05. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Margþættur ávinningur af alþjóðlegu samstarfi - segir Runólfur Pálsson forseti Evrópusamtaka lyflækna

Runólfur Pálsson lyf- og nýrnalæknir hefur um langt skeið verið í forystu fyrir íslenska lyflækna og gegnir nú embætti forseta Evrópusamtaka lyflækna. Læknablaðið ætlar á næstu mánuðum að kynna alþjóðlegt samstarf á vegum íslenskra læknasamtaka og fagfélaga í læknisfræði og hefst sú yfirferð með þessu viðtali.

                                          
                                         „Alþjóðlegt samstarf byggist að verulegu leyti á því að skiptast á
                                         skoðunum og deila reynslu með öðrum, auk þess að fást  sameiginlega við
                                         krefjandi málefni. Þetta er enn mikilvægara  fyrir okkur þar sem við erum
                                         svo fámenn, við erum með eina læknadeild, eitt háskólasjúkrahús og fáa
                                         vinnustaði,“ segir Runólfur Pálsson forseti Evrópusamtaka lyflækna.

„Það er ótvíræður ávinningur fólginn í alþjóðlegu samstarfi bæði fyrir fagfélög lækna og einnig fyrir Læknafélag Íslands,“ segir Runólfur Pálsson sem verið hefur forseti Evrópusamtaka lyflækna frá því í september 2016.

„Afskipti mín af alþjóðlegu samstarfi hófust eftir að ég varð formaður Félags íslenskra lyflækna 2001 og félagið gekk í Evrópusamtök lyflækna (European Federation of Internal Medicine, eða EFIM) 2003. Við fundum strax mikinn ávinning af þeirri aðild, ekki síst vegna mikillar áherslu á framhaldsmenntun í lyflækningum og á símenntun lækna. Reyndar eru félög lyflækna í Evrópu nokkuð breytileg að samsetningu þar sem ýmist getur verið um að ræða ein heildarsamtök allra lyflækna eða félög sem bundin eru við lyflækna sem ekki búa yfir annarri sérgrein. Fyrrnefnda fyrirkomulagið er algengt í Norður-Evrópu en hið síðarnefnda í Suður-Evrópu. Evrópusamtök lyflækna eru skipuð fagfélagi lyflækna í hverju landi og með því verða allir félagar í Félagi íslenskra lyflækna sjálfkrafa meðlimir í Evrópusamtökunum. Í flestum öðrum tilvikum eru alþjóðleg fagfélög lækna bundin einstaklingsaðild eingöngu og það eru alls ekki allir sem gerast félagar. Evrópusamtökin sem ég veiti forstöðu eru frábrugðin að þessu leyti. Síðan eru önnur samtök sérgreinalækna (European Union of Medical Specialists, eða UEMS) sem eiga aðsetur sitt í Brussel, þau eru nokkur, og þar eiga landssamtök lækna einsog Læknafélag Íslands beina aðild. Þetta er töluvert margbrotin flóra og fagfélögin eða einstaklingar innan þeirra eiga oft aðild að fleiri en einu með beinum eða óbeinum hætti,“ segir Runólfur.

„Það er einnig misjafnt hversu hlutlaus samtökin eru og fer það eftir því hvort þau njóta stuðnings stjórnvalda eða fyrirtækja. UEMS eru samtök sem halda sig algjörlega utan við slíkt og leggja þau megináherslu á að hafa áhrif á stefnu Evrópusambandsins en þau sem njóta stuðnings, sem yfirleitt er algjörlega gagnsær, leggja meiri áherslu á ráðstefnuhald og símenntun svo eitthvað sé nefnt. Eitt af hlutverkum UEMS er að meta gæði og símenntunargildi ráðstefna og málþinga, til dæmis Læknadaganna hér á Íslandi.“

 

Ávinningur á báða bóga

„Evrópusamtök lyflækna eru dæmigerð fagsamtök og ég áttaði mig fljótt á því þegar ég fór að sækja fundi þeirra að við höfðum ýmislegt fram að færa. Styrkleiki okkar er hinn breiði bakgrunnur íslenskra lyflækna sem stafar af því hvað þeir sækja framhaldsmenntun sína víða um heim og geta því komið inn með sjónarmið sem vel er tekið. Við lifum á tímum mikilla breytinga á vettvangi heilbrigðisþjónustunnar og við getum alveg lagt þar til málanna eins og aðrir. Ávinningurinn fyrir okkur er sá sami og fyrir alla aðra sem stunda sérhæfðar greinar læknisfræði að þar er þróunin svo ör að það er algjört lykilatriði að fylgjast grannt með því sem er efst á baugi hverju sinni. Alþjóðlegt samstarf byggir að verulegu leyti á því að skiptast á skoðunum og deila reynslu með öðrum, auk þess að fást sameiginlega við krefjandi málefni. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir okkur þar sem við eru fá, við erum með eina læknadeild, eitt háskólasjúkrahús og fáa vinnustaði. Að sama skapi eiga læknar að standa fyrir faglegri umræðu hér heima, um læknisfræði en einnig að hafa skoðanir á opinberum vettvangi um stefnu og þróun heilbrigðismála. Það höfum við læknar alls ekki gert í nægilega miklum mæli að mínu mati. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, en sumum finnst að ekki sé hlustað á þá og ekki tekið nægilega mikið tillit til skoðana þeirra. Það skiptir reyndar ekki öllu máli því læknar eiga ekki endilega að ráða öllu en þeir eiga að vera óþreytandi að leggja til málanna því þeir búa sannarlega yfir mikilli þekkingu og reynslu.“

 

Íslensk fagfélög leggja lítið til opinberrar umræðu

„Uppbygging félaga og samtaka íslenskra lækna er að nokkru leyti orsök þessa. Fagfélög lækna hafa verið frekar veik og þegar horft er til systurfélaga þeirra erlendis blasir allt önnur mynd við. Í nágrannalöndunum blanda fagfélög sér mun meira í opinbera umræðu en hér og eru mun meira áberandi og sjálfstæðari. Hér hefur þróunin hins vegar orðið sú að fagfélögin sjást varla né heyrast opinberlega og það er því fyrst og fremst Læknafélag Íslands sem fer með þetta hlutverk. Nýlega hefur orðið sú skipulagsbreyting að fjögur meginfélög standa að Læknafélagi Íslands og aðeins eitt þeirra er raunverulegt fagfélag, Félag íslenskra heimilislækna. Á hinn bóginn eru hér mörg sérgreinafélög sem í sumum tilfellum eru mjög fámenn og bolmagn þeirra því lítið eða ekkert. Ég held þess vegna að heppilegra sé að horfa til sameiginlegra þátta og sameinast undir stærri hatti frekar en aðgreina sig á grundvelli fjölmargra sérgreina. Þetta á ekki síst við um lyflækna sem skiptast í margar undirsérgreinar. Við höfum litið svo á að innan Félags íslenskra lyflækna séu allir læknar sem jafnframt tilheyra þessum smærri fagfélögum því að þannig getum við staðið sterkari út á við. Sérhæfing í læknisfræði er sannarlega mikilvæg en í hinu stærra samhengi heilbrigðismála er margt sem greinarnar eiga sameiginlegt. Ég held að við höfum svolítið misst sjónar á þessu með of mikill áherslu á sérhæfingu. Íslenskir lyflæknar hafa tilhneigingu til að líta frekar á sig sem hjartalækna, lungnalækna, meltingarlækna og svo framvegis, fremur en lyflækna. Þetta sundrar okkur frekar en sameinar.

Ég hef séð að í mörgum Evrópulöndum koma sérgreinarnar saman undir hatti lyflækninga. Félag íslenskra lyflækna hefur gegnt mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar með því að halda vísindaþing annað hvert ár undanfarna áratugi. En við þurfum líka að láta til okkar taka í samfélagsumræðu um heilbrigðismál.“

 

Framhaldsmenntunin er mikilvæg

„Framhaldsmenntun lækna er einnig gríðarlega mikilvægt mál og þar gegna Evrópusamtök lækna í hinum ýmsu sérgreinum mikilvægu hlutverki þar sem nú er lögð mikil áhersla á að samræma menntun og færniviðmið í kennslu og þjálfun lækna í öllum löndum innan Evrópusambandsins. Þetta stafar að miklu leyti af því að læknar flytjast mun meira á milli landa en áður og kröfurnar hafa til skamms tíma verið misjafnar frá einu landi til annars um hvað skuli liggja að baki veitingu sérfræðileyfis í tilteknum sérgreinum. En samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins ber að viðurkenna fagmenntun milli landa og gildir það einnig um lækna. Samræming sérfræðimenntunar í lyflækningum í Evrópu er því eitt af stærstu verkefnum Evrópusamtaka lyflækna. Hér heima hefur verið unnið geysilega gott starf á undanförnum árum við að þróa framhaldsmenntun í nokkrum lykilsérgreinum og afla alþjóðlegrar vottunar. Þar hefur Royal College of Physicians í Bretlandi lagt okkur lið svo um munar. Nú stöndum við þannig að fyrri hluti framhaldsnáms í lyflækningum stenst öll alþjóðleg viðmið og hið sama á við um nokkrar aðrar greinar. Það ætti því að vera unnt að tryggja að framhaldsnám hér verði að fullu metið þegar námslæknirinn heldur áfram námi í öðru landi innan Evrópu. Mikilvægt er að íslensk yfirvöld styðji við þessa viðleitni. Þetta gerist auðvitað ekki nema við séum í nánu samstarfi við aðrar þjóðir og njótum aðhalds og eftirlits þeirra. Það má heldur ekki gleyma því að námslæknar eru mikilvægir starfskraftar og heilbrigðisþjónustan byggir að verulegu leyti á vinnu þeirra. Það er því mikilvægt að geta boðið upp á samkeppnishæft framhaldsnám til þess að einfaldlega að halda ungu læknunum hér heima. Eftir því sem námið er betra og nær yfir stærri hluta alls sérnámsins njótum við krafta þeirra lengur. Það er því full ástæða fyrir okkur til að sækja fram og bæta okkur á þessu sviði en það verður ekki gert án náins samstarfs við fagfélög og kennslustofnanir erlendis.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica