Mynd mánaðarins

„Þau koma reykjandi úr barnaskólanum“

 

„Þau koma reykjandi úr barnaskólanum“

Læknar hafa lengi látið að sér kveða í opinberri umræðu um heilbrigðismál þjóðarinnar. Í krafti menntunar sinnar og reynslu og niðurstaðna klínískra rannsókna benda þeir á það sem betur má fara. Fyrir hundrað árum voru læknar að hlutast til um aðgengi að hreinu vatni og heilnæmum húsakynnum, að koma í veg fyrir vannæringu og áfengisneyslu og vinna að uppbyggingu heilsustofnana og sjúkrasamlaga. Stefið er kunnuglegt þótt ný vandamál kalli stöðugt á nýjar lausnir.

Þótt umræðan um rafrettur í dag minni töluvert á þá umræðu sem fram fór á síðustu öld um reykingar þá er varnarlínan önnur þegar verið er að innleiða nýjungar en að breyta inngrónum venjum. Reykingar voru töluvert almennar og hugtakið óbeinar reykingar óþekkt með öllu. Foreldrar reyktu áhyggjulausir á heimilunum og læknar við vinnu sína.

Merking sígarettupakka með varúðarmiðum hófst árið 1969 og ári síðar var talið fullsannað að reykingar orsökuðu lungnakrabbamein. Yfirlýsingin varð blaðamanni Vísis tilefni til að ræða vaxandi reykingar meðal barna og unglinga undir fyrirsögninni: „Þau koma reykjandi úr barnaskólanum“ segja skólamenn um nemendur sína. Greininni var ætlað að vekja fólk til vitundar um skaðsemi reykinga og kallað eftir viðhorfsbreytingu. Bent var á að

áróður lækna eða hvatning skólamanna nægði ekki til og stöðugt yngri börn ánetjuðust reykingum. Myndin sem fylgdi greininni var valin af kostgæfni og ætlað að undirstrika alvöru málsins. Tveir drengir, fjögurra og fimm ára, hafa komist yfir sígarettur. Þeir bera sig fagmannlega að og hafa haft vit á að fela sig fyrir augum fullorðna fólksins, í öruggu skjóli bak við stóran stein en of uppteknir til þess að koma auga á Jón Birgi Pétursson ljósmyndara.

Myndin er tekin í Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi um 1969 og er birt með leyfi Ljósmyndasafns
Reykjavíkur. 

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir

 

 


06. tbl. 104. árg. 2018

Ritstjórnargreinar

Skimun á meðgöngu og fósturgreining

Þóra Steingrímsdóttir

Óralöng leið er frá bábiljum um að lögun legs og kviðar á meðgöngu segi til um kyn barnsins til þess að nú er hægt að greina erfðamengi fóstursins í einu litlu blóðsýni úr móðurinni.

Að vita eða ekki að vita, þarna er efinn . . .

Óskar Þór Jóhannsson

Leggjum áherslu á rannsóknir til að geta fundið mein snemma og leiðir til að draga úr myndun þeirra. Mikilli þekkingu fylgir mikil ábyrgð. Kominn er tími til að horfast í augu við þá ábyrgð.

Fræðigreinar

Evrópufaraldur lifrarbólgu A á Íslandi árið 2017. Algengar breytingar í gallblöðru á myndgreiningu


Sif Ormarsdóttir, Páll Helgi Möller, Alma Rut Óskarsdóttir, Pétur Hannesson, Arthur Löve, Haraldur Briem

Kannað var hvort önnur tilfelli með jákvæð mótefni hefðu greinst á rannsóknarstofu spítalans í veirufræði. Ekki hafði verið tilkynnt um önnur tilfelli utan Landspítala á árinu.

Viðhorf íslenskra kvenna til erfðaráðgjafar og erfðaprófa á BRCA1 og BRCA2 stökkbreytingum


Þórdís Jónsdóttir, Heiðdís Valdimarsdóttir, Laufey Tryggvadóttir, Sigrún Lund, Maríanna Þórðardóttir, Magnús Karl Magnússon, Unnur Valdimarsdóttir

1129 konur (69% svarhlutfall) svöruðu spurningalistanum. Meðalaldur var 47 ár (spönn: 21-76 ára) og tæplega helmingur (47%) þekkti til BRCA-stökkbreytinga.Þetta vefsvæði byggir á Eplica