0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Lögfræði 49. pistill. Ómannaðar vaktir lækna

Á vef RÚV 10. júní 2023 birtist fréttin Viðbótarlaun fyrir meiri vinnu. Þar segir að Landspítali ætli að greiða viðbótarlaun fyrir aukið vinnuframlag sumarið 2023. Haft er eftir forstjóra spítalans að verið sé að bregðast við fyrirsjáanlegum aðstæðum og að um 9000 vaktir séu ómannaðar í sumar.1

Ekki kom fram hvaða vaktir heilbrigðisstarfsmanna eru ómannaðar. Á fundi sem formaður og framkvæmdastjóri LÍ áttu með stjórnendum Landspítala 6. júní 2023 um þessi mál kom fram að um er að ræða vaktir annarra heilbrigðisstarfsmanna en lækna, aðallega sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Þegar fulltrúar LÍ spurðu um fjölda ómannaðra vakta lækna í sumar varð fátt um svör. Engar upplýsingar liggja fyrir um það.

Ástæðan fyrir því er einföld. Það er ekkert til sem heitir ómannaðar vaktir lækna. Læknar eru dagvinnumenn. Vinnuskylda þeirra fyrir fulla dagvinnu er 40 klukkustundir á viku. Læknar hafa ekki fengið styttingu vinnuvikunnar eins og flestar heilbrigðisstéttir. Til viðbótar hvílir á læknum yfirvinnu- og vaktaskylda sbr. grein 4.1.3 í kjarasamningi þeirra:

Læknum skal skylt að vinna yfirvinnu og taka vaktir þar sem þess er þörf. Læknir er þó undanþeginn skyldu til að sinna vöktum frá 55 ára aldri.

Þar segir einnig í 2. mgr. greinar 4.4.1:

Læknum, öðrum en þeim sem nýta sér undanþágu skv. gr. 4.1.3, 2. mgr., skal skylt að skipta með sér vöktum á viðkomandi starfseiningu og skal vaktskrá lögð fram með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

Hér er kjarni málsins og skýringin á því af hverju ekkert er til sem heitir ómannaðar vaktir lækna. Læknar sinna dagvinnu frá kl. 8-16. Tíminn frá kl. 16 til 08 næsta morgun og helgarnar er vaktatími, sem læknum er skylt að sinna á staðarvöktum eða gæsluvöktum. Þessum vöktum er deilt á þá lækna sem eru að störfum samkvæmt vaktskrá.

Á sumrin eru þeim sem gera vaktskrár fyrir lækna gefin fyrirmæli um að deila öllum vöktum lækna á lækna í starfi. Færri læknar starfa á sumrin vegna sumarorlofs. Á lækna í starfi deilast því yfir sumartímann fleiri vaktir en venjulega. Læknir sem er að jafnaði á fjór- eða fimmskiptum vöktum er settur á tví- eða þrískiptar vaktir. Vinnuálag lækna eykst því verulega yfir sumar-tímann.

Hjá heilbrigðisstéttum sem eru vaktavinnumenn er þetta ekki hægt. Þar stjórnar heildarvinnutíminn, sem er orðinn 36 klukkustundir á viku, því hversu mörgum vöktum hægt er að raða þennan hóp á. Þannig verður til hugtakið ómannaðar vaktir heilbrigðisstarfsmanna.

Hjá læknum þykir sjálfsagt að auka vinnuálagið í þessum kringumstæðum. LÍ kannaði lauslega hversu mikið vinnuálag lækna eykst yfir sumartímann. Algengt er að mánaðarlegur vinnutími hjá þeim sem taka staðarvaktir fari úr liðlega 170 klukkustundum í liðlega 220 klukkustundir, eða um 50 klukkustundir á mánuði. Sambærilegt kom í ljós hjá læknum sem taka fyrst og fremst gæsluvaktir. Þar er þó skondin staðreynd að binding læknis á gæsluvakt telst ekki virkur vinnutími.

Úti á landi eru læknar alla virka daga mánaðarins í dagvinnu og á gæsluvöktum frá lokum starfsdags kl. 16 til kl. 8 næsta morgun og allar helgar til viðbótar. Þeir eru bundnir með vaktsímann allan sólarhringinn, alla daga og þurfa að vera tilbúnir að bregðast tafarlaust við útkalli. Læknir sem starfar með þessum hætti úti á landi telst ekki í virkri vinnu nema 173,36 klukkutíma á mánuði og þær klukkustundir sem útkall er á gæsluvöktunum.

Þetta er ein aðalástæða þess að illa gengur að manna stöður lækna á landsbyggðinni því svona vinnuálag þolir enginn til lengdar.

Ríkið neitaði að ræða styttingu vinnuvikunnar við lækna í samningaviðræðunum 2019-2020. Því var einnig neitað í þeirri samningalotu sem lauk með undirritun kjarasamnings 15. júní síðastliðinn. Sá samningur gildir til 31. mars 2024. Í næstu samningalotu ætla læknar að ná fram þeirri styttingu vinnuvikunnar sem flestir ríkisstarfsmenn njóta nú þegar.

1. ruv.is/frettir/innlent/2023-06-10-vidbotarlaun-fyrir-meiri-vinnu – júní 2023.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica