02. tbl. 104. árg. 2018
Fræðigrein
Læknafélag Íslands 100 ára - Læknar í verkfalli. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson
Inngangur
Það er ekki algengt að læknar fari í verkfall en þegar það gerist verða gjarnan miklar umræður meðal fagfólks innan heilbrigðisgeirans og almennings meðal annars um siðferðilega réttlætingu verkfalls.1 Frizelle2 bendir á að á undanförnum tveimur áratugum hafa læknar í mörgum löndum farið í verkfall, til dæmis í Ástralíu, Belgíu, Kanada, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Nýja Sjálandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Helstu ástæður verkfalla lækna má rekja til þátta eins og óánægju með laun, menntun og reynsla er ekki metin til launa, kröfur um breytingu á vinnutilhögun, vinnuaðstöðu, vinnutíma og launamyndun. Ennfremur skortur á stefnumótum í heilbrigðismálum, öryggismálum ábótavant, vinnuskilyrði ekki nægilega góð og stjórnsýslu innan heilbrigðiskerfisins áfátt. Ekki hafi verið hlustað á kröfur þeirra og ábendingar og læknar því þvingaðir til aðgerða og verkföll því í raun neyðar- eða lokaúrræði.3 Í þessari grein verður rætt um fyrsta verkfall lækna hér á landi, einnig verður rætt um kjarabaráttu þá sem læknar stóðu í fyrir 100 árum síðan, á fyrsta starfsári Læknafélags Íslands.
Grein eftir Guðmund Hannesson. Læknablaðið 1918; 4: 118-122.
Vísir, 10. maí 1972.
Úr Fréttablaðinu, 27. október 2014.
Fræðileg umræða
Ef verkfallskenningar eru skoðaðar með hliðsjón af hárri verkfallstíðni opinberra starfsmanna hér á landi eru þrjú atriði sem vert er að skoða. Í fyrsta lagi kenningar Hicks4 um ófullnægjandi kjarasamningaferli með óskýrum og flóknum samningsmarkmiðum, í öðru lagi stofnanakenningar sem byggja á því að fyrirkomulag kjarasamningagerðar geti haft áhrif á verkfallstíðni. Í þriðja lagi hafa opinberir starfsmenn dregist aftur úr í launum samanborið við þá sem vinna sambærileg störf á almenna vinnumarkaðnum.5
Lítið hefur verið skrifað um læknaverkföll. Gerð var allsherjargreining á læknaverkaföllum6 með tilliti til þess hvort dánartíðni hafi aukist eða staðið í stað í kjölfar verkfalla lækna. Skoðuð voru 5 verkföll lækna víðsvegar um heiminn á árunum 1976-2003. Verkföllin stóðu frá 9 dögum upp í 17 vikur. Niðurstaðan var sú að dánartíðni stóð í stað eða jafnvel minnkaði meðan á verkfalli stóð samanborið við önnur tímabil. Nokkuð hefur verið skrifað um siðferðilega þætti varðandi verkföll lækna.1,3,7 Verkfallsrétturinn er einn helgasti réttur launþega, verkfallsvopnið þrýstir á viðsemjendur að ganga til samninga, annars að eiga á hættu að starfsemi og þjónusta fari úr skorðum eða leggist niður.5
Samnings- og verkfallsréttur starfsmanna á almennum vinnumarkaði var lögfestur árið 1938 hér á landi þegar lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur voru samþykkt. Langt fram eftir 20. öldinni var staða opinberra starfsmanna talsvert frábrugðin stöðu launþega á almennum vinnumarkaði hvað samnings- og verkfallsrétt varðaði. Launakjör voru einhliða háð ákvörðun vinnuveitenda þar sem þau voru ákvörðuð með lögum eða úrskurði kjaradóms (nú kjararáðs). Þegar leið á 20. öldina urðu kröfur opinberra starfsmanna um samnings- og verkfallsrétt sífellt háværari og launarannsóknir sýndu að opinberir starfsmenn höfðu dregist verulega aftur úr öðrum launþegum í launum.5,8,9,10 Aðrar reglur giltu um verkfallsrétt opinberra starfsmanna en á launþega á almennum vinnumarkaði. Verkföll voru bönnuð lengst framan af 20. öldinni en um skipulag og heimildir opinberra stéttarfélaga til verkfallsboðunar gilda lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Opinber stéttarfélög hafa heimild til verkfallsaðgerða í 14. gr. þessara laga. Aftur á móti gilda enn lög nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna en samkvæmt 1. gr. þeirra laga sætir opinber starfsmaður sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef hann tekur þátt í verkfalli. Síðari málsliður 14. gr. laga nr. 94/1986 tilgreinir sérstaklega að ákvæði laga nr. 33/1915 nái ekki til þeirra sem heimilt er að efna til verkfalla samkvæmt lögum nr. 94/1986.
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) öðlaðist samningsrétt gagnvart ríkinu með lögum nr. 55/1962. Opinberum starfsmönnum var þannig tryggður réttur til að semja um kjör sín en með ákveðnum takmörkunum. Ef samkomulag náðist ekki milli aðila skyldi kjaradómur úrskurða um kjör opinberra starfsmanna. BSRB fékk verkfallsheimild árið 1976, sbr. 18. gr. laga nr. 29/1976, en þessi verkfallsheimild var aðeins tengd gerð aðalkjarasamnings. Tekið var sérstaklega fram að rétturinn væri einungis í höndum heildarsamtakanna, BSRB, en ekki einstakra félaga. Árið 1986 var samnings- og verkfallsréttur færður til aðildarfélaganna með lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna (lög nr. 94/1986).5,8,9,11 Til að lágmarka tjón og óþægindi vegna verkfalla starfsmanna í almannaþjónustu er reynt með undanþágulistum að halda grunnþjónustu gangandi, sbr. 5 tl. 1 mgr. 19. gr. l. nr. 94/1986. Þar segir að hin almenna verkfallsheimild nái ekki til þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Þannig er verkfallsréttur lækna takmarkaður með lögum og á meðan verkfall lækna stendur eiga læknar einungis að sinna nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu og bráðatilvikum.12
Frá því að opinberir starfsmenn fengu verkfallsrétt hér á landi árið 1976 hafa verkföll meðal þeirra verið tíð. Fyrstu verkföll opinberra starfsmanna skullu á með miklum þunga árið 1977. Ef litið er til kjaradeilna opinberra starfsmanna síðustu fjóra áratugi hafa þær verið oft og tíðum langvinnar og harðvítugar. Kjarabarátta þeirra hefur í grunninn gengið út á samanburð við sambærilega hópa á almennum vinnumarkaði ásamt samanburði við aðra eða sambærilega hópa innan hins opinbera vinnumarkaðar. Það sem hefur einkennt kjaradeilur opinberra starfsmanna hér á landi er að það líður langur tími á milli kjarasamninga og þegar ákveðnir hópar opinberra starfsmanna fara af stað í sína kjarabaráttu hafa þeir dregist aftur úr öðrum hópum. Þetta var mjög áberandi í kjaradeilu ljósmæðra árið 2008 og læknaverkfallinu 2014.
Læknar í kjarabaráttu
Fljótlega eftir stofnun Læknafélags Íslands, þann 14. janúar 1918, fór að bera á kjarabaráttu lækna. Guðmundur Hannesson segir í Læknablaðinu í janúar 1918:
„.. í öllum menningarlöndum hafa læknar komið á fót föstum félagsskap og skipulagi sín á milli, og fleiri eða færri málgögnum til að ræða sín mál. [] Mitt í öllum harðindinum, þrátt fyrir alla dýrtíð og styrjöld, byrja nú íslenskir læknar árið með þessari félagsstofnun, víllausir og alls ósmeikir, til þess að búa betur í haginn fyrir komandi ár ...“13
H. Stefánsson skrifar í Læknablaðið14 um stéttarmál og segir að það ætti ekki að vera ágreiningur um kröfur lækna um launakjör meðal þjóðar og þings:
„Öll sanngirni virðist mæla með því, að þau séu ekki minni en sýslumannanna. Staða lækna er jafnvandasöm, ábyrgðarmikil og í alla staði ófrjálslegri en þeirra [] Við verðum að krefjast sómasamlegra launa, launa, sem hægt er að lifa af við áhyggjulitlu lífi, svo við getum gefið okkur alla við starfi okkar.“
Á þessum tíma var ekki ljóst hvaða leið væri best að fara til að bæta kjör lækna. Guðmundur Hannesson sagði greiðslur fyrir læknisverk hér á landi langt „fyrir neðan allt það, sem sem dæmi eru til í nágrannalöndunum“15 og gerir hann samanburð á kjörum norskra og íslenskra lækna. Dýrtíð og verðfall peninga á þessum tíma rýrði kjör lækna mjög mikið og tóku allmargir læknar upp á því að setja meira upp fyrir læknisverk en gjaldskráin kvað á um. Guðmundur benti á að við þetta yrði ekki unað og bráðra endurbóta þörf. „Lagaákvæðin eru svo ósanngjörn, að bæði læknar og alþýða hætta að skeyta um þau,“ ritaði Guðmundur.15 Það voru skiptar skoðanir um það hvaða leið ætti að fara til að leiðrétta og bæta kjör lækna. Ein hugmynd var sú að koma á sama skipulagi hér og í útlöndum, að læknar ákveði sjálfir upphæð fyrir læknisverk. Rökin voru þau að launin væru þóknum fyrir störf í þágu lands og þjóðar eða eins og segir í Læknablaðinu „fyrir að líta eftir að heilbrigðislöggjöf landsins sé fylgt, fyrir ráðstafanir til þess að verja almenning sóttum og ekki síst fyrir að vera tjóðraðir hver í sínu horni, skyldugir til að láta siga sér, nótt sem nýtan dag, út í veður og vind.“15 Útfærslan yrði þá sú að stjórn Læknafélags Íslands, landlæknir og landsstjórn kæmi sér saman um taxtann. Læknar töldu hæpið að Alþingi myndi samþykkja þessa leið. Önnur hugmynd var sú að saminn yrði nýr taxti og hann lagður fyrir Alþingi en stjórn Læknafélags Íslands treysti sér ekki til að gera tillögu um nýjan taxta, slíkt væri mikið vandaverk. Læknastéttinni ætti að gefast kostur á að segja sitt álit á tillögunum og það var mat Læknafélags Íslands að óvíst væri hvort Alþingi hefði tekið þessar tillögur um taxtahækkun á dagskrá. Þriðja hugmyndin var að gera kröfu um dýrtíðaruppbót til bráðabrigða á öll læknisverk en halda töxtum óbreyttum. Læknafélag Íslands taldi þessa leið einfaldasta og fór þess á leit við landsstjórnina að hún legði fyrir Alþingi frumvarp „um hækkun á borgun fyrir öll læknisverk sem nemi því er peningar hafa fallið í verði frá 1914-1918“.15 Almenn samstaða var meðal lækna að fara þessa leið og bjuggust þeir við því að þetta yrði auðsótt mál. En raunin varð önnur. Landsstjórnin og fjárveitinganefnd studdi kröfu lækna en meirihluti neðri deildar Alþingis felldi tillögurnar með 15 atkvæðum á móti 10. Stjórn Læknafélags Íslands fjallaði um þessa ákvörðun Alþings. Benti stjórnin á að frá því að íslenskir læknar hófu störf hér á landi þá hafi alltaf verið gott samstarf milli þeirra og landsstjórnarinnar eða Alþingis. En læknum var nóg boðið og lesa má í maíhefti Læknablaðsins árið 1918 eftirfarandi:
„En hvað hafa svo læknar lengst af fengið fyrir sitt erfiða starf? Þakklæti sjúklings en annars hundsbætur! [] En læknastéttin beygði sig með þögn og þolinmæði fyrir þingi og stjórn. Og héraðslæknarnir" dóu öreiga og útslitnir. Ekkjur þeirra og börn stóðu með tvær hendur tómar við fráfall þeirra. Og enn eru kjör lækna svo, að þeir færast undan svari, ef útlendingar spyrja um þau, til þess að gera ekki þjóðinni minkunn! [] Meirihluti neðri deildar telur lækna fullsæmda af því, að fá þriðjung af kaupi trésmiða og rúman þriðjung af kaupi algengra daglaunamanna.“16
Viðbrögð lækna voru mjög hörð og einhugur og samstaða meðal lækna var mjög mikil. Fljótlega komu upp hugmyndir um að læknar myndu segja af sér embættum vegna þessa máls. Læknafélag Íslands spurði símleiðis héraðslækna hvort þeir myndu, ef til þess kæmi, segja embættum sínum lausum. Fimm læknar voru mótfallnir uppsögnum, 28 voru samþykkir. Tillögur lækna fóru aftur fyrir Alþingi og var samþykkt að greiða læknum dýrtíðaruppbætur frá 1. júlí 1918.17
Læknar hafa nokkrum sinnum gripið til uppsagna í tengslum við baráttu um bætt kjör og starfsaðstöðu. Sem dæmi má nefna uppsagnir 31 sjúkrahúslæknis árið 196218 og árið 1966 þegar 19 læknar sögðu upp við Landspítalann og Kleppspítalann19 og þegar 70 sjúkrahúslæknar sögðu upp árið 1972.20 Rétt er að taka það fram að afstaða lækna gagnvart uppsögnum var sú að ekki væri um verkfallsaðgerð að ræða, heldur ákvarðanir einstaklinga. Í tilkynningu stjórnar Læknafélags Reykjavíkur vegna uppsagna lækna árið 1972 segir að þrátt fyrir þessa kjaradeilu sé ekki um verkfall að ræða.
„Uppsagnir fela ekki í sér verkfall á neinn hátt og munu læknar fúsir að halda áfram störfum eftir að uppsagnir hafa tekið gildi, ef þess verður óskað en greiðslur munu þá fara eftir gjaldskrá Læknafélags Reykjavíkur. Starfsemi sjúkrahúsanna þarf því ekki að raskast vegna kjaradeilu þessarar.“21
Fyrsta verkfall lækna
Fyrsta verkfall lækna hér á landi átti sér nokkurn aðdraganda. Mikil umræða hafði verið um stöðu heilbrigðismála hér á landi allt frá efnahagshruninu. Á aðalfundi Læknafélags Íslands 25. september 2014 var skorað á stjórnvöld að móta raunhæfa stefnu um íslenska heilbrigðiskerfið og tryggja fjármögnun þess. Læknar og félög þeirra höfðu oft og tíðum bent á lausnir til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að heilbrigðiskerfinu hér á landi.22 Á sama aðalfundi var samþykkt að hefja undirbúning að stofnun verkfallssjóðs sem var ákveðin vísbending um að nota þyrfti verkfallsvopnið til að fá kröfum framgengt. Læknar voru mjög óánægðir með kjör sín, þeir höfðu dregist aftur úr öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum í launum og brottflutningur lækna var staðreynd. Það vantaði hvata fyrir íslenska lækna starfandi erlendis til að koma heim. Á árunum 2009-2014 höfðu 330 læknar flutt frá Íslandi en 140 læknar flutt til landsins. Í ársbyrjun 2014 voru 110 færri læknar starfandi hér á landi en 2009.23 Þorbjörn Jónsson, þáverandi formaður Læknafélags Íslands, benti á þá stöðu að Íslendingar gætu misst út heila kynslóð lækna.24 Þann 1. febrúar 2014 voru kjarasamningar lækna lausir og hófu læknar strax að undirbúa kröfugerð sína. Á haustmánuðum 2014 var ljóst að það myndi stefna í verkfall lækna, í fyrsta skipti hér á landi. Árangurslausar samningaviðræður höfðu staðið yfir í 9 mánuði. Kjaradeilu lækna, það er Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands, var vísað til ríkissáttasemjara 18. og 20. júní 2014.
Forvígismenn lækna leituðu fljótlega til Gunnars Steins Pálssonar, almannatengils, til að vera læknum innan handar þegar kæmi að samskiptum við fjölmiðla og viðsemjendur.25 Nokkuð hefur verið um að stéttarfélög leiti til utanaðkomandi ráðgjafa í vinnudeilum, slíkt gerðu ljósmæður í tengslum við verkfall sitt árið 2008. Kosið var um verkfallsboðun meðal félagsmanna í Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands í byrjun október 2014. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 80%, 910 læknar voru á kjörskrá og sögðu 96,0% já, 2,1% nei og 1,9% skiluðu auðu. Sem dæmi má nefna var þátttaka breskra lækna vegna verkfallsboðunar þeirra árið 2012, 51% og sögðust 84% vera hlynntir verkfalli en 16% á móti verkfallsboðun. Þetta var í fyrsta sinn í 180 ára sögu bresku læknasamtakanna (British Medical Association) að greidd voru atkvæði í allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfall.7
Verkföll Skurðlæknafélags Íslands og Læknafélags Íslands hófust 27. október 2014 og lauk 7. og 8. janúar 2015. Verkfallið var skipulagt í lotum með nokkrum hléum á milli og áttu aðgerðir að standa fram í miðjan desember. Loturnar voru þrjár, 27. október til 6. nóvember, 10.-20. nóvember og 8.-11. desember. Verkfallsaðgerðir stóðu yfir í tæpar 11 vikur og voru haldnir yfir 80 samningafundir hjá samninganefndum þessara félaga.26 Sama dag og verkfall lækna hófst birtist í dagblöðum heilsíðutilkynning frá Læknafélagi Íslands, undirrituð af Þorbirni Jónssyni, þáverandi formanni Læknafélags Íslands.
Í tilkynningunni kemur fram að læknum finnst miður að fara í verkfall til að knýja á um bætt kjör, en neyðarmönnun og undanþágur tryggi það að öryggi sjúklinga verði ekki ógnað en óhjákvæmlegt er að einhverjir verði fyrir óþægindum. Einnig er farið yfir kröfur lækna, starfsaðstöðu þeirra, nýliðun og að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé ekki á ábyrgð lækna en þeim sé alls ekki sama um hana. Að endingu er beðið um stuðning þjóðarinnar og skilning þeirra sem munu fá skerta þjónustu og skorað á stjórnvöld að bregðast hratt við. Mikill samhugur og samstaða var meðal lækna og nutu þeir mikils stuðnings meðal almennings. Capacent gerði skoðanakönnun dagana 13.-20. nóvember, þegar verkfallið stóð sem hæst. Spurt var hvort viðkomandi styddi kjarabaráttu lækna eða ekki, 85% kvenna studdu kjarabaráttuna á móti 71% karla. Stuðningur var mikill á höfuðborgarsvæðinu, eða 85% á móti 72% stuðningi íbúa á landsbyggðinni.27
Fljótlega fór að bera á kröfum þess efnis að Alþingi myndi grípa inn í verkfall lækna með lagasetningu. Lög höfðu verið sett á verkfall Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem störfuðu hjá Icelandair Group þann 15. maí 2014 og þann 2. apríl 2014 hjá félagsmönnum Sjómannafélags Ísands sem störfuðu hjá Herjólfi. Löggjafinn hafði oft gripið til lagasetningar vegna verkfalla, eða alls 15 sinnum á árunum 1985-2016, þar af 5 sinnum frá árinu 2010.11 Ástæðum lagasetningar vegna vinnudeilna má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi hafa lög verið sett ef efnahagslegt vægi þjóðarbúsins og stöðugleiki á vinnumarkaði eru í húfi, í öðru lagi ef heildarhagsmunir atvinnugreinar eru í húfi og í þriðja lagi ef lögmælt verkefni og framkvæmd þeirra hjá hinu opinbera eru í húfi. Loks hefur löggjafinn talið heimilt að skerða verkfallsrétt ef það þjónar ákveðnum almannahagsmunum eða almannaheill er í húfi. Þáverandi heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði að það kæmi ekki til greina að setja lög á verkfall lækna, það yrði að láta reyna á samningsviljann.28
Eins og áður sagði áttu lotuverkföllin að standa fram undir miðjan desember 2014 og þegar lítið þokaðist í samningsátt samþykktu 98% lækna í atkvæðagreiðslu, í byrjun desember 2014, að ráðast í harðari verkfallsaðgerðir sem hefjast áttu 5. janúar 2015. Helsta breytingin varðandi framkvæmd verkfallanna var sú að hver eining átti að fara í fjögurra daga verkfall þar sem engar verkfallslausar vikur væru inn á milli.29 Þann 7. og 8. janúar 2015 náðust loks samningar, 11 vikna verkfalli Skurðlæknafélags Íslands og Læknafélags Íslands sem hófst 27. október 2014 var lokið. Haldnir voru yfir 80 samningafundir hjá samninganefndum þessara félaga.26 Kjarasamningurinn var til þriggja ára, hann var afturvirkur til 1. júní 2014. Samningurinn var samþykktur með miklum meirihluta, eða 91,1% þeirra 734 lækna sem greiddu atkvæði.30,31 Samningurinn gilti til 30. apríl 2017. Þann 6. júní 2017 var undirritaður kjarasamningur sem var samþykktur þann 19. júní. Á kjörskrá voru 926 félagsmenn, þátttaka var 56,6%. Já sögðu 341, eða 65,1%, nei sögðu 164, eða 31,3%, 19, eða 3,6%, skiluðu auðu. Samningurinn gildir til 28. febrúar 2019.32
Verkfallið hafði mikil áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnana, fresta þurfti 983 skurðaðgerðum, 108 hjartaþræðingum, 1599 myndgreiningum, 4413 dag- og göngudeildarkomum og 725 öðrum aðgerðum var frestað. Ekkert alvarlegt atvik var skráð sem rekja mátti til verkfallsins.33 Samhliða undirritun kjarasamninganna, þann 8. janúar 2015, rituðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, formaður Læknafélags Íslands og varaformaður Skurðlæknafélags Íslands undir yfirlýsingu í 8 liðum. Þar er meðal annars fjallað um leiðir til að skapa heilbrigðisstarfsmönnum betri starfsskilyrði, aukið samráð verði haft við lækna varðandi stefnumótun og nýtingu fjármagns og lögð áhersla á byggingu nýs Landspítala. Ennfremur að laun, vinnuálag og vaktafyrirkomulag lækna verði samkeppnishæf og færð nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.34
Lokaorð
Það er margt sem hægt er að læra af læknaverkfallinu og verkföllum opinberra starfsmanna almennt. Bregðast þarf við gagnrýni opinberra stéttarfélaga í þá veru að samninganefndir ríkisins hafi ekki nægilega skýrt samningsumboð. Samninganefndir stéttar-félaga hafa líkt samningaviðræðum við störukeppni og lítill árangur verið af samningaviðræðum. Níu mánaða samningaviðræður lækna við viðsemjendur þar sem voru haldnir yfir 80 formlegir samningafundir segja allt sem segja þarf. Tryggja þarf opinberum starfsmönnum það launaskrið sem á sér stað á gildistíma kjarasamnings en opinberir starfsmenn hafa í kröfum sínum bent ítrekað á að þeir hafi dregist aftur úr í launum, annars vegar í innbyrðis samanburði háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og hins vegar í samanburði við sambærilega hópa á hinum almenna vinnumarkaði. Auka þarf dreifstýringu í launasetningu. Veita þarf opinberum starfsmönnum í ríkara mæli aðgang að samráðskerfinu, það er að ríkisvaldið bjóði fram ákveðnar lausnir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Samkomulag stjórnvalda og lækna sem undirritað var samhliða kjarasamningum 2015 er spor í þá átt.
Heimildir
1. Thompson SL, Salmon JW. Strikes by physicians: A historical perspective toward an ethical evaluation. Int J Health Serv 2006; 36: 331-54. https://doi.org/10.2190/B5CX-UX69-45LY-2D6D PMid:16878396 |
|
2. Frizelle F. Is it ethical for doctors to strike? N Zealand Med J 2006; 119: 6-8. | |
3. Aacharya RP, Varghese S. Medical Doctors' Strike: An Ethical Overview with Reference to the Indian Context. J Clin Res Bioethics 2016; 7: 272. https://doi.org/10.4172/2155-9627.1000272 |
|
4. Hicks J. The theory of wages. St. Martin's Press, New York 1966. | |
5. Aðalsteinsson GD. Verkföll opinberra starfsmanna á Íslandi. Stjórnmál og stjórnsýsla 2015; 11: 247-68. https://doi.org/10.13177/irpa.a.2015.11.2.7 |
|
6. Cunningham SA, Mitchell K, Narayan KM, Yusuf S. Doctors' strikes and mortality: a review. Soc Sci Med 2008; 67: 1784-8. https://doi.org/10.1016/j.socscimed.2008.09.044 PMid:18849101 |
|
7. Park JJ, Murray SA. Should doctors strike? J Med Ethics 2014; 40: 341-2. https://doi.org/10.1136/medethics-2013-101397 PMid:23788560 |
|
8. Aðalsteinsson GD. Um verkfallshneigð opinberra starfsmanna. Rannsóknir í félagsvísindum VI. Viðskipta- og hagfræðideild. Ritstj: Hannibalsson I. Félagsvísindastofnun, Reykjavík 2005: 189-99. | |
9. Aðalsteinsson GD. Vinnulöggjöfin (lög nr. 80/1938) í 70 ár. Stjórnmál og stjórnsýsla veftímarit 2008; 4: 181-204. | |
10. Olgeirsson FG. Saga Bandalags háskólamanna 1958-2008. BHM, Reykjavík 2008. | |
11. Friðriksson F, Aðalsteinsson GD. Lög á verkföll 1985-2010: Um forsendur lagasetningar. Stjórnmál og stjórnsýsla 2010; 6: 151-83. | |
12. Pálsdóttir D. Verkfall lækna. Læknablaðið 2014; 100: 621. | |
13. Hannesson G. Læknafélag Íslands. Læknablaðið 1918; 4: 2. | |
14. Stefánsson H. Stéttarmál. Læknablaðið 1918; 4: 22-4. | |
15. Hannesson G. Læknafélag Íslands. Læknablaðið 1918; 4: 56-8. | |
16. Stjórn Læknafélags Íslands. Sómastrik Alþingis. Hverju svarar læknastéttin? Læknablaðið 1918; 4: 65-7. | |
17. Bjarnhéðinsson S. Pílagrímsför læknamálsins á Alþingi 1918. Læknablaðið 1918; 4: 107-8. | |
18. Læknar hætta störfum á sjúkrahúsum. Morgunblaðið 1962, 1. nóvember: 1. | |
19. Öngþveiti í læknamálum Landspítalans. Þjóðviljinn 1966, 5. apríl: 1. | |
20. 70 sjúkrahúslæknar hafa sagt upp. Vísir 1972, 10. maí: 1. | |
21. Uppsagnir en ekki verkfall. Alþýðublaðið 1972, 20. maí: 6. | |
22. Stjórnvöld móti stefnu fyrir lok árs. Mbl.is 2013, 12. október. mbl.is/frettir/innlent/2013/10/12/stjornvold_moti_stefnu_fyrir_lok_ars/ - janúar 2018. | |
23. Liðlega 110 færri læknar en 2009. Mbl.is 2014, 18. október. mbl.is/frettir/innlent/2014/10/18/lidlega_110_faerri_laeknar_en_2009 / - janúar 2018. | |
24. Læknar stofna verkfallssjóð. Mbl.is 2013, 16. október. mbl.is/frettir/innlent/2013/10/16/laeknar_stofna_verkfallssjod/ - janúar 2018. | |
25 Sigurjónsson H. "Stórt skref til bættra kjara íslenskra lækna." Læknablaðið 2015; 101: 102-3. | |
26. Ríkissáttasemjari. Ársskýrsla ríkissáttasemjara. Reykjavík 2014. | |
27. Ísleifsson A. Mikill meirihluti styður kjarabaráttu lækna. Vísir.is 2014, 1. desember. visir.is/g/2014141209914/mikill-meirihluti-stydur-kjarabarattu-laekna - janúar 2018. | |
28. Vill ekki láta setja lög á verkfall lækna. Rúv.is 2014, 28. október. ruv.is/frett/vill-ekki-lata-setja-log-a-verkfall-laekna - janúar 2018. | |
29. Harðari aðgerðir á nýju ári. Mbl.is 2014, 13. desember. mbl.is/frettir/innlent/2014/12/13/hardari_adgerdir_a_nyju_ari/ - janúar 2018. | |
30. Læknar samþykktu nýjan kjarasamning. Vísir.is 2015, 17. janúar. visir.is/g/2015150119160 - janúar 2018. | |
31. Ritstjórn Kjarnans. Yfir 90 prósent lækna samþykktu nýjan kjarasamning. Kjarninn.is 2015, 10. janúar. kjarninn.is/frettir/yfir-90-prosent-laekna-samthykktu-nyjan-kjarasamning/ - janúar 2018. | |
32. Gunnarsson JA. Nýr kjarasamningur lækna samþykktur. Kjarninn.is 2017, 10. júlí. kjarninn.is/frettir/2017-07-10-nyr-kjarasamningur-laekna-samthykktur/ - janúar 2018 | |
34. Stjórnarráð Íslands. Yfirlýsing forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga lækna. Stjórnarráð Íslands, Reykjavík 2015. |