04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

„Sannarlega óútskýrður launamunur til staðar“ segja kvenlæknar á Barnaspítalanum

Þrír kvenkyns læknar ráðnir árið 2019 á Barnaspítalann grófu upp að fimm karlkyns barnalæknar sem ráðnir voru á eftir þeim fengu hærri laun en þær. Fordæmalaus leiðrétting, segir formaður Félags sjúkrahúslækna. Spítalinn segir kerfisbundinn kynbundinn launamun ekki til

Helga og Jóhanna grófu upp ástæður þess að þær fengu lægri laun en fimm karlar sem ráðnir voru á eftir þeim á Barnaspítalann og fengu leiðrétt. Mynd/gag

„Gögn sýna svart á hvítu að það er sannarlega óútskýrður launamunur í læknastétt og þar hallar oftar á konur,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna. Þrír barnalæknar, konur, hafa fengið laun sín leiðrétt afturvirkt eftir að fimm barnalæknar, karlar, voru ráðnir inn á betri kjörum.

Theódór Skúli segir félagið hafa skoðað mál kvenlæknanna á Barnaspítalanum. „Það er fordæmalaust að Landspítali hafi skoðað einstaka mál eftir ábendingar og á endanum leiðrétt launamisrétti af þessu tagi afturvirkt að eigin frumkvæði.“

Helga Elídóttir og Jóhanna Guðrún Pálmadóttir rekja málið í viðtali hér í Læknablaðinu og Landspítalinn fer einnig yfir sína hlið. Minnisblað frá 2016 um greiðslur fyrir starfsbundna þætti var ekki notað á Barnaspítalanum við ráðningu kvennanna en það var gert hjá körlunum. Þá höfðu orðið mannaskipti í brúnni.

„Til að gæta samræmis innan sviðsins var samþykkt að leiðrétta laun þeirra,“ segir í svörum spítalans. Helga bendir þar á að jafnlaunavottunin frá 2020 hafi ekki gripið muninn. Theódór gagnrýnir einnig vottunina.

„Jafnlaunavottun Landspítala, eins og hún horfir við mér, var sorgarsaga frá upphafi. Ekki stendur steinn yfir steini,“ segir hann. „Samt voru skýr dæmi um launamismun til staðar.“ Hann furðar sig á að launasamningar við lækna séu í höndum hvers og eins yfirmanns án þess að rauð ljós kvikni hjá yfirstjórninni þegar eitthvað fari aflaga.

„Mann setur hljóðan að ferlið sé svo einfalt að þetta stoppi þar.“ Hann hvetur lækna til að vera virka og afla launaupplýsinga. „Hver og einn þarf að passa upp á sitt.“ Félag sjúkrahúslækna hafi hvatt til meira gagnsæis í launasetningu til að auðvelda læknum að bera saman laun sín á milli.

Landspítali réðst í ítarlega skoðun á launasetningu sérfræðilækna þvert á svið spítalans eftir ábendingarnar í fyrra. Spítalinn segir í svörum til blaðsins að ekki séu vísbendingar um kerfisbundinn kynbundinn launamun á Landspítala. Hann mælist innan marka, eða 1,4% í ár körlum í vil.

Theódór segir félagið enn skoða launamál nokkurra félagsmanna. Árleg launasamtöl lækna ættu að vera grunnur að slíkum leiðréttingum. „En þau fara alltof sjaldan fram.“

Landspítalinn hefur fundað með forsvarsmönnum Læknafélagsins og Theódóri og farið yfir stöðuna „Gögn hafa ekki sannað kerfisbundinn launamun milli kynja, einungis afmörkuð dæmi þar sem þó virðist oftar halla á konur, sérstaklega með tilliti til viðbótarþátta og óunninnar yfirvinnu hjá þeim heilbrigðisstofnunum sem Félag sjúkrahúslækna hefur gögn um,“ segir Theódór.

Hann bætir við að nú blási sanngjarnari vindar innan Landspítala. Nýr framkvæmdastjóri rekstrar- og mannauðsmála spítalans og skrifstofa launamála hafi tekið á ákveðnum fortíðarvanda og reynt að leiðrétta stöðuna. Deilt hafi verið um hversu langt ætti að ganga.

Jóhanna og Helga hvetja lækna, karla og konur, sem eru á heimleið til þess að ráðfæra sig við Læknafélagið og undirbúa sig. Ekki setja traust sitt blint á spítalann þegar kemur að launum.

„Ég mun aldrei trúa því aftur að launasetningin sé sanngjörn,“ segir Helga. „Ég verð bara að gá að því sjálf.“

Sjá nánar viðtal hér: https://www.laeknabladid.is/tolublod/2024/04/nr/8615

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica