04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Gæsluvaktir og guilty pleasure. Hildigunnur Þórsdóttir

Það er þetta með að hafna forminu og draga fram það sem virkilega skiptir máli sem mig langaði að skrifa um. Að gera það sem maður finnur í hjarta sínu að er rétt, skynsamlegt og hefur tilgang. Læknar verða að hafa svigrúm í sínu vinnuumhverfi til að gera það. Ég er þakklát fyrir að tilheyra aðgerðahópi heimilislækna og berjast á móti froðu og upphefja fagmennsku og skynsemi. Þessi stutti pistill er bara grín með smá alvöru í bland.

Ég er almennur læknir á heilsugæslu úti á landi. Heilsugæslan er mikið notendastýrð þjónusta og frekar illa væntingastýrð fyrir alla aðila með tilliti til tímastjórnunar og árangurs. Mér líður oft eins og ég vinni í sjálfsala, fólk bara pantar sér tíma hjá mér og byrjar svo að leggja fram pantanir sínar við mig um einhver óræð vottorð, rannsóknir og lyf. Jú, eitthvað af þessu er nauðsynlegt en það er ekki mikill tími til að velta því fyrir sér, það þarf bara að afgreiða málin.

Ég hef held ég aldrei læknað hné á neinum. Hné hafa þrjár mögulegar útkomur: Geta lagast af sjálfu sér, lagast með bólgueyðandi- eða sýklalyfi eða skurðaðgerð, eða þau lagast alls ekki. Ég hef lært af biturri reynslu að ef nýr skjólstæðingur minn vill byrja á að tala um hnéð á sér í löngu máli og reifa einhvern gamlan krossbandaáverka, þarf ég að vera mjög fljót að spyrja viðkomandi: „Hvað vildirðu ræða við mig fleira í dag, því við höfum bara 20 mínútur?“ Svo brýst ég fastar út úr notendastýrða forminu, renni skrifborðsstólnum mínum lymskulega fram að brún drekkhlaðins skrifborðsins, með hendur í skauti, hné beint fram og varfærnislegt augnsamband. Svona þefa ég uppi vandræðin. Kemur þá oft upp úr dúrnum að fólk vill ræða eitthvað högaktuellt sem er vel þess virði að eyða tíma okkar í, oft eitthvað sem það skammast sín fyrir eða hefur þungar áhyggjur af og þorir annars ekki að nefna fyrr en í dyrunum á leiðinni út. Svona slepp ég líka alveg við að framkvæma inkonklusiva hnéskoðun og eiga samtal um mismunandi NSAID í 19 mínútur. Hnéð getur klárlega beðið. Þessi alvöru vandamál þurfa tíma, skyggni milli sílóa, tilvísanir til ólíkra fagaðila og samfellu í eftirfylgd. Fullkomið verkefni fyrir mig á heilsugæslunni og gefur mér tilgang.

Ég á eina alveg ferlega sakbitna sælu (guilty pleasure) sem ég leyfi mér að detta í þegar ég er á gæsluvaktinni eftir klukkan fjögur á heilsugæslunni.

Forsaga: Ég vann á bráðamóttökunni í Fossvogi frá 2018 til 2020 og gat svo aldrei alveg hætt að taka aukavaktir þar samhliða annarri vinnu. Það var bara eitthvað þar sem fyllti á einhver dularfull holrými hjarta míns. Og svo fann ég það aftur óvænt á minni eigin biðstofu árum síðar. Hin hráa læknisfræði gangaplássins!

Þetta er samt bara gangapláss-lite hjá mér, því það eru auðvitað ekki 15 aðrir sem heyra allt sem fer fram á svæðinu eins og er á bráðamóttökunni. Bara ég, skjólstæðingurinn og aðstandandi. En við erum frammi. Persónuvernd er bara mjög sátt.

Ég rúlla lífsmarkamælinum inn á biðstofu til kvalins skjólstæðings míns. Ég fer sjálf á hnén á gólfið í vaktaflísbuxunum mínum til að mynda samband í réttri augnhæð til að fara inn í sjúkrasögu af einlægni, órafjarri skjáa- og pappírshlöðnu skrifborði mínu þar sem ég hef fundið gleði mína og empatíu dofna marga sjálfsaladaga í röð.

Nú finn ég neistann. Vel rétta mansettu, tek mettun og hitann og tel öndunartíðnina meðan ég hugsa um mismunagreiningar. Sé púlsinn á tækinu en treysti því ekki, þreifa hann líka vandlega beggja vegna til að geta lýst því í nótunni minni. Þarf ég EKG? Hvað veldur þessum kvölum og hvernig ætla ég að freista þess að stilla þær? Hvaða manneskja er þetta og hvernig get ég hjálpað henni?

Svo er komin niðurstaða, græja lyf og vatnsglas og fer með á gangaplássið. Þannig kem ég líka í veg fyrir að fólk taki mig á spjallið við tölvuna: „Fyrst ég er nú með þig hérna, ertu til í að endurnýja öll lyfin mín og geturðu svo flett upp hvað kom úr hnémyndinni hjá manninum mínum í sumar…“

Nei, steingleymdu því, þetta er bráðamóttaka. Útskrift! Næsti!

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica