01. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

„Afmælisþráður í dagskrá Læknadaganna“ - segir Jórunn Atladóttir formaður Fræðslustofnunar LÍ

                                 
                                 „Nokkur málþing á Læknadögum snúast um hitamál í umræðunni
                                 um heilbrigðismál,“ segir Jórunn Atladóttir.

„Dagskrá Læknadaga í ár er fjölbreytt að vanda en þó má segja að tvennt einkenni hana. Annars vegar er það afmæli Læknafélags Íslands og hins vegar er óvenju margt á dagskránni sem ætla má að höfði til breiðari hóps en alla jafna,“ segir Jórunn Atladóttir formaður stjórnar Fræðslustofnunar LÍ.

Jórunn tók við formennsku Fræðslustofnunar LÍ í byrjun þessa árs af Gunnari Bjarna Ragnarssyni.

„Þetta eru mínir fyrstu Læknadagar og það hefur verið einstaklega skemmtilegt að skipuleggja dagskrána og sérstaklega magnað að finna hvað áhuginn er mikill fyrir Læknadögunum og hvað margir vilja taka þátt og leggja sitt af mörkum. Læknar geta nú eins og undanfarin ár fengið CME-símenntunarpunkta fyrir að sækja Læknadaga og þetta tryggir gæði dagskrárinnar því við þurfum að leggja hana fram á hverju ári og fá hana viðurkennda sem alþjóðlegt símenntunarþing. Það er mjög mikilvægt,“ segir Jórunn.

 

Læknafélag Íslands 100 ára

„Fyrsti dagur Læknadaganna er helgaður afmæli LÍ með hátíð og skemmtun í Eldborgarsal Hörpu. Síðan gengur eins konar afmælisþráður í gegnum dagskrána þar sem sögu LÍ verða gerð skil með ýmsum hætti. Þar má nefna málþing um konur í læknastétt í 100 ár, sérstakt málþing verður helgað sögu LÍ og einnig verður þess minnst með málþingi að 100 ár verða liðin frá Spænsku veikinni.“

Jórunn nefnir síðan nokkra fasta liði eins og Tilfelli af barnaspítalanum þar sem barnalæknarnir lýsa tilfellum og áheyrendur taka þátt með snjalltækjum sínum. „Vinnubúðir lækna verða á sínum stað og í ár verður hermikennsla þar sem notaðar verða glænýjar brúður til kennslu á líkamspörtum sem erfitt er að gera sýnikennslu á. Almennir læknar verða með málþing sem helgað er starfsumhverfi læknisins, þar sem umhverfi, hlutverk og heilsa læknisins er í forgrunni,“ segir Jórunn.

„Síðan snúast nokkur málþing um hitamál og má nefna að fylgt verður eftir #metoo-baráttunni. Skipulag heilbrigðisstofnana verður viðfang málþings sem forsvarsmenn Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa sett saman. Landlæknir mun meðal annarra taka þátt í þeirri umræðu. Fíknivandamál aldraðra verða rædd á öðru málþingi sem er nokkuð viðkvæmt efni. Enn eitt hitamál er skjánotkun barna og unglinga og heimilislæknar ætla að fara yfir það hvaða áhrif notkun tölva og snjalltækja hefur á heilsu barnanna okkar.

Af fleiri föstum liðum má nefna málþing á miðvikudagskvöldi sem opið er almenningi. Þar verður fjallað um geðheilbrigði og samfélagið. Á þriðjudagskvöldi verður skemmtidagskrá helguð Sigvalda Kaldalóns, lækni og tónskáldi. Þar kemur karlakórinn Fóstbræður fram og rakin saga Kaldalóns og tónsmíða hans. Þetta var flutt í lokaðri dagskrá á Læknadögum í fyrra og vakti svo mikla ánægju að ákveðið var að endurtaka það núna í dagskrá sem er opin almenningi.“

 

Fastir liðir á sínum stað

„Málþing um sársauka í bókmenntum er einnig á dagskrá þannig að segja má að ýmislegt sé í boði sem óvenjulegt og skemmtilegt má telja. Þá má nefna hádegisverðarfund um áhrif lakkrís á heilsuna. Af praktískum læknisfræðilegum toga er málþing um innkirtlasjúkdóma, þvagfæraskurðlæknar verða með hagnýtt málþing um nýjungar í þeirri grein og krabbameinslæknar fjalla um sortumein ásamt fyrirlesara frá Lundi í Svíþjóð. Hjartalæknar verða með málþing um ósæðarlokuaðgerðir og bráðalæknar með vinnubúðir um þyrlulækningar og fyrstu viðbrögð á slysstað en í þeim efnum hefur orðið mikil þróun þar sem nýjar aðferðir gera kleift að bjarga slösuðum utan spítalans sem ekki var áður hægt. Við eigum von á því að þyrlan mæti kannski í heimsókn.

Öldrunarlæknar verða með málþing um breyttar áherslur í öldrunarþjónustu Landspítalans og hafa fengið erlendan fyrirlesara til að kynna fjarlækningar í þjónustu við aldraða. Þetta gæti mögulega hentað okkur með okkar mikla dreifbýli og eigum erfitt með að manna allar læknastöður um landið.“

Jórunn segir að lokum að Spekingaglíman og kokdillirinn verði á sínum stað í lok Læknadaga og árshátíðin á laugardagskvöldi. Sú breyting hefur þó orðið að nú stendur LÍ í fyrsta skipti fyrir árshátíðinni en Læknafélags Reykjavíkur hefur haft veg og vanda af henni um áratugaskeið.Þetta vefsvæði byggir á Eplica