05. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Fórn
Í dag hljóp ég rúntinn minn meðfram gömlu Reykjavíkurhöfn og út á Granda. Sný alltaf við á toppi þúfu Ólafar. Þúfan er upplögð hlaupaleið þaulhyggjumannsins. Á henni getur maður nefnilega hlaupið hring eftir hring og jafnframt komist á hærra plan. Á meðan ég hjassaðist áfram var ég að brjóta heilann um ákveðið málefni sem er umskurður sveinbarna af trúarástæðum. Hvers vegna tóku hirðingjar í Írak upp á þessari einkennilegu siðvenju á átta daga gömlum drengjum? Uppruni þessa siðar er þegar Abraham frá Úr gerði sáttmála við Guð um að Abraham og karlkyns niðjar hans sýndu trúfesti sína í verki. Þessi sami Abraham er einnig trúfaðir múslima og kristinna manna og því trúarleiðtogi fleiri en margan grunar. Páll postuli var þekktur ofsóknarmaður kristinna manna þar til hann fékk vitrun á leið sinni til Damaskus. Hann færði síðar rök fyrir því að andlegur umskurður væri fullnægjandi. Múslimar og gyðingar hafa hins vegar ekki hvikað frá líkamlegum umskurði.
Nú hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi Íslendinga. Þingmenn úr flestum flokkum hafa sameinast um að umskurður, af trúarástæðum, verði gerður ólöglegur á Íslandi. Slíkar aðgerðir eru þó nær aldrei framkvæmdar á Íslandi þó múslimar og gyðingar hafi stundað þessa iðju um nokkra hríð. Í umræðunni örlar á þeim misskilningi að umskurður karla og kvenna séu sambærileg fyrirbæri. Þar er þó eðlismunur á. Í síðara tilvikinu myndi það jafngilda því að limurinn væri skorinn af. Umskurður kvenna er óhæfa sem ber skilyrðislaust að fordæma og stöðva með öllum ráðum. Lagasetning sem hjálpar þar til er nauðsynleg hvarvetna á byggðu bóli.
Við setningu íþyngjandi laga þykir það ávísun á einhug landsmanna að slík lög gildi einungis um aðra en þá sjálfa. Að sama skapi myndu Íslendingar fljótt reka upp ramakvein ef útlendingar dirfðust að hlutast til um sérviskulegar lífsvenjur þeirra. Er með þessu frumvarpi verið að stíga skrefinu of langt í góðri meiningu? Á með slíkri lagasetningu að refsa þeim foreldrum, sem vilja iðka trú sína og hugsanlega fórna þeim sem síst skyldi, börnunum, á refilstigum laga og viðurlaga?
Umskurður sveinbarna er í sjálfu sér einföld aðgerð og langoftast án alvarlegra fylgikvilla í lengd eða bráð. Aðgerðin getur þó haft alvarlegar afleiðingar eins og sannast í leiðbeiningarriti gyðingdómsins, Talmút. Þar kemur fram að þriðja son þurfi ekki að umskera hafi tveimur eldri bræðra hans blætt út eftir slíkt inngrip. Þeir væru sem sagt með arfgengan blæðingasjúkdóm og þá einboðið að sá þriðji færi, umskorinn, sömu leið. Þetta er fyrsta dæmi um erfðaráðgjöf ef frá er talin jarðar-uppfyllingar-skipun Guðs til handa Adam og Evu í aldingarðinum. Hvað gyðingana varðar er umskurður sveinbarna kjarni þeirrar reglufestu sem einkennir umfangsmikið trúar- og samfélagslíf þeirra. Þeir hafa borið þennan mikla en þyngdarlausa farangur, á ferðum sínum eða flótta, öldum saman. Af eljusemi hafa þeir haldið arfi sínum lifandi þrátt fyrir mikið andstreymi á köflum. Allt frá
babýlónísku herleiðingunni og eftir að fjandmenn þeirra brutu ítrekað niður musteri Salómóns konungs í Jerúsalem, ákvað hinn ráðvandi gyðingur að binda ekki andlegt trúss sitt við land né fasteignir.
Hvernig er þessi umskurðarsiður þá hugsaður? Væntanlega átti hann að vera táknrænn og snerta tilvistarlegan kjarna safnaðarins. Sáttmálinn átti trúlega að innibera einhverja fórn, því alkunna er að líf án fórnar er innihaldslaust líf. Abraham var í ofanálag beðinn af almættinu um það „lítilræði“ að fórna lífi frumburðar síns, Ísaks, til þess að sanna trúfesti sína. Hann var stoppaður af á síðustu stundu, því Guð almáttuga virtist ekki hafa órað fyrir því að Abraham væri bókstafstrúarmaður. Með þessum verknaði ræktaði Abraham fullkomlega skyldu sína við Guð, en sveik um leið son sinn gjörsamlega í tryggðum. Þessi skelfilega þverstæða hefur truflað margan angistarmanninn eins og til að mynda heimspekinginn Søren Kierkegaard. Sá var lengi með böggum hildar yfir þessum frumsvikum föður gagnvart syni sínum og ekki virðist enn bitið úr nálinni með þetta vandræðamál að Freud gengnum.
Sem þvagfæraskurðlæknir hef ég oft verið spurður um afstöðu mína til umskurðar af trúarástæðum og þessa frumvarps. Ég hef framkvæmt fjölda slíkra aðgerða en bara einu sinni af trúarástæðum hérlendis. Drengurinn fékk myndarlega blæðingu á eftir og ég iðraðist að hafa ljáð máls á þessu enda er fylgikvillaleysi frumkrafa allra óþarfa læknisfræðilegra inngripa. Ég tel téðan umskurð falla undir slík inngrip og er að því leyti honum mótfallinn. Hér þarf þó að mörgu hyggja og þörf víðari sýnar þó svo maður skynji góðan vilja að baki frumvarpinu. Getur það verið viturlegt að vanda um fyrir ævafornum trúar- og menningarsamfélögum með íslenskri lagasetningu af þessu tagi? Væri kannski farsælla að slíkar breytingar kæmu innan úr viðkomandi samfélögum heldur en utan frá?
Nú á dögum fer trúarlegur agi hratt þverrandi sem og agi foreldra yfir börnum sínum. Trúarbrögð í sínu tærasta formi eru agakerfi þar sem regluföst tilvist eykur líkurnar á því að afkvæmið komi standandi niður í lífinu og lífs af. Trúin er einnig til þess fallin að leysa ákveðna þætti mannlegrar tilvistar sem hafa ekki rökrænar lausnir eins og til dæmis djúpa sorg eða nagandi sektarkennd. - Trú hefur á þann hátt hugræna lausn á kvaðratrótinni af mínus einum. Þá eru tákn eða gamlar siðvenjur leið til þess að auðga líf mannsins, að tilheyra niði aldanna og gefa honum sýn annarrar víddar.
Í framfarasamfélögum víða um heim virðist allri leiðsögn snúið á hvolf og siðvenjum kastað fyrir róða. Það sem áður sneri upp snýr nú niður. Hjarðir allt eins leiddar af kálfum. Fullorðið fólk situr eins og barðir hundar undir yfirgangi og ósvífni afkvæma sinna og mælir hér einn iðrandi syndari. Í leiðsagnarleysi nútímans vex úr grasi fjöldi meðalskussa sem hafa heyrt það alla sína tíð að þeir séu Guðs útvaldir snillingar. Persónuleg þægindi í valfrjálsum og þjáningarlausum heimi er krafa ofar öllum kröfum. Í slíkum heimi fær hinn frómi gyðingur aldrei hljómgrunn með þá skoðun að reglufesta með tilheyrandi þjáningum sé ekki bara mikilvægur hluti lífsins heldur búi þar lífið sjálft! Er hægt að ræða af einhverri stillingu við fólk sem ekki þekkir slíkan hugarheim og útskýra að umskurður sveinbarna sé kjarni umfangsmikils agakerfis sem krefst þess að ungum sé það allra best að sverjast til samfélags með kostum og göllum og hlíta afdráttarlausri leiðsögn þeirra sem á undan ganga.
Ég hljóp framhjá Kaffivagninum og út á Granda. Við norðvesturhorn hans stóð kunningi minn og reykti. Hann er fyrrum fréttamaður og glöggur samfélagsrýnir. Á leið minni að Þúfunni hafði lostið niður í höfuð mér vitrun líkt og hjá Páli forðum. Vitrunin var í formi rökleiðslu sem var nokkurn veginn á þessa leið: Það er óvitlaust að blíðka almættið í hvikulum og óvissum heimi. Slík er veröld akuryrkjumanna, hirðingja og veiðimanna. Mannfórnir eru sennilega ævaforn siður til þess að sýna staðfastan ásetning og freista þess að lenda gæfumegin í lífinu. Það getur þó ekki verið sjálfbær gjörningur að fórna lífi sonar. Með slíkri flónsku kæmist erfðaefnið aldrei spönn frá rassi. Hér mundi í staðinn duga að fórna einhverjum táknrænum parti sonarins og sýna um leið staðfestu. Ekki er verra að slík fórn snerti mikilvægan líkamshluta og hver fer nær því en sproti og stafur erfðaefnisins. Umskurð tel ég því ígildi sonarfórnar Abrahams þótt í smáu sé.
Þessum kunningja mínum, við Kaffivagninn, trúði ég umsvifalaust fyrir vitrun minni og honum fannst ég þyrfti að skrifa um hana lærða ritgerð. Ég spurði hvort hann myndi styðja afstöðu mína og röksemdafærslu ef hún birtist sjónum almennings. Ég taldi fullvíst að afstaða mín gæti valdið miklu uppnámi í íslensku samfélagi. „Munt þú verja hana með lífi þínu?“ spurði ég. Hann hikaði við og sagðist fyrst ætla að klára sígarettuna og máltíðina áður en hann hugleiddi að gangast undir svo bindandi sáttmála.