02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Margrét Guðnadóttir, prófessor

                                    
                                                   Margrét Guðnadóttir (7. júlí 1929 - 2. janúar 2018).

Kennarar skilja eftir sig ýmiss konar minningar í hugum nemenda. Kennsluhæfileikar eru engan veginn öllum gefnir. Engu að síður eiga flest okkar auðvelt með að nefna þá kennara frá barnaskóla til háskóla sem við teljum okkur skuldbundin og minnumst til æviloka. Þau atriði sem sitja eftir í huga okkar eru þekking kennarans á námsgreininni og hæfileikinn til að koma inntaki hennar til skila. Þessir eiginleikar eru nauðsynlegir en ekki nægilegir til að öðlast ævilangan sess í hugum nemenda. Til þurfa að koma umhyggja og virðing fyrir þeim og merkjanlegur áhugi á því, að fræðigreinin skili sér til nemenda, sem þá eru fljótir að átta sig á gæðum kennslunnar. Flest eigum við minningar um kennara sem þannig er farið um, og þessi tilfinning fylgir okkur alla ævi.

Í huga undirritaðs er Margrét Guðnadóttir (7. júlí, 1929-2. janúar, 2018) ein þeirra kennara sem fylgja honum til æviloka.

Ekki var ljóst sumarið 1954, að leiðir okkar ættu eftir að liggja svo saman, sem raun varð. Næstu sex áratugina, eða ríflega það, voru samskiptin tíð og náin, sérstaklega frá upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Margrét, í síðasta hluta læknanáms, kom fyrrnefnt sumar fyrst til starfa á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum, sem á þeim tíma heyrðu til Mosfellssveitar í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Undirritaður var sex ára þennan júlímánuð, óráðinn um framtíðina, en man engu að síður vel þessi fyrstu kynni. Þetta sumar hófst vísindaferill Margrétar undir handleiðslu forstöðumanns Keldna, Björns Sigurðssonar (1913-1959). Björn hreifst strax af hæfileikum og dugnaði hennar, studdi og greiddi götu hennar til framhaldsnáms í Bretlandi (London School of Hygiene) og Bandaríkjunum (Communicable Disease Center í Montgomery, Alabama, og Yale University í New Haven, Connecticut). Björn fylgdist frá upphafi náið með ferli Margrétar og vænti mikils af vísindavinnu hennar.

Að sérnámi loknu árið 1960 kom Margrét aftur að Keldum og starfaði þar til ársins 1969 er hún tók við starfi prófessors í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Heil kynslóð íslenzkra lækna naut kennslu hennar næstu þrjá áratugina, þar til við tók eftirlaunaaldur árið 1999. Hún var skipulagður kennari, lét sér annt um læknanema, gaf hins vegar ekkert eftir væru þeir með uppsteyt.

Samhliða kennslu stofnaði Margrét um miðjan áttunda áratuginn rannsóknastofu í veirufræði við Landspítalann og stjórnaði stofnuninni næstu tuttugu árin. Þessir tímar voru oft erfiðir, ekki sízt við tilkomu alnæmisveirunnar um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Auk almennrar þjónustu við greiningu veirusjúkdóma kannaði Margrét meðal annars árangur bólusetningar við rauðum hundum, einkum meðal þungaðra kvenna.

Margrét hélt áfram grundvallarrannsóknum á hæggengum veirusýkingum, fyrst og fremst visnu/mæði, sem hún hafði hafið um miðjan sjötta áratuginn undir handleiðslu Björns Sigurðssonar. Þeim rannsóknum hélt hún áfram nánast til dauðadags, þótt komin væri því sem næst tvo áratugi fram yfir eftirlaunaaldur, bæði á landareign sinni á Vatnsleysuströnd og í samstarfi við vísindamenn á Kýpur. Það eru þessar rannsóknir, sem fleytt hafa nafni Margrétar á bækur hins alþjóðlega vísindasamfélags þar sem vænta má að hún verði þekkt um langa framtíð.

Margrét eignaðist tvö börn, Guðna Franzson (f. 1961) og Eydísi Franzdóttur (f. 1963). Bæði börn Margrétar eru vel þekkt klassískt tónlistarfólk. Barnabörn eru sex og barnabarnabörn fjögur.  

Á þessum tímamótum minnast íslenzkir læknar prófessors Margrétar Guðnadóttur með virðingu og þakklæti.

 Jóhannes Björnsson
fyrrverandi ritstjóri LæknablaðsinsÞetta vefsvæði byggir á Eplica