01. tbl. 104. árg. 2018
Fræðigrein
Læknafélag Íslands í hundrað ár. Jón Ólafur Ísberg
Guðmundur Hannesson, formaður Læknafélags Íslands 1917-1923
og 1927-1933.
Katrín Thoroddsen barnalæknir var fyrst kvenna til að sitja aðalfund LÍ
en hún var þá starfandi læknir í Reykjavík. Hún útskrifaðist 1921,
önnur kvenna á Íslandi.
Magnús Pétursson, formaður Læknafélags Íslands 1933-1934 og 1935 til 1951.
„Mitt í öllum harðindunum, þrátt fyrir alla dýrtíð og styrjöld, byrja nú íslenskir læknar árið með þessari félagsstofnun, víllausir og alls ósmeykir, til að búa í haginn fyrir komandi ár.“ Þannig skrifaði Guðmundur Hannesson fyrsti formaður Læknafélags Íslands og forvígismaður í félagsmálum lækna í Læknablaðið skömmu eftir stofnun félagsins. Læknafélag Íslands var stofnað 14. janúar 1918 á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur en stofnun félagsins átti sér meira en 20 ára aðdraganda.
Í Læknablaðinu er skráð og varðveitt tilurð, saga og þróun Læknafélagsins frá upphafi og fram á þennan dag.
Á síðasta áratug 19. aldar voru starfandi tæplega 50 læknar á öllu landinu. Hver hafði sitt hérað, yfirleitt eina sýslu eða bæjarfélag, en nokkrir störfuðu sem aukalæknar, voru í afleysingum eða önnuðust hluta af héraði fyrir héraðslækninn, og síðan voru kennarar við læknaskólann. Læknar höfðu ekki með sér neitt félag, ekki frekar en aðrir hópar eða starfsstéttir, en gera má ráð fyrir því að undir aldamótin 1900 hafi flestir þeirra þekkst enda var stærstur hluti þeirra á svipuðum aldri og höfðu gengið í gegnum svipað menntunarferli. Landlæknir var yfirmaður heilbrigðismála og hafði sem slíkur samband við alla lækna landsins en hann var í senn yfirmaður þeirra og kollegi. Það þarf því ekki að koma á óvart að það var landlæknir sem hafði forgöngu um að stofnað yrði sérstakt læknafélag. Jónas Jónassen landlæknir boðaði lækna landsins til fundar í Reykjavík 27. júlí 1896 í þeim tilgangi að ræða ýmis mál. Alls mættu 12 læknar auk hans og var fundurinn nefndur „fyrsti íslenski læknafundurinn“.
Á dagskrá þessa fyrsta almenna læknafundar voru meðal annars breytingar á skipan læknishéraða, kjör lækna, landsspítali, læknaskólinn, bólusetningar, starfsskýrslur og bókfærsla lækna, vitfirringastofnun, lyfjasölumál og lyfjaskrá og stofnun íslensks læknafélags. Þessi fyrsti læknafundur er athyglisverður fyrir margra hluta sakir og þarna komu fram þau viðhorf sem helst voru ríkjandi meðal lækna á þessum tíma. Ályktað var um flest mál en um „stofnun íslensks læknafélags“ fréttist ekkert. Í nefndinni um læknafélagið sátu Guðmundur Hannesson héraðslæknir á Akureyri, Guðmundur Björnsson héraðslæknir í Reykjavík og Björn Ólafsson augnlæknir. Stefnt var að því að halda næsta fund sumarið 1898 „ef ekkert sérstakt hindraði“. Ekkert varð úr þeim fundi sem auglýstur hafði verið 26. júlí 1898 en þremur dögum síðar, eða 29. júlí 1898, hittust níu læknar úr Reykjavík og nágrenni á fundi til að ræða tillögu um stofnun læknafélags sem nefndin sem kosin var á fundinum tveimur árum fyrr hafði gert tillögur um. Samþykkt var að stofna félagið og lög félagsins og codex ethicus voru prentuð til þess að aðrir læknar gætu kynnt sér málið. Í stjórn félagsins voru kosnir Jónas Jónassen landlæknir, Guðmundur Björnsson héraðslæknir í Reykjavík, sem hafði setið í undirbúningsnefndinni, og Guðmundur Magnússon kennari við Læknaskólann. Félagið varð aldrei neitt nema nafnið eitt en formlega séð var stofnað íslenskt læknafélag 29. júlí 1898.
Af þessu fyrsta félagi íslenskra lækna voru engar spurnir næstu árin og það næsta sem fréttist var af fundi lækna í Reykjavík 2. október 1909. Þá komu læknar saman til að ræða væntanlega stofnun sjúkrasamlags í Reykjavík og hvernig læknar gætu brugðist við kröfum þess um samninga við lækna fyrir sína félagsmenn. Í framhaldi af þeim umræðum var síðan stofnað til Læknafélags Reykjavíkur þann 18. október 1909 á Hótel Íslandi af 9 læknum. Árið 1909 var að frumkvæði Oddfellow-reglunnar stofnað sjúkrasamlag í Reykjavík en reglan var í forystu fyrir úrbótum í heilbrigðismálum í landinu. Sjúkrasamlagið var fyrir „fullhrausta og velmegandi einstaklinga“ sem gátu borgað árgjald en hvorki var gert ráð fyrir fátæku fólki né mjög ríku fólki í sjúkrasamlaginu. Tveimur árum eftir að Sjúkrasamlag Reykjavíkur var stofnað voru sett lög á Alþingi um sjúkrasamlög og í kjölfarið voru stofnuð sjúkrasamlög víða um land.
Með stofnun sjúkrasamlags var komin forsenda fyrir lækna að stofna félag sem gætti hagsmuna þeirra í samningum við samlagið og það var í raun eina ástæða þess að félagið var stofnað. Segja má að félagið hafi fyrst og fremst brugðist við áreiti að utan hvað varðar stéttarmálefni eins og samskipti við Sjúkrasamlagið en þar var meðal annars samið um gjaldskrá fyrir félagsmenn sem var töluvert frábrugðin og hærri í krónum talið en lögbundinn taxti héraðslækna sem var settur einhliða af yfirvöldum.
Félagsmenn virðast hafa verið vel meðvitaðir um stéttarstöðu sína gagnvart Sjúkrasamlaginu en jafnframt því sem þeir vildu tryggja stöðu sína þá var þeim umhugað um að sem flestir nytu læknishjálpar. Þarna komu saman einstaklingar með sjálfstæða atvinnustarfsemi og sömdu við félagasamtök um laun og þjónustu án þess að ríkisvaldið hefði einhver afskipti. Fljótlega efldist félagið og fundir voru haldnir nokkuð reglulega í félaginu þar sem einkum var rætt um fagleg málefni og það hóf útgáfu Læknablaðsins árið 1915. Útgáfa þess var þrekvirki hvernig sem á það er litið en með því tókst að halda úti fræðilegri umræðu og birta fróðleik fyrir lærða sem leika sem annars hefði líklega ekki komist út fyrir fámennan hóp lækna í Reykjavík.
Á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur í nóvember 1916 var kosin nefnd til athuga hvort bæri að stofna heildarsamtök lækna og í henni sátu Guðmundur Magnússon prófessor, Guðmundur Hannesson héraðslæknir í Reykjavík og Matthías Einarsson skurðlæknir í Reykjavík. Á næstu mánuðum voru málefni hins fyrirhugaða félags stundum til umræðu í Læknablaðinu en undirtektir voru frekar daufar enda fátt sem ýtti á eftir slíkri stofnun.
Héraðslæknar voru embættismenn ríkisins og það var ekki nein samkeppni milli lækna, þar voru engir sjálfstætt starfandi læknar heldur hafði hver sitt hérað og sjúklingar leituðu yfirleitt ekki annað en til síns héraðslæknis. Þetta var líklega ein af ástæðum þess að ekki var fyrr stofnað til heildarsamtaka lækna en víða erlendis var það samkeppnin sem knúði lækna til samtaka. Sérfræðingarnir og samkeppnin var í Reykjavík og í ljósi þessa er það athyglisvert að það er framvarðasveit Læknafélags Reykjavíkur sem hefur forgöngu um stofnun Læknafélags Íslands til þess að virkja alla lækna til samstarfs félagslega og fræðilega. Helsti hvatamaðurinn, Guðmundur Hannesson, þekkti vel hvernig það var að vera starfandi læknir á landsbyggðinni og hann skynjaði að tímarnir væru að breytast. Í grein sem hann skrifaði í aðdraganda stofnunar félagsins sagði hann meðal annars: „Nú eru hér fleiri læknar en embætti eru til og eftir fáein ár verða sennilega embættislausir læknar víðsvegar um land. Við rekum okkur þá á samkeppnina, kosti hennar og lesti. Það verður vandlifaðra en áður og sama nauðsyn hér sem annarsstaðar að fylgja föstum reglum í allri framkomu.“ Hann taldi hagsmunum læknastéttarinnar best borgið með því að stofna samtök og koma sér upp reglum til þess að taka á annmörkum frjálsræðisins. Tilgangurinn var einnig að „efla samvinnu og bróðerni milli lækna“ og auka fræðslu og þekkingu en aðalatriði var að allir læknar stæðu saman gagnvart markaðnum og öðrum sem vildu yfir þeim ráða.
Tillaga að lögum Læknafélags Íslands var send út til lækna í mars árið 1917 og var hún samþykkt en samkvæmt þeim átti að kjósa stjórn félagsins skriflega fyrir nóvember og á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur í ársbyrjun 1918 var Læknafélag Íslands stofnað. Borist höfðu 34 atkvæðaseðlar til stjórnarkjörs og féllu atkvæði þannig að Guðmundur Hannesson prófessor var kjörinn formaður, Guðmundur Magnússon varð gjaldkeri og Sæmundur Bjarnhéðinsson yfirlæknir ritari. Varamaður var kosinn Matthías Einarsson skurðlæknir og fjórðungsfulltrúar voru: fyrir Vestfirðinga Halldór Steinsson í Ólafsvík, fyrir Norðlendinga var Steingrímur Matthíasson á Akureyri og Georg Georgsson á Fáskrúðsfirði fyrir Austfirðinga en ekki þótti ástæða til að Sunnlendingar hefðu sérstakan fulltrúa. Nokkru síðar bárust 5 atkvæðaseðlar til viðbótar og töldust stofnfélagar því vera 39.
Fyrsti aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn á sal Menntaskólans í Reykjavík 1. júlí 1919. Alls mættu 32 læknar og 7 mál voru á dagskrá. Enginn aðalfundur var haldinn árið 1920 og er ástæðan talin sú að ekki hafi komið fram nein mál sem læknar vildu ræða, auk þess sem læknar úti á landi hefðu ekki tíma til að koma til Reykjavíkur. Aðalfundur var næst haldinn í júní 1921 og þá mættu 26 læknar. Seint í júní 1922 var þriðji aðalfundur Læknafélagsins haldinn í Alþingishúsinu og mættu á milli 30 og 40 læknar, þar af 10 utan af landi. Árið 1923 var fjórði aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn á sal Menntaskólans í Reykjavík og mættu 25 læknar við setninguna. Þetta voru nokkru færri læknar en árið áður og töldu menn vænlegt að halda næsta fund á Akureyri. Fundurinn var haldinn á sal Gagnfræðaskólans og voru einungis mættir 15 fulltrúar, þar af einn dýralæknir, og tveir erlendir gestir. Aðalfundurinn á Akureyri markar tímamót í sögu Læknafélagsins á margan hátt. Guðmundur Hannesson sem verið hafði formaður frá byrjun var það ekki lengur en hann hafði verið einn helsti hvatamaður að stofnun þess og áður verið formaður í Læknafélagi Reykjavíkur.
Þegar litið er yfir mótunarárin 1918 til 1924 má sjá hvaða mál voru helst til umfjöllunar á aðalfundum Læknafélags Íslands. Þar eru auðvitað kjaramál í flestum sínum myndum áberandi þótt dregið hafi úr vægi launamála eftir að kreppu eftirstríðsáranna lauk. Umræðan um embættaveitingar og læknabústaði tengist launamálum en einnig því hvernig bæri að skipa heilbrigðismálum og hver ætti að ráða. Ekki voru læknar sammála um tilhögun embættaveitinga en almennt séð vildu þeir að læknar ættu að eiga möguleika á að komast úr tekjurýrum héruðum sem yfirleitt voru fámenn og erfið yfirferðar í þægilegri og tekjuhærri héruð. Fengju menn ekki slíka umbun var hætta á að enginn fengist í rýru héruðin til langframa nema einhverjir sem ættu enga aðra möguleika og slíkt væri ekki bjóðandi fólki. Læknafélagið var fyrst og fremst stéttarsamtök og þótt það samþykkti ýmsar ályktanir um heilbrigðismál voru það kjara- og réttindamál sem skiptu félagsmenn mestu máli. Um þriðjungur lækna bjó í Reykjavík og var í Læknafélagi Reykjavíkur sem annaðist hagsmunamál þeirra en hinir voru dreifðir um landið sem embættismenn. Þeir mættu lítt á fundi í Læknafélaginu sem hafði engum lögboðnum skyldum að gegna og gat lítið fyrir þá gert í launamálum.
Ekki voru haldnir aðalfundir árin 1925 og 1926 en á aðalfundi 1927 var Guðmundur Hannesson kosinn formaður aftur en aðrir stjórnarmenn voru Gunnlaugur Claessen og Níels Dungal og Ólafur Finsen var varamaður. Það var greinilegt á þessum fundi að Guðmundur Hannesson lét rækilega að sér kveða á ný og tók stjórnina í sínar hendur. Á meðan hans naut við þurftu félagsmenn ekki að óttast lognmollu í félagsstarfinu. Þótt stéttarmálefni væru fyrirferðarmikil skyggðu þau aldrei á læknisfræðina og á hverjum aðalfundi voru til umræðu og ályktunar eitt eða fleiri mál af því tagi. Berklar voru til umræðu á nánast hverjum einasta fundi allt til ársins 1934 en þá kom krabbameinið til sögunnar með ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld að hefja baráttu gegn krabbameini. Aðrir sjúkdómar eins og beinkröm, holdsveiki og kynsjúkdómar voru einnig til umræðu sem og almennar úrbætur í heilbrigðismálum. Þar bar hæst lög um sjúkratryggingar árið 1936 sem gjörbreyttu stöðu heilbrigðismála til frambúðar.
Árið 1933 urðu þau tímamót í sögu félagsins að Guðmundur Hannesson gaf ekki lengur kost á sér til formennsku. Magnús Pétursson var kosinn í hans stað og gegndi hann formennsku í félaginu til ársins 1951 að undanskildu árinu 1934. Á fjórða áratugnum breyttust aðstæður lækna verulega en þrátt fyrir kreppu í samfélaginu vænkaðist hagur þeirra, bæði stéttarlega og fjárhagslega. Skiptir þar mestu að alþýðu- og sjúkratryggingum var komið á, pólitíkin fór að róast hvað þá varðaði og almennt séð ríkti sátt um meginleiðir í heilbrigðismálum og hlutverk lækna og félaga þeirra í þeim málum. Læknum fjölgaði mikið, bæði á landsbyggðinni og ekki síður sjálfstætt starfandi læknum í Reykjavík, en bölsýnir menn höfðu spáð því að læknar og aðrir menntamenn yrðu brátt allt of margir, öllu samfélaginu til tjóns. Landspítali var byggður og þar hófst starfsemi árið 1930, víða um land voru byggð sjúkrahús eða sjúkraskýli og öll vísindastarfsemi í landinu fór vaxandi. Nær öll heilbrigðis- og félagsmálalöggjöf hafði verið endurskoðuð og með því átti meðal annars að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, án tillits til efnahags, stöðu eða búsetu. Á næstu árum virðist sem aðalstarfi stjórnar Læknafélags Íslands hafi farið í strögl um kaup og kjör, einkum fyrir héraðslækna, en Læknafélag Reykjavíkur samdi við Sjúkrasamlag Reykjavíkur fyrir sína félagsmenn. Ekki er hægt að merkja að baráttan hafi verið rekin af miklum krafti enda var það ekki til siðs hjá embættismönnum þessara ára að reka harða kröfugerðarpólitík. Aðalfundir voru haldnir stopult á fimmta áratugnum og starfsemi félagsins var í lágmarki en þó voru samþykktar nýjar siðareglur 1944. Þá var einnig samþykkt um 1950 sú grundvallarbreyting á félaginu að í stað einstaklingsaðildar kæmi félagsaðild að sérgreina- eða svæðafélögum sem ættu síðan aðild að Læknafélaginu.
Félagið efldist og styrktist við þessa breytingu og varð er fram liðu tímar að öflugum heildarsamtökum í réttindabaráttu lækna en glataði þó aldrei sínum grunngildum. Frá stofnun hefur Læknafélag Íslands verið samnefnari fyrir lækna og öll félög lækna. Hverjar sem áherslurnar hafa verið þá hafa læknar komið sér saman um ákveðin grunngildi sem ekkert hafa breyst þótt umhverfið og tæknin hafi breyst. Læknisfræðileg nálgun á þeim viðfangsefnum sem hafa verið til umfjöllunar hjá Læknafélagi Íslands eru annars vegar klínísk og hins vegar samfélagsleg og var hin síðarnefnda meira áberandi. Það er ljóst að læknar hafa talið það eina af frumskyldum samfélagsins að búa svo í haginn að fólk þyrfti ekki að óttast sjúkdóma vegna aðstæðna eða gæti ekki fengið lækningu meina sinna sökum fjárhagserfiðleika. Þeir vilja tryggja virkt heilbrigðiseftirlit og að yfirvöld geri nauðsynlegar úrbætur með lagasetningu og fjárframlögum til þess að tryggja heilbrigði þegnanna.
Læknar líta ekki eingöngu á sig og sitt starf sem lækna þeirra einstaklinga sem leita til þeirra heldur ekki síður sem lækna samfélagsins í heild. Um þetta eru flestir læknar sammála en um margt annað geta þeir verið ósammála. Læknafélag Íslands hefur í 100 ár gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og átt frumkvæði að nær öllum breytingum sem hafa orðið til hagsbóta fyrir land og þjóð, og þá var betur af stað farið en heima setið.