06. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Af hverju svona metnaðarlaus? Hjalti Már Þórisson

Þessa spurningu fékk ég nýlega frá kollega. Undanfari spurningarinnar var afstaða mín til þess hvort hefja ætti formlegt sérnám í myndgreiningu á Íslandi. Ég hafði lýst efasemdum um að það væri endilega heillavænlegt spor að stefna að slíku. Kolleganum fannst það döpur afstaða. Þó ég hafi enga formlega aðkomu að kennslu í myndgreiningu lengur hef ég í gegnum árin sinnt kennslu hjá HÍ og kennt deildarlæknum á Landspítala og get almennt sagt að ég hafi áhuga á kennslu. En mér finnst alls ekki sjálfgefið að til verði íslenskt sérnám í myndgreiningu.

Tilhögun við veitingu sérfræðileyfa á Íslandi er að breytast sem er vel. Það stenst auðvitað enga skoðun að læknar fái sérfræðileyfi frá Íslandi án þess að hafa nokkru sinni stigið fæti inn á íslenska heilbrigðisstofnun og jafnvel gegn vilja þeirra sem viðkomandi læknir var í sínu sérnámi hjá. Dæmi hafa verið um nákvæmlega þetta á síðastliðnum árum. En slíkum breytingum geta fylgt vankantar. Hætt er við því að þeir sem lendi á mörkum gamla og nýja fyrirkomulagsins verði mismunað eða skyldurnar sem gerðar eru til þeirra óljósar. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að slíkar breytingar séu settar fram tímanlega þannig að þeir sem málið snertir hafi ráðrúm til að bregðast við. Og auðvita þarf að horfa í kringum sig og athuga hvað aðrar þjóðir eru að gera þar sem viðbrögð þeirra geta að sjálfsögðu haft mikil áhrif á okkur hér á litla Íslandi.

Eins og ég skil málið er staðan sem blasir við þessi: samkvæmt tilmælum frá ESA munu íslensk heilbrigðisyfirvöld eingöngu veita lækni sérfræðiviðurkenningu ef viðkomandi hefur stundað nám sitt að fullu á Íslandi eða á vegum íslenskra stofnanna, það er að sérnámið hafi farið fram hér, nema viðkomandi læknir hafi þegar fengið sérfræðiviðurkenningu frá öðru landi. Þetta þýðir í framkvæmd að íslensk yfirvöld munu eingöngu veita sérfræðileyfi í geðlækningum og heimilislækningum þar sem það eru einu sérgreinarnar sem eru með fullt viðurkennt sérnám á Íslandi. Þetta er auðvitað talsverð breyting. Hingað til hefur það verið býsna algengt að stunda sérnám erlendis en sækja um sérfræðiviðurkenningu á Íslandi á grundvelli reglugerðar þar að lútandi. Viðbrögðin við þessari breytingu hjá mörgum virðast hallast að því að rétt sé að fjölga þeim greinum sem hægt er að nema að fullu hér á Íslandi. Og þar með erum við kominn að upphaflegu spurningunni. Af hverju er ég það metnaðarlaus að vilja ekki setja upp sérnám í myndgreiningu á Íslandi?

Svar mitt er einfalt. Vegna þess að við höfum ekki sjúklingafjöldan eða almenna burði til að gera það nægilega vel. Það dugir ekki að hafa örfáa aðila sem eru tilbúnir að vinna sjálfboðavinnu við að setja upp slíkt nám. Það þarf deild sem er fjármögnuð og mönnuð með það að leiðarljósi að þar sé hægt að kenna unglæknum fagið. Það er ekki sérverkefni kennslustjóra eða nokkura mentora. Það er verkefni allrar deildarinnar. Ef fjármögnunin og umgjörðin tekur ekki tillit til þessa verður útkoman ekki nægilega góð. Nú ætla ég ekkert að fullyrða um aðrar sérgreina sem vinna hörðum höndum að því að setja upp sérnám. Það verður hver að meta stöðuna fyrir sig. Ég veit að sú vinna er leidd áfram af eldhugum sem fórna miklu fyrir þetta verkefni og ég viðurkenni fúslega að ég dáist að mörgu leyti að frumkvöðlastarfinu.

Íslenskir læknar sækja sérnám sitt víða. Það er að mínu mati einn megin styrkur íslenska heilbrigðiskerfisins. Eftir sérnám erlendis koma sérfræðingar til Íslands og bera með sér nýjustu strauma utan úr heimi. Þeir hitta þar fyrir kollega með ólíkan bakgrunn en þeirra eigin og taka kannski líka eftir ólíkum vinnubrögðum en úr þessu verður til sambræðsla sem ég tel að gefi góða útkomu. Hætt er við því að þetta breytist ef flestir eða allir í ákveðnum greinum sækja nám sitt á sama stað, óháð því hversu vel það nám tekst til. Það er styrkur í fjölbreytileikanum. Svo má heldur ekki gleyma því hversu miklu slíkar breytingar gætu breytt fyrir stofnanir kerfisins. Unglæknar í sérnámi eru gríðarlega mikilvægur starfskraftur. En þar myndast líka ákveðinn átakapóll. Ef stofnanir landsins eru orðnar háðar vinnukrafti í sérnámi, verður þá nægilegt aðhald með gæðum? Verður það raunhæfur möguleiki að sérnámsstöður hverfi ef gæði námsins eru ekki næganlega góð? Verður óháður alvaldur eftirlitsaðili? Þetta eru atriðin sem að mínu mati gera það að verkum að íslenskt sérnám í myndgreingu sé ekki fýsilegur kostur. Mér finnst það ekki metnaðarleysi, heldur þvert á móti.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica