05. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Kennsluverðlaun Félags læknanema 2012
Sindri Aron Viktorsson, formaður félags læknanema, veitir Magnúsi Karli Magnússyni, prófessor í
lyfja- og eiturefnafræði, kennsluverðlaun FL 2012. Ljósmynd: Jón Guðmundsson.
Kennsluverðlaun Félags læknanema hafa verið veitt síðan 1995. Þau eru viðurkenning til kennara eða námskeiða sem þykja skara fram úr í menntun læknanema við Háskóla Íslands hverju sinni og eiga að vera öðrum kennurum hvatning. Undanfarin ár hafa farið fram kosningar hjá hverjum árgangi þar sem nemendur tilnefna kennara eða kúrs sem þeim finnst eiga verðlaunin skilið. Stjórn félagsins fer yfir tilnefningarnar og velur verðlaunahafann það árið. Valið stýrist af kennsluhæfni, þróun nýjunga í kennsluháttum og vel heppnaðri endurskipulagningu námskeiða.
Í ár hlaut Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði, kennsluverðlaunin fyrir að hafa endurskipulagt námskeið í lyfjafræði á þriðja ári með góðum árangri og fyrir einstaka kennslugleði og jákvætt viðmót gagnvart læknanemum. Veitti hann verðlaununum viðtöku á árshátíð Félags læknanema á Hótel Sögu þann 17. mars síðastliðinn. Þessi hefð er orðin órjúfanlegur hluti í starfi félagsins á hverju ári og er það mat læknanema að verðlaunin hafi átt þátt í að kennsla í læknadeild hefur styrkst og gæði hennar aukist á undanförnum árum. Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, veitti í fyrsta sinn verðlaun að fyrirmynd kennsluverðlauna Félags læknanema í ár. Læknanemar fagna því að fleiri félög nemenda við Háskóla Íslands taki upp slík verðlaun. Að okkar mati skiptir ekki síður máli að verðlauna þá sem skara fram úr, en að benda á það sem betur má fara þegar unnið er að þróun menntunar á háskólastigi.
Verðlaunahafar síðustu 10 ár
2002: Engilbert Sigurðsson – geðlæknisfræði
2003: Þóra Steingrímsdóttir – kvensjúkdómafræði & Haukur Hjaltason – taugalæknisfræði
2004: Jóhannes Björnsson og samkennarar – meinafræði
2005: Ásgeir Haraldsson – barnalæknisfræði
2006: Halldór Jónsson Jr – bæklunarlækningar
2007: Finnbogi Jakobsson – taugalæknisfræði
2008: Eiríkur Steingrímsson og samkennarar – lífefnafræði
2009: Gísli H. Sigurðsson og samkennarar – svæfingalæknisfræði
2010: Karl Andersen – lyflæknisfræði
2011: Tómas Guðbjartsson – skurðlæknisfræði