri leið, er viðbúið að lenda í sjálfheldu eða hrapa fyrir björg.

Er við komum á efsta bæinn, áður en lagt var á heiðina, var það ráð tekið að skilja hestana eftir, fela þá góðra manna umsjá og fara svo fótgangandi, skíðalaust yfir heiðina, því að hún er þannig vaxin, að erfitt er oft að koma skíðum við; brekkan að norðan mjög brött og löng, naumast hægt að skáskera neitt, en fyrirhöfn að draga skíðin eða bera svo langa og erfiða leið. Þegar upp á Varpið kemur, eftir eins til tveggja klukkutíma strit, fer brátt að halla undan fæti niður í dalskoru, sem liggur eftir endilangri heiðinni. Svo er að lesa sig eftir Köldukinn í hliðarhalla niður á Fönn, en þaðan er snarbratt niður á jafnsléttu. Fagurt er útsýni af Fönn, suðurbrún heiðarinnar, þegar bjart er, einkum á vorin; sést yfir Héraðsflóa, allt Úthéraðið og hinn fagra fjallahring sunnan við það. Nú sást ekkert fyrir myrkri. Á fyrsta bæ, er komið var að sunnan heiðar, fengum við hesta, og reið bóndi með okkur þær tvær bæjarleiðir sem eftir voru. Allir vildu leggja Lárusi lið, því að hann var góður maður og vinsæll.

Ég fór af baki við bæ sjúklingsins, skóf af mér mesta snjóinn og fór úr vosklæðum. Svo var ég stirður og þreyttur, að ég kveið fyrir að ganga inn þröng göngin og upp rimlastigann í baðstofuna, sem var nokkurs konar loftherbergi yfir fjósinu. Kýrnar sáu fyrir upphitun, en andrúmsloftið var ekki gott. Baðstofunni var skipt í tvennt, þótt skilrúmið næði raunar ekki nema svo sem í öxl, en opið fyrir ofan. Tvö föst rúm voru fyrir stafni í innra herberginu, sem var ca. 3 ½ metri á hvorn veg, en lágt undir loft. Sjúklingurinn lá í öðru rúminu eða, réttara sagt, sat uppi við herðadýnu, því að honum lá við köfnun. Barnakennari sveitarinnar hafði verið fenginn til þess að vera hjá honum og veita honum nábjargir, ef hann skyldi deyja, áður en til læknis næðist og stóð nú hálfboginn yfir honum, studdi hann og þurrkaði af honum svitann. Æðaslátturinn var tíður og daufur, andlitið blárautt, og sá ég strax, að ekki var ofsögum sagt af vanlíðan hans. Sjúklingurinn var mjög framsettur og allt að því helmingi meiri um mittið en hann átti að sér. Nú var ekki til setu boðið. Maðurinn virtist dauðans matur hvort eð var og því engu spillt, þótt reynt væri að „óperera“.

Ég tók verkfærin upp úr töskunni og lét þau í vatnspott yfir olíuvél, þvoði mér rækilega og lét kennarann gera slíkt hið sama. Enginn af viðstöddum hafði séð mannsblóð, nema vætl úr smáskeinu, og enginn hafði verið við svæfingu, né neitt í þá átt. Ég tók grennsta bóndann, sem Eiríkur hét og var oft fylgdarmaður minn á ferðalögum, tróð honum upp fyrir sjúklinginn undir súðina, höfðalagsmegin, fékk honum svæfingagrímu og æther-glas og sagði honum að láta leka hægt og hægt í grímuna yfir vitum sjúklingsins.

Ég bar nú joðáburð á skurðsvæðið og skar ca. 8 sentimetra langan skurð gegnum magálinn, þar sem ég áleit hægast að komast að sullinum. Ég reyndi nú að sauma sárbarmana við lifrina, en gekk það hálfilla, því að allir vefir voru svo þandir. Því næst risti ég á sullinn og spenntist innihaldið hátt í loft upp og vall út yfir rúmið, ofan á gólfið og lak niður í gegnum það, því að öll gólfborðin voru  gengin af plægingum og rifur á milli þeirra. Lárusi tók óðum að létta og hægjast um andardrátt. Eiríkur hafði verið mjög spar á ætherinn, svo að sjúklingurinn gat strax farið að láta vel af líðan sinni, meðan sullvökvinn og ósprungnar smáblöðrur runnu í stríðum straumum ofan í skálina, sem nú var komin undir bununa.

Ég varð að snúa heimleiðis eftir sólarhring og samvizkan var í versta lagi út af því að skilja Lárus þarna eftir hjálparlítinn. En svo var það hálfri annarri viku seinna, að sást til mannaferða, stór hópur manna kom fyrir fjarðarbotninn með æki. Og er fylking þessi kom í kauptúnið, varð það ljóst, að hér voru komnir 12 sveitungar Lárusar og dróu hann í rúmi á sleða. Þeir höfðu ekið honum á sjálfum sér, því að hesti varð ekki við komið vegna ófærðar. Lárus var nær dauða en lífi, því að sárið hafðist ekki vel við. Lá hann nokkrar vikur í litlu sjúkraskýli héraðsins; náði ég út aðal-sullhúsinu smátt og smátt, og fór meinið þá að gróa. Lárus fór heim hinn hraustasti og kenndi sér einskis meins af þessu eftir það, kvæntist, lét fyrsta drenginn heita í höfuðið á mér, og er sögunni þar með lokið.“

Margar sögur í minningabókum Ingólfs fjalla um konur í barnsnauð. Í eitt skiptið var lagt af stað í morgunrökkri upp í Hólsfjöll þar sem rúmlega fertug kona var að berjast við að fæða á afskekktum bæ. Fara þurfti 75 kílómetra leið yfir Haug, „einn lengsta og illúðlegasta fjallgarð á Íslandi, þar sem hvergi sást í dökkan díl nema utan í hæstu fjallagnípum.“ Um kvöldið koma þeir Ingólfur og fylgdarmaðurinn í Austarasæluhús, þar koma tveir veðurbarðir menn ofan af Fjöllum og taka við fylgdinni yfir fjallið um nóttina. „Loks komum við á háa brekkubrún. Þar var harðfenni, því að lausa snjóinn hafði rifið burtu. Við höfðum enga mannbrodda og lélega stafi, duttum því brátt og runnum niður alla þessa bröttu brekku á hraðri ferð. Ég skil ekki, að við skyldum ekki slasast eða farast með öllu, þegar við þeyttumst þarna niður á ýmsum endum, höfuðið vanalega á undan, en stórir og smáir steinar stóðu upp úr fönninni hér og hvar.

Þegar heim undir bæinn kom, heyrðum við hljóðin í konunni. Ljósmóðirin hafði vakað hjá henni alla nóttina, og maðurinn hennar hafði lítið sofið, en hitt fólkið var að tínast á fætur.“ Ingólfur lét nú sjóða verkfæri. „Einhver tók að sér að láta klóróformið leka í síuna, og var nú öllum aðstoðarmönnum sagt fyrir verkum, en þeir, sem hræddir voru eða óþarfir, reknir út. Þreytan gleymdist og óperationin gekk slysalaust. Töluvert staut var við að lífga barnið, sem var orðið líflítið, en loks orgaði það. Þá var næst að þrýsta út fylgjunni, sem var nokkuð föst: svo að stöðva blæðingu og slíkt; en allt gekk þetta vel að lokum. Og þegar gengið hafði verið frá konunni, sælli að afstaðinni þraut, með reifastrangann við hlið sér, var sezt að borði og etið með góðri lyst.“ Ingólfur lagði af stað næsta morgun og „náði heim, heilu og höldnu, á tveimur dögum.“

Um þessar mundir voru hvorki sýklalyf né bólusetningar komin til sögunnar. Ingólfur segir sögur af glímum sínum við sýkingar. Hann var sóttur til stúlkubarns á sjötta eða sjöunda degi veikinda sem hann greindi sem barnaveiki. „Ég dældi í hana miklu af serum, en þetta var orðið svo seint og því ekki við góðu að búast og ég fór heim leiður og kvíðandi. Þegar ég sá sjúklinginn næsta dag, var hún mun lakari, hitinn að vísu heldur minni, en nú átti hún ógn bágt með að anda og andardrættinum fylgdi hátt og skerandi sog, andlitið dálítið bláleitt og með þjáningasvip.

Ég sagði föðurnum, að mig langaði til að reyna að gera barkaskurð. Það væri það eina, sem hugsanlegt væri að hjálpað gæti, en slíks hafði aldrei heyrzt getið þar um slóðir og sá ég á svip bónda, að hann var trúdaufur á árangur og áliti réttara og lofa barninu að deyja í næði, en ekki fara að særa það svona sjúkt og vesælt. Ég var að vísu enginn skurðlæknir – í þeim efnum fékkst auðvitað engin æfing þarna – aldrei hafði ég gert þessa óperation nema á líki. Þegar ég útskrifaðist var þetta prófraunin mín og einu sinni hafði ég séð Guðmund Magnússon opna barka á barni, þegar ég var í læknaskólanum. Ég var samt nokkuð öruggur, vissi líka, að hér var ekkert undanfæri og þá var bara að gera sitt bezta, svo yrði Guð og lukkan að ráða.“ Aðgerðin tókst vel, barnið hafði barkapípu nokkra daga og heilsaðist síðan mjög vel.

Ingólfur ömmubróðir minn var glaðlyndur maður og hrókur alls fagnaðar í samkomum. Í fermingarveislu minni hélt hann ræðu þar sem hann skopaðist að sjálfum sér með því að segja sögu af því  þegar hann var kallaður í örreytiskot upp til fjalla að skera upp vegna meins í kvið. Náð var í fjóshurð, sjúklingur lagður flatur á hana og kviðurinn opnaður. Garnirnar voru settar í vaskafat við hlið hans meðan meinið var fjarlægt. Þegar svo átti að koma görnunum fyrir aftur í kviðarholinu hafði hundur heimilisins hámað í sig slatta af þeim. Tók nú við langur og strembinn saumaskapur til að tengja saman óétnu bútana en allt blessaðist og sjúklingnum heilsaðist vel. Þessi ræða vakti mikla kátínu hjá öllum veislugestum nema henni mömmu minni sem átaldi Ingólf fyrir að eyðileggja matarlyst gestanna.

Í póstkortinu frá 1921 er Ingólfur að grennslast eftir lausum héruðum, sem er ekki að undra. Einangrunin gat haft sína kosti ef athyglin var vakandi, hann tók eftir og lýsti fyrstur meðgöngutíma lifrarbólgu A eins og Haraldur Briem segir skemmtilega frá í júníhefti Læknablaðsins. Ingólfur var skipaður héraðslæknir 1923 í Borgarfjarðarhéraði þar sem hann var  til 1941, þegar hann fluttist til Reykjavíkur. Hann lést 1951.   

Kaflar innan „gæsalappa“ eru úr bókum Ingólfs Gíslasonar: Læknisævi (1948) og Vörður við veginn (1950).Þetta vefsvæði byggir á Eplica