02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli formanns öldunga. Kristófer Þorleifsson

Ný stjórn Öldungadeildar Læknafélags  Íslands var kjörin á síðasta aðalfundi í maí 2017 til tveggja ára, en fráfarandi stjórn hafði setið í tvö kjörtímabil, eða í fjögur ár. Fráfarandi stjórn eru þökkuð frábær og öflug störf.

Öldungadeild Læknafélags Íslands hefur nú slitið barnskónum, enda liðin tæp 24 ár frá stofnun hennar, en deildin var stofnuð 19. mars árið 1994. Með árunum hefur starf öldungadeildar mótast og starfið verið í nokkuð föstu formi síðustu árin. Í lögum félagsins er tilgangur þess skilgreindur: Að gæta hagsmuna aldraðra lækna og stuðla að auknum samskiptum meðal þeirra, svo og að efla samskipti lækna almennt, félagslega og faglega. Starf félagsins hefur talsvert breyst með árunum. Á fyrstu árunum voru félagsfundir strjálir, en með árunum hefur starfið eflst. Þannig hafa verið haldnir mánaðarlega fræðslufundir frá október og fram í maí og farnar hafa verið ferðir bæði innanlands og út fyrir landsteinana.

Starfið í vetur hefur verið með hefðbundnum hætti. Fræðslufundir hafa verið haldnir mánaðarlega frá því í október fyrsta miðvikudag hvers mánaðar. Fundirnir hafa verið vel sóttir og á milli 55 og 65 félagar mætt á fundina. Efni fræðslufundanna hafa verið breytileg. Þannig fjölluðu Birna Jónsdóttir læknir og Dr. Bruno Frohlich mannfræðingur  um „Múmíur“ eða Mummies í október, Jón Alfreðsson læknir um Ögmund Pálsson síðasta kaþólska biskupinn í Skálholti í nóvember og Gísli Einarsson læknir flutti í desember erindi sem hann nefndi „Ef Guð lofar“, en þar sagði hann frá dvöl sinni í Katar. Halldór Baldursson læknir  flutti erindið „Þegar fylgdarskipið fórst“ í janúar og á febrúarfundinn kemur Svavar Gestsson fyrrv. ráðherra og sendiherra og mun flytja fyrirlestur sem hann nefnir „Gullni söguhringurinn í Dölum vestur“. Dagskrá funda í mars-maí mun svo liggja fyrir á næstunni. Allir þeir fyrirlestrar sem hafa verið fluttir í vetur hafa verið frábærir, fræðandi og skemmtilegir.

Vegna breytinga á fundarsal læknafélaganna hafa allir fundir félagsins verið haldnir í húsi Atlanta að Hlíðasmára 3 nema októberfundurinn. Líkur er á að frá og með mars verði fundirnir á ný í húsakynnum læknafélaganna að Hlíðasmára 8.

Stefnt er að tveggja daga ferð í haust vestur í Dali á söguslóð Sturlunga og Laxdælu. Einnig er stefnt að utanlandsferð, en enn hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum.

Eins og kveðið er á um í lögum öldungadeildar á félagið að gæta hagsmuna aldraðra lækna, svo sem varðandi lífeyrismál og fleira.

Það kom mörgum læknum 70 ára og eldri í opna skjöldu þegar þeir fengu ekki að taka þátt í rafrænu kjöri á nýjum formanni LÍ á síðasta ári. Í því sambandi var vitnað í 11. gr. laga LÍ þar sem kveðið var á um það að læknar 70 ára og eldri væru undanþegnir félagsgjaldi. Jafnframt var kveðið á um það að þeir einir sem staðið hefðu í skilum með félagsgjöld hefðu kosningarétt. Þannig var hvergi kveðið á um það að læknar 70 ára og eldri hefðu ekki kosningarétt. Þeir eru ekki í vanskilum enda undanþegnir félagsgjaldi sem ég hef talið að væri gert til að létta greiðslubyrði en ekki til að svipta mannréttindum.

Á síðasta aðalfundi LÍ í október 2017 bar ég upp tillögu um að læknar 70 ára og eldri hefðu full félagsréttindi, það er væru kjörgengir og með kosningarétt. Sú tillaga fékk engan hljómgrunn og voru á fundinum gerðar breytingar á 11. gr. laga LÍ varðandi 70 ára og eldri. „Félagsmaður sem er orðinn sjötugur og sem ekki starfar lengur samkvæmt kjarasamningi ríkisins og LÍ getur ákveðið að greiða ekki lengur félagsgjöld til LÍ. Ákveði félagsmaður að hætta greiðslu félagsgjalds nýtur hann hvorki kjörgengis né atkvæðisréttar í LÍ og fær ekki Læknablaðið nema gerast áskrifandi að því sérstaklega.“ Ekki fékk það heldur hljómgrunn að 70 ára og eldri yrðu áfram fullgildir en þyrftu ekki að greiða fullt árgjald heldur til dæmis 30-50% af árgjaldi. Þeir einir sem eru 70 ára og eldri og gerðir hafa verið að heiðursfélögum í LÍ  samkv. 4. gr. laga LÍ  greiða ekki félagsgjöld til LÍ en njóta allra sömu réttinda og greiðandi félagsmenn.

Við setningu 100 ára afmælishátíðar LÍ í Eldborg í Hörpu mánudaginn 15. janúar 2018 gat formaður LÍ þess að félagar í LÍ væru milli 1300-1400, en innan öldungadeildar væru rúmlega 270.

Eru þá öldungarnir utan LÍ?Þetta vefsvæði byggir á Eplica