07/08. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

„Þurfum að taka umræðu um endurskoðun og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins” – segir María I. Gunnbjörnsdóttir formaður Félags sjúkrahúslækna

Nýtt aðildarfélag Læknafélags Íslands leit dagsins ljós 18. janúar á Læknadögum þegar haldinn var stofnfundur Félags sjúkrahúslækna. Stofnun félagsins kemur í kjölfar mikilla breytinga á skipulagi Læknafélags Íslands sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi. Niðurstaða vinnuhóps á vegum Læknafélags Íslands var að fjögur félög: Læknafélag Reykjavíkur, Félag íslenskra heimilislækna, Félag almennra lækna og Félag sjúkrahúslækna yrðu aðildarfélög Læknafélags Íslands með tvo fulltrúa hvert í stjórn LÍ og færu með atkvæði félagsmanna sinna á aðalfundi LÍ.

                                   
                                    María I. Gunnbjörnsdóttir er formaður Félags sjúkrahúslækna. Hún er
                                    hér ásamt stjórn félagsins, frá vinstri: Ólafur Helgi Samúelsson gjaldkeri,
                                   Ragnheiður Baldursdóttir meðstjórnandi, María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir
                                   formaður, Sunna Snædal ritari og Hjörtur Friðrik Hjartarson varaformaður.

Hið nýja félag á að rúma alla sérfræðilækna sem starfa á sjúkrahúsum og opinberum stofnunum og skarast þannig að nokkru leyti við Læknafélag Reykjavíkur sem er félag sjálfstætt starfandi lækna. Eins og fram kom á fundinum er ekkert sem hindrar þá er vilja að vera félagar í báðum félögum. Sjúkrahúslæknar voru áður flestir í Læknafélagi Reykjavíkur og Læknafélagi Akureyrar.

Í fyrstu stjórn Félags sjúkrahúslækna sitja María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir formaður, Hjörtur Friðrik Hjartarson varaformaður, Ólafur Helgi Samúelsson gjaldkeri, Sunna Snædal ritari og Ragnheiður Baldursdóttir meðstjórnandi.

Hverjir eru helstu hagsmunir félagsmanna?

Helstu hagsmunir félagsmanna snúa að starfsumhverfi í víðum skilningi, vinnuaðstöðu, endurmenntun, gæða- og kjaramálum, svo eitthvað sé nefnt. Skilgreiningar á verkefnum og skýrar starfslýsingar eru mikilvægar sem og sameiginleg túlkun á eðlilegu vinnuframlagi og ábyrgð lækna. Mikið álag einkennir vinnudag margra sérfræðilækna og því er nýliðun mikilvæg til að tryggja að vinnuálag sé hæfilegt. Við þurfum að horfast í augu við að læknar geta misst starfsgetu til lengri eða skemmri tíma ef álag er óviðunandi. Það að hafa áhrif á sínum vinnustað er mikilvægt, eflir fólk í starfi og eykur starfsánægju.

Hvaða mál brenna helst á sjúkrahúslæknum?

Starfsumhverfi lækna er okkur hugleikið og í því felst uppbygging heilbrigðisþjónustu landsmanna og skilgreining verkefna á hverju þjónustustigi. Kerfin þurfa að vinna saman með heildarhagsmuni landsmanna að leiðarljósi því við eru á einhverjum hluta ævinnar öll neytendur og greiðendur fyrir þessa þjónustu.

Þjóðin er sammála um að heilbrigðis-þjónusta sé mikilvæg, eigi að vera í forgangi og við þurfum að taka þessa umræðu. Regluleg endurskoðun á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á að vera sjálfsögð, með gæði og hagkvæmni að leiðarljósi.

Við þurfum skýra framtíðarsýn, langtímamarkmið að geta byggt upp heilbrigðisþjónustu landsins. Félagið telur að læknar eigi að hafa meiri áhrif á þá vinnu og leiðbeina stjórnvöldum.

 

Áherslumál

Á hvaða mál munt þú sem formaður leggja áherslu?

Verkefni haustsins er að hefja samtal við sérfræðilækna. Kanna hvaða málefni liggja félagsmönnum á hjarta. Markmið félagsins eru fjölþætt og nauðsynlegt að forgangsraða í samráði við félagsmenn. Sem formaður tel ég að mitt mikilvægasta verkefni sé að halda yfirsýn, vinna að settum sameiginlegum markmiðum félagsins til framtíðar og þannig stuðla að öflugri læknisþjónustu í samvinnu við öll aðildarfélög Læknafélag Íslands.

Samstaða lækna er lykilatriði því þannig náum við árangri hvað varðar nýliðun, mönnun, álag, starfsumhverfi, endurmenntun og kjaramál. Á þann hátt tryggjum við gæði þjónustunnar sem við veitum.

Þar sem félagið er nýstofnað hefur þurft að huga að praktískum atriðum sem óneitanlega taka sinn tíma. Stjórnin hefur fundað reglulega, stillt saman strengi, skipt með sér verkefnum, tekið þátt í fundum á vegum LÍ, undirbúið félagaskrá og fyrsta félagsfund.

Mikilvægt er að allir sérfræðilæknar taki afstöðu til aðildarfélaga fyrir 15. ágúst næstkomandi en þá rennur út frestur til að ganga í félagið þannig að atkvæði félagsmanna sé í nafni Félags sjúkrahúslækna á aðalfundi LÍ sem haldinn verður 7.-9. nóvember.

Hægt er að skrá sig í félagið á einfaldan hátt með því að svara tölvupósti frá LÍ „Skipulagsbreytingar Læknafélags Íslands“. Fyrsti tölvupósturinn var sendur út 11. júní síðastliðinn en það koma fleiri.

 Fyrsti félagsfundur verður 13. september næstkomandi. Hann verður auglýstur ítarlega síðar. Eftir 15. ágúst liggur fyrir félagaskrá og þá hefjast bein samskipti stjórnar við sína félagsmenn með tölvupósti og á fésbókarsíðu.

 

LR eða FAL?

Nú skarast starfsvettvangur margra lækna við að minnsta kosti þrjú af félögunum. Hvaða rök eru fyrir því að þeir eigi að velja ykkar félag frekar en Læknafélag Reykjavíkur eða Félag almennra lækna?

Félag sjúkrahúslækna er fyrir alla sérfræðilækna sem starfa á heilbrigðisstofnunum. Samkvæmt lögum félagsins eru heilbrigðisstofnanir sjúkrahús, opinberar eða sjálfstæðar stofnanir eða fyrirtæki. Allir læknar sem telja hagsmunum sínum best borgið innan félagsins ættu að íhuga að ganga í Félag sjúkrahúslækna. Stjórn félagsins mun starfa af heilindum fyrir hönd félagsmanna að hagsmunamálum þeirra. Samráð og samtal er lykilatriði. Félag almennra lækna er félag lækna sem hafa ekki lokið sérnámi.

Er það félaginu í hag að læknum sé gert kleift að vinna hlutastarf á stofnun og hlutastarf á stofu? 

Félagið styður fjölbreytni í atvinnulífi og valfrelsi lækna. Samstarf ásamt sveigjanleika er krafa nútímans. Læknar leggja meiri áherslu á fjölskylduvænni vinnuaðstæður en áður tíðkaðist. Á tímum þar sem skilin milli vinnu og frítíma verða sífellt minni er mikilvægt veita þessu athygli. Eðli starfsins krefst þess og því mikilvægt að huga að þessum þáttum. Það getur hentað bæði læknum og atvinnurekenda að viðkomandi sé í hlutastarfi, við verðum að vera lausnamiðuð og tala saman. Það getur einnig verið hagstætt að einstaklingar skipti með sér starfi, að vinnuframlag og skipulag vinnu þeirra sé eins og um 100% starfsmann sé að ræða. Það eru margar leiðir færar en lykilatriðið eru samræður og gagnkvæmur skilningur.

Hagsmunir stofulækna og sjúkrahúslækna fara stundum saman og stundum ekki. Hvernig lítur þú á þetta?

Við erum öll að vinna að sama markmiði. Við viljum fyrst og fremst veita góða þjónustu með því að nota sérfræðiþekkingu okkar til lækninga eða líknar veiku fólki. Fjöldi sjálfstætt starfandi sérfræðinga eru öflugir sjúkrahúslæknar og gegna mikilvægum hlutverkum á báðum stöðum. Að mínu mati hljóta hagsmunir okkar og markmið að vera sameiginleg þegar kemur að framtíðarsýn og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Sem fyrr segir styðjum við fjölbreytni og atvinnufrelsi lækna og teljum umfram allt að valmöguleikar og heilbrigð samkeppni séu af hinu góða.

Er þetta félag fyrst og fremst ætlað sérfræðingum starfandi á sjúkrahúsum?

Nafn félagsins gefur þá mynd en samkvæmt lögum félagsins eru sérfræðingar sem vinna á öðrum opinberum stöðum eins og Vinnueftirlitinu, hjá velferðarráðuneyti og Embætti landlæknis velkomnir í félagið, sem og læknar sem vinna á Reykjalundi, NLFÍ, Greiningarstöð ríkisins og í öðrum fyrirtækjum. Rödd okkar allra þarf að heyrast innan Læknafélags Ísland og ná eyrum stjórnvalda. Læknar hafa þekkingu á heilbrigðisþjónustu og eiga að vinna sameiginlega og af metnaði að þeim málum með hagsmuni landsmanna allra að leiðarljósi.

 

Kjarasamningar

Stefnið þið að því að fá að semja beint við ríkið eða í gegnum sameiginlega samninganefnd LÍ?

Læknafélag Íslands er okkar móðurskip og sameiningartákn. Samstaða meðal lækna er lykilatriði þegar kemur að kjarasamningum og teljum við eðlilegt og æskilegt að samninganefnd LÍ finni fyrir stuðningi allra aðildarfélaga í komandi samningum.

Eigendur Læknablaðsins hafa um langa hríð verið Læknafélag Reykjavíkur og LÍ. Nú verða væntanlega breytingar á því. Hvernig sérðu aðkomu ykkar félags að útgáfu blaðsins?

Mikilvægt er að skoða aðkomu allra aðildarfélaga LÍ að Læknablaðinu. Við þurfum að ræða rekstur og markmið blaðsins til að þessi sameiginlegi vettvangur lækna fyrir upplýsingagjöf, fræðslu, faglega umræðu og síðast en ekki síst innlend vísindastörf standi traustum fótum. Til þess þarf sterka aðkomu aðildarfélaga LÍ í samvinnu við sérgreinafélögin. Við teljum eðlilegt að rekstur Læknablaðsins sé í höndum LÍ.

Hvernig sérðu hlutverk Læknafélags Íslands þróast miðað við breytt skipulag og stjórn þess?

Samvinna aðildarfélaga með auknum áhuga lækna á félagsmálum sínum er
óskastaða. Læknar þurfa að hafa áhrif á þróun heilbrigðismála og rödd þeirra þarf að heyrast. Formaður Læknafélagsins hefur nú þegar viðrað margar góðar hugmyndir og hrint mörgum þeirra í framkvæmd. Ég og stjórn Félags sjúkrahúslækna erum full tilhlökkunar. Það eru spennandi tímar framundan þar sem aðildarfélög LÍ munu undir forystu formanns LÍ hefja störf undir nýjum formerkjum sem vonandi verður framfaraskref fyrir læknastéttina. Hvernig þetta nýja skipulag þróast kemur í ljós í fyllingu tímans.

Það hefur margoft verið bent á óheyrilegt vinnuálag á sjúkrahúslæknum, mikla vaktabyrði og skort á sérfræðingum til að manna vaktalínur. Er efling göngudeilda lausn á vandanum? Hvar kreppir skórinn mest og hverjar eru lausnirnar að ykkar mati?

Vinnuálag er mikið í mörgum sérgreinum og það er nauðsynlegt að ráða fleiri sérfræðinga til starfa. En stundum er hreinlega skortur á sérfræðilæknum í viðkomandi sérgrein. Vinnuálag er því mikið á fáum einstaklingum sem í sumum tilfellum flosna upp vegna þessa. Við verðum að vera samkeppnishæf með því að vera í fararbroddi og gera það eftirsóknarvert fyrir unga sérfræðilækna að starfa á Íslandi.

Efling dag- og göngudeilda er hluti af lausn vandans fyrir afmarkaða sjúklingahópa en leysir ekki stærri vanda sem Landspítali glímir við daglega. Við þurfum öflugar göngudeildir fyrir okkar veikasta fólk, auk skurðstofurýmis og legudeilda. Aðkoma margra fagstétta er oft nauðsynleg og heildræn sýn á sjúkling er mikilvæg til að tryggja sem bestan árangur. Hækkandi aldur þjóðarinnar er áskorun nú og til framtíðar. Viðvarandi skortur á úrræðum fyrir aldraða einstaklinga með færni- og heilsumat þarfnast sérstakrar athygli stjórnvalda. Langtímadvöl þessara einstaklinga á Landspítala er óásættanlegt ástand fyrir þá og fyrir heilbrigðiskerfið.

 

Heilbrigðisstofnanir

En heilbrigðiskerfið þarf að skoða heildrænt og skilgreina í samræmi við verkefni hvers og eins með hag sjúklinga að leiðarljósi. Heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni megum við ekki gleyma og mikilvægt að styðja við þær á fjölbreyttan hátt.

Landspítalinn er óumdeilanleg grunnstofnun í okkar samfélagi hvað varðar ákveðna þjónustu við alla landsmenn og lykilstofnun í menntun heilbrigðisstarfsmanna og á að vera í fararbroddi við rannsóknir og gæði.

Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir einnig mikilvægu hlutverki og er varasjúkrahús Landspítala. Þar er öflug starfsemi og margar sérgreinar. Það sinnir einnig mikilvægu hlutverki við menntun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Það glímir við sömu vandamál, það er mönnunarvanda sérfræðilækna og mikla vaktabyrði.

Stjórnvöld þurfa að skilja mikilvægi þess að fjármagn fylgi öllum þessum stóru og mikilvægu verkefnum. Hagræði og góð nýting er sjálfsögð krafa en sífelldur niðurskurður og óöryggi um fjármögnun dregur úr framþróun og starfsgleði. Við þurfum að laða til okkar starfsmenn með því að vera í fararbroddi.  

Við getum að mörgu leyti verið stolt af heilbrigðiskerfinu en margt þarf að bæta. Við þurfum að leggja metnað í að efla það enn frekar með hag allra landsmanna að leiðarljósi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica