03. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Uppreisnin í Ungverjalandi árið 1956
Erindi í Rótarýklúbbi Akureyrar 23. nóvember 2016 með nokkrum breytingum.
„Strákar mínir, viljið þið ekki koma með mér niður í Hlégarð, ég er að fara að skoða ungversku flóttamennina sem komu til landsins í gær“ sagði pabbi. Pabbi hét Oddur Ólafsson og var yfirlæknir á Reykjalundi og við Þengill bróðir fengum að fara með honum í gula Chevrolettinum niður í Hlégarð, félagsheimilið í Mosfellssveit. Það var jóladagur árið 1956, ég var að verða 10 ára gamall og Þengill tveimur árum eldri. Það var bjart veður, nýfallin mjöll og fallegt um að litast í sveitinni okkar. Á aðfangadag hafði dr. Gunnlaugur Þórðarson, formaður framkvæmdaráðs Rauða kross Íslands, komið með hópinn í flugi frá Austurríki.2 Þegar við komum í Hlégarð fór pabbi inn að skoða flóttamennina en við máttum ekki fara inn með honum þar sem fólkið var í sóttkví. Við fórum þá að leika okkur í snjónum, hnoða snjóbolta og búa til snjókarla. Fólkið sem var inni í stóra salnum fór að fylgjast með okkur og veifa til okkar þar sem það stóð við gluggana. Þetta var bráðmyndarlegt og glaðlegt fólk, mest man ég eftir ungum karlmönnum, líklega um tvítugsaldurinn. Kvenfélagið í Mosfellssveit kom ríkulega að móttöku flóttamannanna og eldaði allar máltíðir í Hlégarði í tvær vikur, en sjálf sóttkvíin stóð í eina viku. Einnig var safnað fötum og leikföngum handa fólkinu og má rétt ímynda sér að fjölskyldurnar í sveitinni hafa gefið það sem þær voru aflögufærar með. Á þessum tíma var fatnaður mest heimasaumaður úr ull og bómull og flestir áttu rétt nóg fyrir sig. Skreytt jólatré beið fólksins í Hlégarði og fannst því þetta vera yndislegar móttökur.
Fjölskyldan á Reykjalundi árið 1956: Vífill, Ketill, Ólafur Hergill, Guðríður Steinunn, Oddur, Þengill,
Ragnheiður og Jóhannes Vandill.
Flóttamennirnir voru 52 á aldrinum 3ja til 54 ára. Eins og áður sagði var farið með fólkið í Hlégarð í Mosfellssveit þar sem það var í hálfan mánuð. Eftir mánuð var allt vinnufært fólk komið í vinnu og næstum allir höfðu fengið samastað. Flestir settust að á höfuðborgarsvæðinu en sex fóru til Vestmannaeyja og tveir til Akraness. Af þessum 52 flóttamönnum sem hingað komu settust 25 einstaklingar að hér á landi og fengu íslenskan ríkisborgararétt og 10 manns sneru aftur til Ungverjalands en hinir fóru vítt og breitt um heiminn.2
En af hverju flúði fólkið frá Ungverjalandi? Jú, árið 1945 fór kommúnistaflokkurinn í landinu að seilast til valda, studdur af Sovétríkjunum. Árið 1949 hafði kommúnistaflokknum tekist að sölsa til sín öll völd. Í október árið 1956 reis þjóðin upp gegn stjórnvöldum, sem voru algerlega undir hælnum á Sovétmönnum. Uppreisnin stóð frá 23. október til 10. nóvember 1956. Hún var barin niður af sovéska hernum. Yfir 2500 Ungverjar og 700 sovéskir hermenn féllu í átökunum og 200.000 Ungverjar flýðu til annarra landa. Árið 1989 fengu Ungverjar frelsið að nýju og 23. október varð opinber hátíðisdagur.3
Frá 1981-1983 var ég í Kanada vegna náms í heimilislækningum. Ég man að þá hitti ég einu sinni Ungverja sem hafði flúið frá landi sínu árið 1956 og flust til Kanada. Hann sagði að eitt það sárasta við byltinguna hafi verið þegar Ungverjar uppgötvuðu að vesturveldin mundu ekki koma þeim til hjálpar.
Við komum heim frá Kanada árið 1983 og ég var bæði í heimilislækningum en þó mest í embættisstarfi sem héraðslæknir yfir Norðurlandi eystra. Vegna síðarnefnda starfsins var ég í miklu samstarfi við bæði landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið. Í nóvember 1986 bað Ólafur Ólafsson landlæknir mig um að fara fyrir sig á fund um slysavarnir í Búdapest í Ungverjalandi. Ég sagði auðvitað, já takk, enda höfðu slysavarnir verið hluti af starfi mínu sem héraðslæknir. Fyrirvarinn var naumur, aðeins ein vika, og þess vegna var ekki tími til að fá vegabréfsáritun hjá ungverska sendiráðinu í Svíþjóð. Ég ákvað samt að fara því að ég hafði fengið þær upplýsingar að hægt væri að fá þessa áritun á flugvellinum í Búdapest við komu til landsins. Ég ákvað að fara í þessa ferð en þegar ég sagði Páli Sigurðssyni ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu frá þessu hristi hann höfuðið áhyggjufullur. Hann og Guðrún Jónsdóttir, eiginkona hans, höfðu verið á ferð um Tékkóslóvakíu stuttu áður og lent þar í tveggja klukkustunda yfirheyrslu á flugvellinum í sambandi við vegabréf og leist honum ekkert á þessa fyrirætlun mína.
Ég fór af stað fullur eftirvæntingar, millilenti í Kaupmannahöfn og fór beint með SAS-vél til Búdapest. Það var orðið dimmt þegar við lentum í Búdapest og ég fór nú að verða verulega áhyggjufullur vegna vegabréfsáritunarinnar. Flugstöðin var gömul og niðurnídd og vitin fylltust af þessari Austur-Evrópulykt sem ég fann í Júgóslavíu árið 1972 og í Eistlandi 1992. Vopnaðir hermenn voru úti um allt og titrandi sagðist ég ekki vera með neina vegabréfsáritun og var þá vísað til konu sem hafði með þau mál að gera. Hún leit á vegabréfið og bað mig um mynd af mér. Hjartslátturinn jókst ennþá meira og ég hugsaði hvernig gat mér yfirsést þetta. Ég sagðist ekki hafa mynd en það var nú ekki vandamálið því það var ljósmyndasjálfsali þarna á staðnum og þar með var málið leyst.
Dvölin í Búdapest var mjög eftirminnileg. Þetta var í nóvember og loftmengunin svo mikil að hægt var að horfa í sólina um miðjan dag án þess að depla auga. Það var mjög kyrrt yfir öllu en viss spenna í loftinu. Af og til voru menn að nálgast mig og töluðu oftast þýsku en stundum ensku og buðu upp á að skipta gjaldeyri á hagstæðara gengi en var í bönkunum. Ég þorði aldrei að gera þetta því þarna gat vissulega verið leynilögreglan sem vildi klekkja á manni.
Árið 1991 var ég að vinna í tæpa fjóra mánuði við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina í Kaupmannahöfn. Verkefni mitt var tengt slysavörnum og var ég sendur til fjögurra landa á vegum stofnunarinnar, meðal annars til Búdapest. En þá var allt öðruvísi að koma til Ungverjalands. Flugstöðin var ný og glæsileg og í leigubílnum á leið á hótelið hljómaði einungis útvarpsstöðin Voice of America. Ég heimsótti ýmsar stofnanir og spítala þarna. Á spítölunum var allt mjög gamaldags og búnaður fátæklegur. En nú voru Ungverjar opnir og töluðu frjálslega um hvað hitt og þetta væri ómögulegt en ég vissi hins vegar að menning þeirra, þar á meðal það sem tengdist læknisfræðinni, stóð traustum fótum á gömlum merg og var bjartsýnn á að þarna yrðu framfarir þegar efnahagur rýmkaðist. Leiðsögumaður minn vildi gera lítið úr mannfallinu í uppreisninni árið 1956, ég veit eiginlega ekki af hverju. Hún sagði einnig að kommúnisminn hefði alls ekki verið alslæmur fyrir Ungverja. Eftir að kommúnistar tóku við stjórn upp úr seinna stríðinu sagði hún að öll börn hefðu fengið menntun óháð ríkidæmi en fyrir þann tíma hefði menntun einungis verið fyrir ríka fólkið.
Heimsóknir mínar til Ungverjalands voru báðar fræðandi og skemmtilegar. Mér fannst ég vera að stíga inn í gamla evrópska menningu þar sem ríkti kyrrð og fólk var háttvíst í framkomu. Þegar ég fór í heimsóknir í ráðuneyti eða á spítala hneigðu fylgdarmenn mínir sig iðulega fyrir konunum og kysstu á handarbak þeirra. Oft var ég leystur út með smá gjöfum sem voru táknrænar fyrir Ungverjaland.
Það veldur mér vonbrigðum að Ungverjar skuli nú loka landamærum sínum fyrir flóttafólki og neita að verða við ósk Evrópusambandsins um að þeir axli ábyrgð ásamt öðrum Evrópuþjóðum. Minnugur þess að við Íslendingar hjálpuðum þeim á sínum tíma finnst mér sárt að lesa um þessi viðbrögð Ungverja.
Nokkur fjöldi íslenskra námsmanna lærir nú læknisfræði í Ungverjalandi og hafa sjúkrahúsið og heilsugæslan á Akureyri notið góðs af því, þar sem læknakandídatar koma hingað og leggja fram krafta sína og góða þekkingu. Auk þess hafa ungverskir sérfræðilæknar komið til að vinna á sjúkrahúsinu. Ég fór að hugsa um þetta erindi þegar ég las grein í Morgunblaðinu þar sem rakin var saga ungversku flóttamannanna, sem komu til Íslands árið 1956.4 Í greininni er rætt við tvær hjúkrunarkonur sem voru í hópnum í Hlégarði og settust hér að. Þær heita Elísabet Csillag og Eva Jóhannsdóttir. Ég sló á þráðinn til Elísabetar og mundi hún vel eftir þessari dvöl og hlýjum móttökum í Mosfellssveitinni og reyndar ávallt á Íslandi. Það sem kom þeim mest á óvart var þessi mikli snjór. Þær eru ánægðar með þá ákvörðun sem þær tóku á sínum tíma.
Þakkarorð
Sérstakar þakkir fá eftirfarandi aðilar fyrir veitta aðstoð: Kristín Sigfúsdóttir, Oddur Ólafsson, András Lovas, ungverskur læknir, Guðríður Steinunn, Vífill og Þengill, systkini mín, og Hlín Árnadóttir, mágkona mín.
Heimildir
1. Þengilsdóttir E. Ykkar einlæg. Kvennabrekka forlag. Reykjavík 2012. | |
2. Csillag M. Unverska uppreisnin 1956. Barn ungversku uppreisnarinnar. Morgunblaðið 30.10.2016; 104: 22-3. | |
3. en.wikipedia.org/wiki/Hungarian_Revolution_of_1956#Prelude – nóvember 2016. | |
4. Alexandersdóttir JM. Unverska uppreisnin 1956. Eva, við förum til Íslands". Morgunblaðið 30.10.2016; 104: 24-5. | |