04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Vala – okkar eigin móðir líknarmeðferða, rætt við Valgerði Sigurðardóttur lækni

Virðing skein úr andlitum þeirra sem sóttu heiðursmálþing um störf Valgerðar Sigurðardóttur fyrrum yfirlæknis líknardeildar Landspítala. Salurinn fullur. Frumkvöðull, sögðu eftirmenn hennar. Einkunnarorð hennar væri seigla

„Mér líður eins og við séum að uppskera. Þú vannst erfiðisvinnuna og við uppskerum af henni núna,“ sagði Arna Dögg Einarsdóttir, yfirlæknir líknarlækninga á Landspítala, þegar hún hélt erindi um forvera sinn í starfi, Valgerði Sigurðardóttur líknar- og krabbameinslækni, í húsakynnum Læknafélags Íslands í byrjun marsmánaðar.

„Vala, þú ert okkar eigin móðir líknarmeðferða,“ sagði hún eftir stutta yfirferð á upphafssögu líknarmeðferðar erlendis og frumkvöðlum fræðanna.

Valgerður Sigurðardóttir með yngstu barnabörnin sín tvö af fjórum í fanginu. Með henni: Arna Dögg Einarsdóttir á hægri hönd, Nanna Friðriksdóttir og Sigríður Gunnarsdóttir. Málþing henni til heiðurs var haldið 1. mars í sal Læknafélagsins og var þétt setið. Mynd/gag

Þéttsetið var í salnum. Andinn léttur og ljóst að þar fór læknir sem hefur haft mikil áhrif á samferðamenn sína. Frumkvöðull sem vann af elju við að festa líknarlækningar í sessi hér á landi – og það stuttu eftir að þær fengu viðurkenningu erlendis. Vísindamaður sem vann þverfaglega og hefur fengið riddarakross lýðveldisins fyrir forystu á vettvangi líknarmeðferðar.

„Eitt orð sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Valgerði. Seigla. Það að þora að dvelja í erfiðum kringumstæðum, geta lent í krísu, mótlæti og koma standandi út,“ sagði Arna.

Sérhæfð í að líkna

Valgerður Sigurðardóttir gekk í MR, útskrifaðist úr læknisfræði 1978, sérhæfði sig í krabbameinslækningum í Svíþjóð og lauk doktorsprófi í líknarmeðferðum. Lengi vann hún hjá Krabbameinsfélaginu og var þar formaður félagsins og yfirlæknir þar til hún var ráðin yfirlæknir á líknardeild Landspítalans frá árinu 1999. Hún var einnig yfir HERU, sérhæfðri líknarheimaþjónustu Landspítala.

„Maður útsetur sig fyrir ýmsu áreiti og erfiðleikum að starfa við líknarmeðferð. Við sinnum fólki í sorg og krísu. Við erum að upplifa þetta dag eftir dag, ár eftir á. Það reynir á. Það reynir líka á því við erum einstaklingar með allskyns sögu og vandamál sjálf. Seiglan er því sá eiginleiki sem hjálpar okkur að halda áfram. Að vera til staðar í sorginni og þora að vera þar,“ lýsti Arna.

„Enginn sjúklingur er of erfiður fyrir okkur. Þú ert búin að kenna mér svo margt og ég vona að við njótum ennþá þinna krafta, eins lengi og þig langar,“ sagði hún við Valgerði.

Arna lýsti því hvernig Valgerður væri örlagavaldur í lífi sínu. Hún hafi ætlað að verða krabbameinslæknir. „Sannleikurinn er sá að hún leysti mig úr vanda,“ lýsti Arna fyrir fullum salnum.

„Ég var búin að ráða mig sem deildarlækni á krabbameinsdeildina og var að velta fyrir mér hvernig ég ætti að komast í framhaldsnám til útlanda.“ Hún hafi verið heima með þriðja barnið í fæðingarorlofi. Valgerður hafi hringt og boðið henni að vinna á líknardeildinni. Þær hafi aldrei hist.

„Fagið er þannig að það er erfitt að slíta sig frá því þegar einu sinni byrjað.“ Framhaldsnám í líknarmeðferð varð valið.

Markviss líknarmeðferð

Nanna Friðriksdóttir, sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með krabbamein á Landspítala, hélt einnig erindi. Hún fór yfir söguna, þróunina, vinnu við klínískar leiðbeiningar og þverfaglega nálgun þjónustunnar en þar var Valgerður lykilmaður.

Nanna lýsti því hvernig þær unnu markvisst að því að koma líknarmeðferðinni fyrr að í ferli sjúklings. Um Valgerði sjálfa sagði hún einnig að þar hefði verið um að ræða frumkvöðul og brautryðjanda líknarteyma hér á landi.

„Líknarráðgjafar líknarteymis og líknarmeðferðar hafa ekki farið eftir beinum og breiðum vegi. En það eru svo ótal margir þættir í þínu fari sem eru til fyrirmyndar og hafa gert það að okkur hefur tekist að feta þennan fjallveg,“ sagði hún við Valgerði. Líknarteymin hafi elst og fimm ára lífshorfurnar séu góðar.

„Stuðningur við teymið hefur verið góður. Starfsmannaveltan í teyminu hefur verið lítil. Þess vegna er þessi heildarlifun teymisins 30 ár með góðum lífsgæðum,“ sagði hún.

„Þú býrð yfir svo mikilli visku og hefur verið sönn ímynd fagmennskunar, visku og þolgæðis. Þú hefur haft óbilandi trú á viðfangsefninu alla tíð, ötul og fórnfús og kannt svo vel að fara með öll þessi fræði,“ sagði Nanna. „Þú átt alltaf svör og hefur bent á það að vita ekki svarið er líka svar.“

Sigríður Gunnarsdóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsókna- og skráningarseturs KÍ, sagði Valgerði alltaf leita leiða til að bæta meðferð, líðan og lífsgæði.

„Hún hefur einlægan áhuga á því sem hún fæst við og óhemju elju. Hún er eldklár, skörp og ósérhlífin. Hún er svo áreiðanleg, alveg sama hve mikið var að gera, mörg verkefni og hve mörg þurfti að leysa, mátti treysta á hana. Svo er hún sanngjörn.“ Sigríður þakkaði henni fyrir samstarfið og bað um að það yrði lengra.

„Til hamingju á þessum tímamótum og takk fyrir allt.“

Margar áskoranir við líknarþjónustu

„Við erum að eldast og krabbameinstilfellum að fjölga. Þörfin er mikil og stærsta áskorunin að tryggja mannauðinn alls staðar. Það á líka við um líknarmeðferð. Það þarf að mennta fólk og fræða,“ sagði Arna Dögg Einarsdóttir, yfirlæknir líknarlækninga á Landspítala, á málþinginu til heiðurs Valgerði Sigurðardóttur forvera hennar í starfi.

„Við sem vinnum að sérhæfðri líknarmeðferð vitum að verkefnin verða fleiri, flóknari og sérhæfðari,“ sagði Arna. Byggja þyrfti upp um allt land, hvort sem litið væri til hjúkrunarrýma eða heima fyrir. „Það er svigrúm til að efla þekkingu almennings.“ Hún benti á að lengja þyrfti stefnumörkunina í málaflokknum: 2025 og hvað svo?

„Ég held við séum sammála um að við erum á allt öðrum stað en þegar ég byrjaði. Það er aukinn áhugi, aukinn skilningur á þörfinni. Það er þetta grasrótarstarf, þessi gífurlega vinna sem þú, Valgerður, og fleiri hafa innt af hendi, sem skiptir þar höfuðmáli og er að skila sér,“ sagði Arna um forvera sinn en hún tók við af Valgerði fyrir tveimur árum.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica