Mynd mánaðarins

Menning og meinsemdir

 

Menning og meinsemdir

Um miðja síðustu öld var ákveðið að reisa í Skálholti nýja kirkju á sama grunni og eldri kirkjur staðarins höfðu áður staðið á. Ákvörðunin krafðist viðamikillar fornleifarannsóknar sem stóð í fjögur sumur. Hróflað var við gröfum. Því var kallaður til Jón Steffensen prófessor, helsti sérfræðingur landsins í fornum mannabeinum. Jón dvaldi langdvölum í Skálholti við mælingu grafa og upptöku beina og er myndin tekin af Jóni við þá iðju sumarið 1955. Jón er klæddur hlífðargalla og hönskum frá Vinnufatagerð Íslands (VÍR). Hann situr á trékassa fyrir framan opna líkkistuna. Honum á vinstri hönd er önnur lokuð. Í moldinni á milli fóta liggur múrskeiðin.

Í líkskurðarstofu læknadeildar í kjallara Háskólans var moldin dustuð af beinunum og þau mæld. Eftir mánuð voru beinin mæld á nýjan leik og enn og aftur þremur til fimm mánuðum síðar. Á grundvelli mælinganna, fyrri rannsókna Jóns og ýmissa sögulegra heimilda var mögulegt að fræðast um aldur, kyn, stærð, útlit og sjúkdóma Skálhyltinga. Af „tyggingarfærum“ var sýnilegt að Skálhyltingar hefðu ekki, frekar en aðrir landsmenn, notað tannstöngla. Með samanburði við háralitastiga Fischer-Sallers greindi Jón 16 hárliti af 30 mögulegum sem allir eru algengir meðal núlifandi Íslendinga. Skálhyltingar voru rauðhærðir, bjarthærðir, ljósskolhærðir, skolhærðir, dökkskolhærðir og dökkhærðir en enginn var svart­hærður.

Framlag Jóns til sögu þjóðarinnar er mikilsvert. Viðfangsefnin voru fjölbreytt og með læknisfræðilegri þekkingu var lagður traustur grunnur að sjúkdómasögu þjóðarinnar. Úrval fræðigreina Jóns kom út árið 1975 undir heitinu Menning og meinsemdir. Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Helgi Skúli Kjartansson sagði í ritdómi Jón vera „meðal ágætustu brautryðjenda sagnfræðirannsókna á Íslandi eftir stríð, framlag hans mikið að vöxtum og á köflum glæsilegt.” Hins vegar eru margar rannsóknir Jóns „glíma við ófullnægjandi heimildir, jafnvægisæfing á landamærum hins uppgötvanlega, svo að niðurstöður verða spennandi fremur en óyggjandi.“

Myndina tók Magnús Már Lárusson guðfræðipróf­essor og síðar rektor Háskóla Íslands.
Myndin er varðveitt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

 

 


05. tbl. 104. árg. 2018

Ritstjórnargreinar

Þegar þokunni léttir

Karl Andersen

Með frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er þeim sem kjósa að nota rafsígarettur frjálst að gera það. Hins vegar felur það ekki í sér leyfi til að útsetja aðra fyrir veipgufu sem hefur ófyrirséð heilsufarsleg áhrif á þá sem fyrir því verða. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að anda að sér hreinu og ómenguðu lofti. Sá réttur vegur þyngra en réttur manna til óheftrar notkunar rafsígarettna.

 

Alzheimer-sjúkdómur faraldur 21. aldarinnar

Steinunn Þórðardóttir

Það gætir mikils úrræðaleysis í málaflokknum sem veldur sjúklingum með heilabilunarsjúkdóma og aðstandendum þeirra ómældum þjáningum. Nú eru 200 einstaklingar að bíða eftir sérhæfðri dagþjálfun á höfuðborgarsvæðinu og munu þurfa að bíða í allt að tvö ár

Fræðigreinar

Skimun fyrir berklum meðal gigtarsjúklinga sem hófu meðferð með TNFα-hemlum á Íslandi 1999-2014


Þórir Björgúlfsson, Gerður Gröndal, Þorsteinn Blöndal, Björn Guðbjörnsson

Nýgengi berklaveiki og árangur af berklasmitsskimun í hópi gigtarsjúklinga á TNFα-hemlum hér á landi er óþekkt. Sérstaða landsins vegna lágs nýgengis berklaveiki hér á landi og vísbendingar um að skimun fyrir berklasmiti gæti verið skilvirkari en í nágrannalöndunum vegna minni hættu á falskt jákvæðum prófum hafa vakið upp spurningar um hvort yfirleitt sé þörf á að skima fyrir berklum áður en meðferð er hafin.

Brátt kransæðaheilkenni hjá sjúklingum með eðlilegar eða nær eðlilegar kransæðar


Sævar Þór Vignisson, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, Þórarinn Guðnason, Ragnar Danielsen, Maríanna Garðarsdóttir, Karl Andersen

Dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóma hefur lækkað umtalsvert síðustu áratugi og það sem er sérstakt við það er að hlutfallslega hefur lækkunin orðið minni hjá yngra fólki en því eldra, sérstaklega ungum konum. Breytingar á áhættuþáttum, lifnaðarháttum og aukin notkun verndandi hjartalyfja á þessari öld eru talin hafa áhrif á þessar breytingar.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica