04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Í vísindaskuggsjá Læknablaðsins – klínískar rannsóknir á 20. öld. Þórður Harðarson

Í fyrri grein minni var gerð tilraun til að rýna klínískar rannsóknir á síðum Læknablaðsins árin 1913 til 1973. Nú verður fjallað um síðari hluta 20. aldar, árin 1974 til 2000. Rétt er að rifja upp að val mitt á greinum til umfjöllunar er huglægt og því umdeilanlegt, en gert er ráð fyrir hefðbundinni formfestu í lýsingu á tilgangi rannsóknar, rannsóknaraðferðum, niðurstöðum og umræðu, auk samantektar og faglegrar umfjöllunar heimilda. Segja má að á þessu tímabili uppfylli flestar klínískar rannsóknir í Læknablaðinu þessi viðmið.

Árin 1974 til 1993

Mikil umskipti urðu á Læknablaðinu á þessum árum. Minnumst þess að á árunum 1954 til 1973 voru kynntar 69 klínískar rannsóknir í blaðinu og þeim hafði fjölgað um rúman helming frá fyrra 20 ára tímabili. Á tímabilinu 1974 til 1993 hafði þeim hins vegar fjölgað meira en sjöfalt frá fyrri 20 árum og töldust samtals 454, eða nærri 23 á ári.

Mestum blóma náði rannsóknavirknin síðustu 5 ár tímabilsins, en þá voru kynntar til sögunnar 168 greinar, um 33 greinar á ári hverju.


Línurit um þróun berklaveiki sem birt var á forsíðu 1. tölublaðs Læknablaðsins 1976.

En breytingarnar snerust ekki einungis um magn. Mikilsverðar efnislegar breytingar urðu á umfjöllun blaðsins og greinarhöfunda á árunum 1974 til 1993.

1. Markverðar rannsóknarniðurstöður tóku að birtast frá hinum mikilvægu stofnunum Hjartavernd og Krabbameinsfélagi Íslands. Þær náðu sumar máli á alþjóðlegan mælikvarða. Sama er einnig að segja um sum framlög Vinnueftirlitsins, göngudeildar Landspítalans fyrir háþrýsting og blóðfituröskun og fleiri aðila.

2. Formfesta fór mjög vaxandi í greinaskrifum og tölfræði.

3. Mikilvægar faraldsfræðilegar rannsóknir litu dagsins ljós.

4. Fyrstu greinar Læknablaðsins, þar sem lýst er framskyggnum, klínískum tilraunum, til dæmis á áhrifum lyfja, sáu dagsins ljós. Einnig birtust (örfáar) greinar sem fjölluðu um grunnrannsóknir, til dæmis í ónæmisfræði.

5. Umsækjendum um sérfræðileyfi var á þessum tíma skylt að birta fræðigrein á sviði sérgreinar sinnar. Þess sáust merki á síðum Læknablaðsins. (Páll Ásmundsson ritstjóri kvartar um þá klípu sem þessi regla lagði honum á herðar !).

Vitað er að fyrst var efnt til þátttöku Íslendinga í klínískum íhlutunarrannsóknum á þessu tímabili, en þeirra sést ekki staður á síðum Læknablaðsins eðli málsins samkvæmt. Vettvangur slíkrar rannsóknarþátttöku var oftast göngudeild Landspítala fyrir háþrýsting og blóðfituraskanir.


Níels Dungal (1897-1965) stofnandi Krabbameinsfélags Íslands.

Fjölmargar greinar vekja sérstaka athygli. Til dæmis má nefna ítarlegt -yfirlit Sigurðar Sigurðssonar landlæknis um berklaveiki á Íslandi árið 1976. Hann hafði lengi verið í fararbroddi í barátt-unni við sjúkdóminn.1 Í ljós kom að Ísland hafði þá lægsta dánartíðni samanburðarlanda. Fleiri smitsjúkdómar fengu mikilvæga umfjöllun í Læknablaðinu á þessu tímabili. Má einkum nefna margar greinar Ólafs Steingrímssonar, Karls Kristinssonar og félaga um chlamydia og camphylobactersýkingar,2 en slíkar sýkingar voru mjög í þjóðfélagsumræðu um þær mundir. Ólafur Jensson var frumkvöðull um erfðarannsóknir og frumugreiningu. Verka hans sá stað í blaðinu, einkum framan af tímabilinu. Starfsmenn Vinnueftirlitsins, einkum Vilhjálmur Rafnsson, gerðu mikilvægar úttektir á atvinnusjúkdómum og dánarmeinum starfsstétta. Til dæmis kom í ljós aukin tíðni lungnakrabbameins meðal múrara.3 Meðal mikilvægra viðfangsefna Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar má einkum nefna grein Guðmundar Þorgeirssonar og félaga um áhættuþætti kransæðasjúkdóms. Hún varð grundvöllur áhættureiknilíkans Hjartaverndar.4


Sigurður Sigurðsson (1903-1986), landlæknir 1960-1972.

Guðmundur Björnsson efndi til markvissra rannsókna á faraldsfræði augnsjúkdóma, einkum gláku. Hann rannsakaði einnig sjónskerðingu barna.5 Þetta framlag leiddi meðal annars til skimunar á augnþrýstingi á vegum Hjartaverndar og bættrar reglubundinnar augnskoðunar barna. Þorkell Guðbrandsson fjallaði um svæsinn háþrýsting í grein sem síðar varð kjarni doktorsritgerðar hans.6 Sigurður Björnsson og félagar gerðu úttekt á tíðni sjúkdóms Crohns og sáraristilssjúkdóms á Íslandi. Fyrri sjúkdómurinn var þá fátíður hérlendis,7 en hinn síðari sýndi vaxandi tíðni.

Guðrún Jónsdóttir sýndi fram á að sjálfsvígstíðni var minni á Íslandi en hinum Norðurlöndunum8 og Hólmfríður Magnúsdóttir komst að þeirri niðurstöðu að tíðni geðveiki og greindarskorts væri aukin í tvímenningsfjölskyldum.9 Guðjón Jóhannesson lýsti afar sjaldgæfu fyrirbrigði hjá þremur bræðrum, arfgengum skorti á sársaukaskyni.10

Á þessu tímabili var fyrst fitjað upp á ýmsum nýjum viðfangsefnum í blaðinu, sem síðar reyndust mikilvæg í íslenskum heilbrigðismálum, heymæði,11 svefntruflunum12 og húsasótt (myglu).13

Jóhannes Björnsson og félagar sýndu fram á að dánarorsakir voru ónákvæmt eða ranglega greindar á dánarvottorðum í um það bil helmingi tilvika.14

Árin 1995 til 2000

Á þessu tímabili fjölgaði klínískum fræðigreinum Læknablaðsins enn. Einnig jókst meðalfjöldi höfunda, svo og samstarf stofnana eða deilda, innlendra sem erlendra. Þetta endurspeglaði án efa víkkandi sjóndeildarhring íslenskra heilbrigðisvísindamanna. Talsvert var um að heilsugæslulæknar greindu frá starfsháttum á stöðvum sínum.

Tímamót urðu við sameiningu spítal-anna þriggja í Reykjavík árið 2000. Því er ekki úr vegi að taka árin 1994 til 2000 sem sýnishorn af rannsóknarvirkni stofnana fyrir sameininguna, eins og hún birtist á síðum Læknablaðsins. Enn er vert að minna á að ýmsir heilbrigðisvísindamenn birtu fræðigreinar sínar að mestu eða öllu leyti á erlendum vettvangi.


Ólafur Jensson (1924-1996) frumkvöðull í íslenskum erfðarannsóknum.

Á þessu 7 ára tímabili birtust 192 fræðigreinar í blaðinu, 27 á ári að meðaltali. Eitt hundrað og fimmtán áttu höfundartengsl við Landspítalann, þar af 55 lyflækningadeild, 20 skurðdeild, 20 ýmsum rannsóknardeildum, 19 barnadeild og 16 sýklafræðideild. Fimmtíu og sjö tengdust Borgarspítala (Sjúkrahús Reykjavíkur til ársins 2000), þar af 32 lyflækningadeild, 9 svæfingadeild og 9 skurðdeild. Læknar Landakotsspítala áttu aðild að 8 greinum á árunum 1994 til 1996. Tíu til tuttugu greinar áttu tengsl við Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, Hjartavernd, Krabbameinsfélag Íslands og Vinnueftirlitið. Í 17 tilvikum áttu þessar stofnanir ekki aðild.

Freistandi væri að setja fram langan lista áhugaverðra greina þessara ára. Nokkur dæmi aðeins: Skurðlæknar Landspítala lýstu því að tíðni nýrnakrabbameins væri hvergi hærri en hérlendis. Bjarni Þjóðleifsson og samstarfsmenn hans gerðu fjölmargar rannsóknir á ætisjúkdómi í meltingarfærum, þætti helicobacter í tilurð hans, auk lyfjameðferðar.15 Þeir sýndu einnig fram á lága og lækkandi tíðni skorpulifrar, þrátt fyrir vaxandi áfengisneyslu. Þröstur Laxdal lýsti erfðagalla þar sem allir 12 sjúklingarnir voru rauðhærðir. Glúteinóþol reyndist hér fátíðast í Evrópu. Ólafur Steingrímsson og félagar héldu áfram markvissum rannsóknum á Chlamydia-sýkingum og greiningum þeirra með pólýmerasakeðjuverkun. Þorsteinn Blöndal og félagar vöktu athygli á mikilli berklatíðni innflytjenda. Sýnt var fram á sterkt samband menntunar og dánartíðni.16 Ýmsar erfðafræðirannsóknir voru kynntar til dæmis á blöðruhálskirtilkrabbameini og blöðrusjúkdómi í nýrum. Gunnar Sigurðsson og félagar lögðu til mikilvægar greinar um beinþéttni og D-vítamínbúskap.

Sigurður Samúelsson (1911-2009) fyrsti formaður Hjartaverndar, frumkvöðull vísindalegra lýðheilsurannsókna.

Meðal nýjunga þessara 7 ára má nefna umfjöllun um þátttöku lækna Borgarspítalans í sjúkraflutningum með þyrlu. Fyrstu gallblöðrutökur um kviðsjá voru kynntar. Bættur árangur reyndist vera af tilraunum til endurlífgunar eftir að sjúkrabíll með lækni var gerður út frá Borgarspítala. Úttekt var gerð á tíðni lifrarbólgu C veirusýkingar, sem fór mjög vaxandi og fyrsta umfjöllun blaðsins um HIV-sýkingar var grein Haralds Briem og félaga 1996.16 Gerð var grein fyrir fyrstu tafarlausu kransæðavíkkunum hérlendis. Framskyggnar slembivaldar rannsóknir á virkni lyfja voru kynntar.

Enginn vafi er á mikilvægi Læknablaðsins sem aðalvettvangs heilbrigðisfræða á Íslandi. Með birtingu í Læknablaðinu hafa nemendur á ýmsum þjálfunarstigum kynnst og tileinkað sér öguð vinnubrögð fræðanna. Blaðið hefur mótað íslenskt tungutak heilbrigðisfræða. Greinar blaðsins hafa mjög oft haft þá alþjóðlegu sérstöðu að viðfang rannsókna hefur verið sjúklingahópur heillar þjóðar eða jafnvel þjóðin öll. Mestu skiptir þó að greinarhöfundar hafa kynnt til sögunnar ýmis stórmæli sem mótað hafa vinnubrögð heilbrigðisstarfsmanna og leiðbeint höfundum íslenskrar heilbrigðisstefnu.

Heimildir

1. Sigurðsson S. Um berklaveiki á Íslandi. Læknablaðið 1976; 62: 3-50.

2. Þorsteinsson SB, Björnsson BL, Greipsson S, et al. Camphylobacter jejuni faraldur á Stöðvarfirði. Læknablaðið 1985; 71: 182-6.

3. Rafnsson V, Jóhannesdóttir SG. Rannsókn á dánartíðni meðal múrara á Íslandi á tímabilinu 1951-1982. Læknablaðið 1985; 71: 98-103.

4. Þorgeirsson G, Davíðsson D, Sigvaldason H, et al. Áhættuþættir kransæðasjúkdóms meðal karla og kvenna á Íslandi. Læknablaðið 1992; 78: 267-71.

5. Björnsson G. Sjónskert börn. Læknablaðið 1979; 65: 165-71.

1. Guðbrandsson Þ, Snorrason SP. Svæsinn háþrýstingur. Læknablaðið 1974; 60: 181-96.

2. Björnsson S, Þorgeirsson Þ, Guðnason Þ. Morbus Crohn á Íslandi 1950-1979. Læknablaðið 1981; 67: 238-44.

3. Jónsdóttir G. Sjálfsmorð á Íslandi 1962 - 1973. Læknablaðið 1977; 63: 47-63.

4. Magnúsdóttir H. Athugun á geðsjúkdómum tvímenningsfjölskyldna. Læknablaðið 1982; 68: 105-12.

5. Jóhannesson G, Guðmundsson G. Analgesia congenita. Læknablaðið 1978; 64: 15-9.

6. Elíasson Ö. Heymæði á Íslandi. Læknablaðið 1982; 68; 163-9.

7. Kristbjarnarson H, Magnússon H, Sverrisson GI, et al. Könnun á svefnvenjum Íslandinga. Læknablaðið 1985; 71: 193-8.

8. Rafnsson V, Gunnarsdóttir H, Jóhannesdóttir SG. Húsasótt. Læknablaðið 1991; 77: 91-6.

9. Björnsson B, Jónasson JG, Nielsen GP. Áreiðanleiki dánarvottorða. Læknablaðið 1992; 78: 181-5.

10. Oddsson E, Guðjónsson H, Björnsson et al. Uppræting á Helicobacter pylori sýkinga hjá sjúklingum með meltingarónot. Langtímaáhrif á einkenni. Læknablaðið 1994; 80: 127-31.

11. Garðarsdóttir M, Harðarson Þ, Þorgeirsson, et al. Samband menntunar og dánartíðni með sérstöku tilliti til kransæðasjúkdóma. Hóprannsókn Hjartaverndar. Læknablaðið 1998; 84: 913-20.

12. Briem H, Þorsteinsson SB, Guðmundsson S, et al. Faraldsfræði alnæmis á Íslandi fyrstu 10 árin. Læknablaðið 1996; 82: 39-45.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica