04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Fagnaðarerindi koma og fara. Þröstur Haraldsson

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir 1945-1954

Nú er stríðinu að ljúka og þá hlýtur að vera réttur tími til að birta fagnaðarerindi. Það er gert með bravúr því fyrsta greinin í fyrsta tölublaði Læknablaðsins árið 1945 heitir einfaldlega PENICILLIN og er eftir Kristin Stefánsson. Hann byrjar á að vitna í breska lækninn Alexander Fleming sem lýsir myndun efnisins og hvernig það virkar. Þessi grein birtist árið 1929 en síðan „er heldur hljótt um þetta þar til H. W. Florey í Oxford og samstarfsmenn hans þar, taka upp frekari framleiðslu og rannsóknir á penicillini, 1940 og 1941 birta þeir tvær greinar í Lancet, um það, hvernig megi framleiða efni þetta, hversu litlar eiturverkanir þess séu á tilraunadýr og menn, og hve öflugar sýklaeyðandi verkanir það hafi við vissum infectionum.“

Þetta hefur aldeilis verið gleðifrétt fyrir læknastétt sem búin var að upplifa alls kyns smitsjúkdóma og farsóttir sem engin þekkt lyf bitu á. Nú var komið til skjalanna efni sem virtist geta útrýmt sýklum og fleiri óværum með öruggum og skjótum hætti. Þetta lyf og önnur skyld sem þróuð voru upp úr því virkuðu líka lengi vel. En þetta var þó engin endanleg lausn. Meðan ég var að fletta í gegnum fyrsta árgang þessa áratugar sem hér er undir lagði ég eyru við Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 þar sem rætt var við Þórólf Guðnason um sýklalyfjaónæmi sem breiðist ískyggilega hratt út þessi misserin. Hann var talsmaður starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem lagði til aðgerðaáætlun í þá veru að draga úr notkun sýklalyfja þar sem sýklarnir sem þeim er ætlað að deyða hafi séð við þeim. Verði ekkert að gert er talið að um 2050 muni 50 milljónir manna deyja árlega af völdum þessa ónæmis.

Mænuveiki þá og nú

Á þeim tíma sem hér um ræðir voru penicillin og áþekk lyf alger bylting á starfi lækna. Allt í einu urðu fjölbreyttar sýkingar viðráðanlegar með til þess að gera einfaldri lyfjagjöf. Um líkt leyti, eða árið 1948, náðist langþráður áfangi þar sem samfélagið náði loks utan um berklabakteríuna sem hafði kostað fjölmörg mannslíf.

Í stríðinu tók fyrir ferðalög lækna á erlendar ráðstefnur og til að sækja sér fræðslu. Það breyttist eftir að stríðinu lauk og þá sáu auglýsendur viðskiptatækifæri í því að selja þeim ferðatöskur og hattaöskjur. Einnig var töluvert um auglýsingar um bíla og flugferðir. Þessi birtist í blaðinu árið 1949.

En það er eins og það er, þegar ein pestin hopar tekur önnur við. Mænusótt eða mænuveiki var skæð pest sem hvað eftir annað skaut upp kollinum á þessum árum og felldi í valinn eða lamaði allt að hálfri milljón manna árlega um allan heim um miðja öldina. Einnig þar eru fréttir í fjölmiðlum dagsins því nú greina þeir frá því að það stefni í að mænuveiki verði útrýmt, jafnvel á þessu ári. Um miðjan mars höfðu liðið 19 vikur án þess að mænuveiki hefði greinst í þeim tveimur löndum, Pakistan og Afganistan, þar sem hún greindist síðast. Haldi þetta áfram út árið má búast við því að veikin verði sett á lista yfir farsóttir sem heimurinn hefur útrýmt. Sá listi er raunar ekki langur því þetta mun verða önnur pestin sem hverfur, hin er bólusótt sem hvarf árið 1977.

Það var og er alveg nóg að gera hjá læknum heimsins og öðru starfsfólki heilbrigðiskerfisins. Nýir sjúkdómar skjóta stöðugt upp kollinum og birtast á síðum Læknablaðsins. Það sama gildir sem betur fer um ráð gegn mörgum sjúkdómum, gömlum og nýjum. Á stríðsárunum gerðist það til dæmis að byrjað var að gera aðgerðir til lækninga á hjarta- og æðasjúkdómum. Að því er virðist eru það fyrst og fremst meðfæddir hjartagallar sem hægt er að lagfæra en bráðatilvikum kunna menn ekki enn að bregðast við. Sigurður Samúelsson skrifar um þessar aðgerðir og fagnar því að nú þurfi læknar ekki lengur að sjúkdómsgreina hjartasjúklinga án þess að geta nokkuð að gert. „Áður hafði greining þessara sjúkdóma aðallega fræðilegt gildi, en nú er nauðsynlegt að læknum sé ljóst, að eitthvað er hægt að gjöra fyrir margt af þessu fólki.“

Rotlækningar eða raflost?

Um miðja öldina var læknastéttin einnig að ná tökum á ýmsum sjúkdómum sem áður varð lítt ráðið við. Meðal þeirra eru maga- og skeifugarnarsár sem hafði fjölgað talsvert hér á landi. Það er fjallað um eyrnabólgur barna og botnlangabólgu en síðarnefndi kvillinn var af einhverjum ástæðum mun útbreiddari hér á landi en í nágrannalöndunum. Háþrýstingur er kominn á dagskrá, sem og blóðrannsóknir og ófrjósemi beggja kynja. Þá eru tauga- og geðlæknar farnir að fjalla um nýjar aðferðir á borð við heilaritun og lóbotómíu sem ég hef ekki fundið íslenskt heiti á en enskumælandi kenna við „white snit“ og felst í skurðaðgerð á heila sem lækningu á geðsjúkdómum.

Málfarið á greinum lækna á þessum árum er ekki alveg farið að slípast eins og það gerði síðar. Til dæmis heitir ein grein eftir Kristján Þorvarðarson einfaldlega „Rotlækningar geðveikra“ og fjallar um „shock therapia“ eða raflost. Eins og fjölmargar greinar sem blaðið birtir á þessum árum var grein Kristjáns fyrst flutt sem erindi á Læknaþingi árið 1946. Enn er ekki farið að ritrýna greinar með skipulegum hætti eins og síðar varð. Ritrýnin fór því eiginlega fram á læknafundum sem haldnir voru á vegum læknafélaganna, heilbrigðisfélagsins Eir og víðar.

Frumkvöðlar falla frá

Það setur svip sinn á blaðið þessi misserin sem hér eru til umfjöllunar að kynslóðin sem kom til skjalanna í upphafi aldarinnar og hafði sterk mótunaráhrif á íslenska læknastétt er farin að falla frá. Guðmundur Hannesson fellur frá haustið 1946 og er heilt tölublað helgað minningu hans árið eftir, löng grein eftir Helga Tómasson og ljóð eftir annan kollega, Pál V.G. Kolka. Steingrímur Matthíasson á Akureyri og Gunnlaugur Claessen röntgenlæknir dóu báðir skömmu síðar en þeir voru mjög virkir í greinaskrifum á fyrstu árum blaðsins.

Annars var sá háttur lagður af að segja fréttir af stöðu- og leyfisveitingum, ferðalögum og jafnvel veikindum lækna um hríð en árið 1951 er hann tekinn upp aftur. Meðal þess sem greint er frá og er eins konar arfur skömmtunarkerfis stríðsáranna er úthlutun „jeppa og fólksbifreiða (amerískra)“ til lækna. Einnig er tekinn upp fréttaflutningur af nýútskrifuðum læknum með aðaleinkunn og nöfnum foreldra.

Og að sjálfsögðu er skotið á stjórnvöld fyrir ankannalegar stöðuveitingar þegar svo ber undir. Árið 1951 var Elías Eyvindsson, fyrsti sérfræðingur landsins í svæfingum og deyfingum, ráðinn svæfingalæknir við Landspítalann „og síðan til að veita forstöðu blóðbanka, ef til kemur“. Þetta þykir ritstjórn mjög „…varfærnislegt. Nú þegar kvað hafa verið byggt hús fyrir blóðbanka, og sennilega er það ekki reist af vangá, né án þess að gera sér fyrst grein fyrir til hvers átti að nota það. Er ef til vill eitthvað nýtt í bígerð með þetta hús?“

Breytingar í aðsigi

Útgáfa Læknablaðsins er einnig til umræðu á þessum árum, kannski vegna þess að útgáfutíðni þess er dálítið skrykkjótt. Í 4. tölublaði 1950 er athugasemd frá ritstjórn þar sem vitnað er í umræður á aðalfundi Læknafélags Reykjavíkur þess efnis að útgáfan sé ekki auðveld viðureignar, blaðið þyrfti að vera stærra vegna lengdar margra greina en fjárhagur þess leyfi það ekki. Einnig er þar auglýst eftir styttri greinum byggðum „á sjálfstæðum athugunum og eigin reynslu“ lækna og er því ekki síst beint „til héraðslækna að þeir láti meira til sín heyra en verið hefur“.

Þarna er raunar markað upphaf þróunar sem leiddi til þess að árið 1955 varð breyting á útgáfu blaðsins sem að sjálfsögðu verður greint nánar frá í næsta pistli. Í byrjun þess árs var allri ritnefndinni skipt út og Læknafélag Íslands varð formlegur aðili að útgáfu blaðsins.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica