05. tbl. 104. árg. 2018

Ritstjórnargrein

Þegar þokunni léttir

Karl Andersen‚ hjartalæknir á Hjartagátt Landspítala‚ læknadeild HÍ

doi: 10.17992/lbl.2018.05.182

Það var sólríkur dagur um miðjan júní. Rútan hristist og vaggaði eftir malarveginum á leið sinni fyrir Hvalfjörðinn. Tíu ára drengur var á leið í Borgarfjörðinn í sveit hjá góðu fólki. En honum leið ekki vel. Hann var sveittur, með höfuðverk og mikla ógleði. Samt var hann ekki veikur og var fljótur að jafna sig þegar hann kom í Reykholtsdalinn eftir tveggja klukkustunda ferðalag. Það eina sem sat í minningunni eftir þessa bílferð sumarið 1970 var þessi blágrái reykur sem liðaðist stöðugt upp fyrir sætisbakið fyrir framan hann. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að drengurinn áttaði sig á því að hann hafði orðið fyrir óbeinum reykingum.

Íslendingar eru fremstir meðal þjóða í tóbaksvörnum. Á þeim tíma sem sagan gerist, fyrir hálfri öld, reykti nærri því helmingur fullorðinna daglega og engar hömlur voru á því hvar mátti reykja. Frá því að þetta var hefur reykingamönnum fækkað um 70% á Íslandi og er nú svo komið að um 9% fullorðinna reykja daglega.1 Þegar hlutfall þeirra sem reykja verður komið niður í 5%, eftir um það bil 5 ár, hefur í raun tekist að útrýma reykingum á Íslandi. Nýjar kynslóðir munu vaxa úr grasi án þess að vera háðar nikótíni. Sjúkdómar eins og langvinn lungnateppa og lungnakrabbamein munu nánast heyra sögunni til. Nú sem fyrr er mikilvægt að halda vel á málum og ljúka endataflinu í tóbaksvörnum með fullnaðarsigri.

En þessi árangur náðist ekki fyrir tilviljun eða af sjálfu sér. Hann er afrakstur markvissra forvarnaraðgerða sem byggjast á aðferðafræði sem sýnt hefur verið fram á að skilar árangri í lýðheilsu. Fyrir atbeina frumkvöðulsins Jóns Ármanns Héðinssonar þingmanns var fyrsta lagasetning í tóbaksvörnum samþykkt á Alþingi 1969, þar sem meðal annars var kveðið á um merkingar með varnarorðum á sígarettupökkum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Leiðin er vörðuð stjórnvaldsaðgerðum sem markast af reglulegri endurskoðun tóbaksvarnarlaga og setningu reglugerða sem miða því að takmarka notkun reyktóbaks. Nægir þar að nefna reglugerð um bann við reykingum á opinberum stöðum 2007 sem leiddi á fáeinum vikum til 18% fækkunar í hjartaáföllum, bæði meðal þeirra sem reyktu á þeim tíma og hinna sem reyktu ekki.2

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Með frumvarpinu er verið að framfylgja tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins frá 2014 sem við erum skuldbundin af sem EES-þjóð. Frumvarpið er að flestu leyti samhljóða sambærilegum lögum sem sett hafa verið á hinum Norðurlöndunum. Það er sömuleiðis í samræmi við rammasamning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO, FCTC)3 um tóbaksvarnir og álit fagráðs um tóbaksvarnir hjá Embætti landlæknis. Með þessu frumvarpi er settur rammi utan um sölu, gæðaeftirlit og notkun rafsígarettunnar. Með því móti er neytendavernd notenda rafsígar-ettunnar tryggð um leið og öryggissjónarmiða er gætt varðandi hættuna sem af þessari vöru getur stafað. Réttur þeirra sem ekki veipa til að anda að sér hreinu lofti er virtur.

Staðreyndin er sú að engar klínískar langtímarannsóknir liggja fyrir um það hversu skaðlegar rafrettur eru heilsu fólks. Hins vegar eru ýmis teikn um að markviss markaðssetning þessarar vöru gagnvart börnum og unglingum hafi leitt til aukinnar notkunar meðal þeirra. Nú veipa um 10% framhaldsskólanema daglega og fjölgar þeim með hverju árinu sem líður.4 Það er með öllu óvíst hversu mörg þeirra munu leiðast út í sígarettureykingar. Hins vegar er hlutfall framhaldsskólanema sem reykja sígarettur komið niður í um 5% og er það þróun sem hefur hefur haldist stöðug síðustu áratugina og hefur ekkert breyst eftir tilkomu rafsígarettunnar.1 Það er því óvarlegt að álykta að aukin notkun rafsígarettunnar á allra síðustu árum hafi stuðlað að því að unglingar hætti að reykja. Hér virðist rafsígarettan koma sem viðbót við reykingar unglinga.

Í þessu máli skiptast menn í fylkingar, með og á móti, og orðræðan er á köflum óvægin og stundum ekki sérlega málefnaleg. Það takast á hugmyndafræðilegir og menningarlegir afkimar (subculture) sem verja með harðvítugum hætti þá afstöðu sína að stjórnvöld eigi að skipta sér sem minnst af innflutningi og sölu rafsígarettna.5

Með frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er þeim sem kjósa að nota rafsígarettur frjálst að gera það áfram og einhverjum þeirra mun takast að hætta reykingum með þessari aðferð. Hins vegar innifelur það ekki leyfi til að útsetja aðra fyrir veipgufu sem hefur ófyrirséð heilsufarsleg áhrif á þá sem fyrir því verða. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að anda að sér hreinu og ómenguðu lofti. Sá réttur vegur þyngra en réttur manna til óheftrar notkunar rafsígarettna.

Árið 2018 er ekki lengur leyfilegt að reykja í langferðabílum. Á meðan heilsufarsleg áhrif veipgufunnar eru óþekkt er óásættanlegt að engin lög nái yfir notkun rafsígarettunnar. Til þess er of mikið í húfi.

 

Heimildir

 

1. Vöktun áhrifaþátta áfengis og tóbaksnotkun 2017. Talnabrunnur. Embætti landlæknis 2018; 12: febrúar
 
2. Viktorsson ÞV, Andersen K, Guðnason Þ. Reykingabann á opinberum stöðum minnkar tíðni óstöðugs kransæðasjúkdóms og fækkar kransæðaþræðingum hjá körlum á Íslandi. XVIII Þing félags íslenskra lyflækna, Selfossi 6.-8. júní 2008. Læknablaðið 2008; 94: 18 (E-9): Fylgirit 57.  
 
3. apps.who.int/iris/bitstream/10665/42811/1/9241591013.pdf?ua=1 - mars 2018.  
 
4. Ungt fólk 2016. Framhaldsskólar. Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun, heilsuhegðun og heilsuvísar, líðan, framtíðarsýn og vímuefnanotkun ungmenna í framhaldsskólum á Íslandi. Rannsókn og greining, Reykjavík 2017.  
 
5. Franck, C, Filion KB, Kimmmelman J, Grad R, Eisenberg MJ. Ethical considerations of e-cigarette use for tobacco harm reduction. Respir Res 2016; 17: 53.
https://doi.org/10.1186/s12931-016-0370-3

PMid:27184265 PMCid:PMC4869264

 
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica