02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Félagi í Læknafélagi Íslands. Jóhanna Ósk Jensdóttir

Á afmælishátíð Læknafélags Íslands flutti formaður LÍ, Reynir Arngrímsson, yfirlit yfir sögu félagsins eða fortíð Læknafélags Íslands. Á sömu hátíð færði Andri Snær Magnason góð rök fyrir því að þróun og breytingar í samfélaginu gerist nú með ógnarhraða og mun hraðar en nokkru sinni fyrr. Framtíðin færist hraðar nær okkur og fortíðin fjær okkur á sama hraða.

LÍ hefur breyst mikið á síðustu 100 árum á þann hátt að flest erum við nokkuð ánægð með félagið okkar en nú er spurningin kannski frekar hvernig breytist LÍ á næstu 100 árum. Verður LÍ yfirleitt til eftir 100 ár? Verður þörf fyrir félag með það hlutverk og tilgang sem LÍ hefur í dag, verður það bara umgjörðin sem breytist eða mun tilgangur LÍ breytast?

LÍ er stéttarfélag og í dag er eitt stærsta og mikilvægasta hlutverk þess að semja um kjör lækna. En það eru mörg önnur verkefni sem falla undir tilgang LÍ og mörg tækifæri til þess að hafa áhrif í krafti LÍ.   

Tilgangur félagsins er samkvæmt lögum Læknafélags Íslands:

1.    Að efla hag og sóma hinnar íslensku læknastéttar og auka kynni og stéttarþroska félagsmanna.

2.    Að standa vörð um sjálfstæði læknastéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna.

3.    Að stuðla að aukinni menntun lækna og glæða áhuga þeirra á því, er að starfi þeirra lýtur.

4.    Að efla samvinnu lækna um allt, sem horfir til framfara í heilbrigðismálum.

5.    Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi lækna að sameiginlegum hagsmunamálum.

6.    Að beita sér fyrir bættu heilsufari landsmanna og vinna að stefnumótun í heilbrigðismálum.

Á þessum tímamótum er mér hugsað til þess hvort gamlir félagar framtíðarinnar, ég og mér yngri læknar, getum staðið undir þessum tilgangi. Er hlutdeild yngri lækni í LÍ nógu mikil til þess að tryggja það að öflugt starf haldi áfram kynslóð eftir kynslóð? Er eðlilegt eða nútímalegt að ætlast til þess að ungir og miðaldra læknar sækist eftir að vinna fyrir LÍ eða væri raunhæfara að sækja unga lækna til starfa, bjóða þeim og biðja þá fyrir verkefni? Ég hef ekki áhyggjur af LÍ í dag og á allra næstu árum en ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að vinna okkur í hag fyrir framtíðina með því að hvetja unga félaga til starfa fyrir LÍ.  

Á undanförnum vikum voru umræður meðal félagsmanna um ákveðnar breytingar og hvort þær ættu rétt á sér eða væru yfirhöfuð nauðsynlegar. Sem betur fer heppnaðist árshátíð LÍ með eindæmum vel og mun fleiri fengu að njóta en áður.  

Það hafa nýlega verið gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum félagsins sem eru til þess fallnar að einfalda og færa skipulag LÍ nær því sem eðlilegt er og nær nútímanum. Að baki þessum breytingum lá í fyrsta lagi langt ákvarðanaferli og í öðru lagi mikil og sérhæfð vinna með skýrt markmið.

En það hafa litlar breytingar orðið á aðkomu félagsmanna að félaginu, ennþá komast þeir í stjórn sem bjóða sig fram og ennþá eru þeir í nefndum sem eru tilnefndir í þær, oftast af stjórn. Það var að vísu verðug barátta um formannssætið sem er til fyrirmyndar og það verða breytingar á mönnun stjórnar eftir næsta aðalfund. En er ástæða til að hugsa út fyrir kassann og breyta því enn frekar hvernig við sækjum eða óskum eftir félagsmönnum til starfa fyrir LÍ.  Viljum við ekki öll að í framtíðinni verði áfram fjöldi lækna sem bjóði fram krafta sína til þess að tilgangi LÍ verði náð? Þessir læknar eru í dag ungir.    

Einhverjir munu líta á þennan pistil sem skoðanir ungs læknis sem ekki ber virðingu fyrir né hefur skilning á því starfi sem eldri læknar hafa unnið og vinna enn. Ég er hins vegar löglega miðaldra, ber virðingu fyrir því starfi sem þegar hefur verið unnið en hef að sama skapi áhyggjur af því að einhver hluti LÍ muni deyja ef ungir félagar eru ekki virkjaðir til þess að hafa áhrif og breyta því sem þarf, ef það þarf, þrátt fyrir að við eldri sjáum það ekki eða séum endilega alltaf sammála um að breytinga sé þörf.

Það er í eðli mannsins að kvíða og forðast breytingar en það er samt allt að breytast.Þetta vefsvæði byggir á Eplica