02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Margrét Guðnadóttir - minning

 

                                    
                                    Myndin af þeim stallsystrum var tekin á Læknadögum árið 2009 þar sem
                                    Margrét var heiðursgestur.

„Mér er sama hvert þið ætlið að fara, ég kem með.“ Þessa afdráttarlausu yfirlýsingu gaf Margrét Guðnadóttir á fundi okkar samstúdentanna frá MR árið 1949, þegar við löngu síðar fórum að skipuleggja sameiginlegar ferðir, innanlands og utan. Margrét stóð sannarlega við sín orð, eins og hún gerði jafnan, því ekki nóg með að hún færi með í allar ferðir heldur mætti hún alltaf á mánaðarlega fundi þessa hóps.

Margrét kom sveitastelpa í bæinn og ég kynntist henni fyrst þegar við sátum saman í 1. bekk í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga við Vonarstræti, sem þá var eins og unglingaskólar á okkar dögum, undirbúningsskóli fyrir menntaskólana. Þar sá ég ekki bara hvað hún var mikill framúrskarandi námsmaður, glósaði af nákvæmni öll þessi undarlegu orð í dönsku og ensku sem við nýgræðingar vorum að kljást við, heldur líka hvað hún var óvenjulega heilsteypt manneskja. Eftir á að hyggja held ég að það orð lýsi henni einna best: Hún var heilsteypt. Svo skildu leiðir, því í MR fór Margrét í stærðfræðideild, sú mikla raunvísindakona sem hún var, en ég fór í máladeild. Á milli okkar hafði þó þegar myndast góð vinátta sem hélst alla tíð, enda Margrét óvenjulega traust í alla staði og í raun höfðum við í grunninn svipaða afstöðu til lífsins.

Samskipti okkar urðu svo stopulli eftir útskrift og framhaldsnám. Við misstum hvor af annarri á miðjum aldri, vissum samt alltaf hvað hvor okkar var að sýsla hverju sinni í málefnum þjóðfélagsins, hvor á sínum kanti, ég í leikhúsinu og hún í rannsóknunum, en reglulegt samband hófst svo að nýju þegar stúdentaárgangurinn frá 1949 fór að hittast reglulega, sem hann hefur verið einstaklega iðinn við, og Margrét lét sig aldrei vanta.

Ég var svo lánssöm, í síðustu utanlandsferð okkar, til York á Englandi, að ég var henni samferða í gegnum hið merkilega læknaminjasafn sem þar er. Margrét var auðvitað þarna á heimavelli og viskubrunnur, en það var ógleymanlegt augnablik þegar hún benti allt í einu á veggspjald og sagði stundarhátt: „Þarna er hann, bandormurinn! Ég kom upp í honum hjá Niels Dungal!“. Við árgangssystkin sem höfðum elt hana um safnið vorum þá fljót að rifja upp að það var á því prófi sem hún hafði náttúrlega brillerað með slíkri frammistöðu að prófdómarinn, Björn Sigurðsson á Keldum, sem vildi gefa henni 10 fyrir frammistöðuna, hafði hringt í hana á eftir og boðið henni vinnu við rannsóknir á Keldum. Það reyndist afdrifaríkt því Keldur og svo framhaldsrannsóknir á veirum urðu starfsvettvangur og starfssvið langrar starfsævi Margrétar Guðnadóttur. Eftir fræðslustundina með Margréti um þennan sögulega bandorm í York, töldum við öll, aldnir samstúdentar hennar, okkur fær í flestan sjó um hegðun hans og atgervi. Það segir mest um kennarahæfileika Margrétar, enda var hún rómaður kennari í læknadeildinni í áratugi.

Mér er líka í fersku minni langt samtal okkar Margrétar í síðustu ferð árgangsins, sem var til Grindavíkur. Þá vorum við aftur upp á nýtt sessunautar og í ljósi þess hvar við vorum staddar spurði ég hana um lífið á Vatnsleysuströndinni fyrr á árum og hvert fólkið hefði sótt í kaupstað. Þá sagði hún mér að faðir hennar hefði farið ríðandi til Keflavíkur og sennilega einhvern tíma til Grindavíkur og við fylgdum honum í huganum eftir þeirri leið sem við töldum að hann hefði farið. Áður vissi ég að hann hafði misst fyrri konu sína á Rangárvöllum, þaðan sem hann var ættaður, flutt hingað á suðvesturhornið og fór aldrei austur aftur. Margrét – sem við skólasystkin kölluðum alltaf Möggu Guðna – átti minningar um litríkt mannlífi á Vatnsleysuströnd í uppvexti sínum. Þar hefðu allir hjálpast að, samstaða og samhjálp hefði ríkt þar á milli bæjanna, og einnig var athyglisverð lýsing hennar á því hversu menntun var þar mikils metin. Ég skildi að Margrét var alin upp við þá skoðun að menntun væri eitt það besta sem hægt væri að hugsa sér, og skýrir að hluta þá vegferð með vísindunum sem Margrét kaus sér. Þetta var ógleymanlegt samtal.

Það er óhætt að segja að fundir okkar samstúdenta frá 1949 verði fábrotnari nú þegar Margrét Guðnadóttir er fallin frá. Við söknum góðs vinar í stað, og sjálf kveð ég góða, hlýja og trausta vinkonu. Um vísindaleg afreksverk hennar mætti hafa mörg orð og enginn vafi á því að orðstír hennar á því sviði mun lengi uppi. Þar var hún þjóðarsómi og fyrir það ber að þakka.

Vigdís FinnbogadóttirÞetta vefsvæði byggir á Eplica