04. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

Hvar eru strákarnir? Sunneva Roinesdóttir, Sigurveig Pétursdóttir, Elísabet Mjöll Guðjónsdóttir

Sunneva Roinesdóttir | 4. árs læknanemi | læknadeild Háskóla Íslands Sigurveig Pétursdóttir | bæklunarskurðlæknir |Landspítala Elísabet Mjöll Guðjónsdóttir |4. árs læknanemi | læknadeild Háskóla Íslands

doi 10.17992/lbl.2024.04.786

Lengi vel var læknastéttin karlastétt. Nú eru tímarnir aðrir þar sem hægt og rólega hefur þróunin verið sú að konur eru fleiri en karlar í læknanáminu. Síðastliðinn áratug hefur hlutfall kvenkyns nýnema verið 56-74%. Frá því að nemendum var fjölgað upp í 60 á ári hefur hlutfallið verið í kringum 70% (tafla I). Áhugavert verður að sjá hvernig þróunin verður við fyrirhugaða fjölgun nýnema í læknisfræði á komandi árum.

Sjónarhorn sérfræðilæknis

Þegar ég (SP) hóf læknanám voru konur mun færri en karlar í læknadeildinni. Þegar við okkur var talað vorum við ávörpuð: Strákar. Það þótti ekkert athugavert við það. Það var aldrei spurt „Hvar eru stelpurnar?” ef fáar voru í hópnum, sem var nær alltaf. Við fengum eingöngu að skipta um föt í karlaklefum, kom ekki til greina að við fengjum pláss í kvennaklefum æruverðugu sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Kennari í bæklunarlækningum sagði meðal annars að bæklunarlækningar væru ekkert fyrir konur. Konur hafa í gegnum tíðina ekki fengið sömu tækifæri og karlar og ýmsar stöður á spítölum hafa ekki verið jafn aðgengilegar þeim. Vonandi fær enginn læknir lengur að heyra að hún hafi ekki fengið stöðuna því karlinn sem á móti sótti þurfti hana því hann á fjölskyldu, en það fékk ég einu sinni að heyra á Svíþjóðarárum mínum.

Sjónarhorn læknanema

Þegar við (SR og EMG) hófum læknanám voru konur meirihluti nemenda í læknisfræði. Hins vegar erum við sjaldan ávörpuð sem „stelpur” og frekar fáum við spurninguna „Hvar eru strákarnir?” eða „Eru bara stelpur í læknisfræði?” Oftar en einu sinni hefur fylgt í kjölfarið: „Heimur versnandi fer”, meint sem grín en féll ekki í kramið hjá nemendum. Þetta má flokka sem öráreiti (microaggression) og kemur fram sem auka álag ofan á það að sjúklingar halda sífellt að kvenkyns læknirinn sé hjúkrunarfræðingurinn þeirra, talað er frekar við karlkyns læknanemann en kvenkyns lækninn og að konur, bæði kvenkyns læknanemar og læknar, eru beðnar um hin ýmsu verk, eins og að sækja kaffi eða aðstoða á klósett, frekar en karlkyns kollegar þeirra. Í dag deila allir læknanemar búningsklefa óháð kyni og námsári. Hið sama á við um unglækna sem deila öll klefa. Þetta fyrirkomulag tíðkast almennt ekki hjá öðrum starfsmönnum Landspítala. Við vonum og trúum að við munum fá jöfn tækifæri og mæta betra viðmóti en eldri kynsystur okkar þegar við sækjumst eftir stöðum í framtíðinni.

Lokaorð

Ljóst er að mikil breyting hefur orðið á læknastéttinni. Hlutfall kvenna hefur aukist en þrátt fyrir það virðist það koma fólki á óvart þegar það gengur inn í kennslustofu fulla af kvenkyns læknanemum. Athyglin virðist sífellt beinast að strákunum, sama hvort þeir eru mættir á staðinn eða ekki. Oft hefur verið skipt um stjórnendur og veggirnir málaðir en það er samt eins og það sitji fastlímt í veggina að best væri nú að þetta yrði áfram karlastétt. Það er ekki nóg að flestir sjái að konur og karlar verða góðir læknar. Við þurfum öll að leggjast á eitt og útrýma kynbundnum mun. Við þurfum að útrýma talshætti sem lítillækkar fólk vegna kyns þess. Gefa jöfn námstækifæri svo að allir fái sama möguleika á að verða góðir læknar, það er að bæði konum og körlum sé „réttur hnífurinn”.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica