03. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Myndin á kápu janúar­blaðsins

                                  

Gísli Víkingsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun hafði samband við blaðið með þá ábendingu að stórhvelið á kápu janúarblaðsins væri steypireyður en ekki hnúfubakur. Blaðið vill endilega koma þessari 100 ára gömlu leiðréttingu á framfæri en samtímaheimildir segja hnúfubakur. Gísli segir það algengt í eldri heimildum að ruglað sé saman hvalategundum, hvalir nokkuð sjaldséðir og dagar Google ekki runnir upp.

Gísli sendi okkur nokkur orð til glöggvunar á steypireyði sem er engin smásmíði:

„Steypireyður (Balaenoptera musculus) er stærsta dýr jarðar og getur náð allt að 33 metra lengd, 190 tonna þyngd og 90-100 ára aldri. Hún er útbreidd í öllum heimshöfum en sjaldgæf víðast hvar vegna ofveiða á seinni hluta 19. aldar og fram eftir 20. öld. Hér við land voru veiddar um 6500 steypireyðar frá norsku landstöðvunum á Vestfjörðum og Austfjörðum 1883-1915 og gengu þær veiðar nærri stofninum. Tegundin hefur verið alfriðuð frá 1960 og er stofnstærðin við Ísland nú talin vera um 1000 dýr. Tegundin hefur því engan veginn náð sér eins vel á strik eftir ofveiðar aldamótanna 1900 og náfrænka hennar langreyðurin sem telur um 40.000 dýr.

Steypireyður er eins og aðrar reyðarhvalategundir með frekar smá bægsli (framlimi), sérstaklega í samanburði við hnúfubak sem einkennist af mjög löngum bægslum. Þá er ofanverður haus steypireyðar blágrár, sléttur og breiður með kjöl fyrir miðju en haus hnúfubaks er dekkri, hnubbóttur og oft ásetinn hrúðurkörlum. Þar fyrir utan er svo stærðin sem sést svo sem ekki vel á myndinni en kemur fram í texta. Hnúfubakurinn verður mest um 17 m langur.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica