04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Blanda af rólegheitum og látum. Karen Eva Halldórsdóttir taugalæknir

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Ég kynntist fyrst taugalækningum eins og svo margir aðrir læknanemar á fimmta ári í verknámi og ákvað fljótt að það væri sérgreinin fyrir mig. Ég svaf reyndar í gegnum flesta anatómíukúrsa taugakerfisins og fór inn í taugakúrsinn með það eina markmið að læra nógu mikið um dofa til að forðast dagleg taugakonsúlt, hvar svo sem ég myndi enda. En ég heillaðist af greininni, og eins og svo mörgum öðrum sem enda í taugalækningum fannst mér alveg magnað að geta staðsett einkenni á skoðuninni einni (þó við elskum okkar segulómanir líka).

Taugalækningar eru líka blanda af rólegheitum og látum sem gerir vinnuna mjög fjölbreytta. Það sem skipti líka miklu máli voru frábærir deildarlæknar og sérfræðingar sem störfuðu á deildinni sem ég gat tengt við. Mér fundust þeir hafa raunverulega gaman af vinnunni sinni, tóku sig ekki of alvarlega, en voru alltaf „spot on“ og vissu hvenær þyrfti að bregðast hratt og rétt við.

Þegar kom að því að hefja formlegt sérnám var ég bæði að hugsa um Bretland og Bandaríkin. Ég flutti fyrst til London og vann þar í rúmt ár á sama tíma og ég tók öll bandarísku prófin og undirbjó umsóknarferlið. Stefnan var held ég alltaf innst inni að fara til Bandaríkjanna og voru þar íslenskir taugalæknar sem höfðu lært úti sterkar fyrirmyndir. Eftir á að hyggja var sú ákvörðun sennilega með þeim betri sem ég hef tekið. Það er flókið ferli og ég fékk hjálp frá hinum ýmsu læknum sem ég verð ævinlega þakklát fyrir.

Námið úti er mjög skipulagt. Það er vel haldið utan um kennslu og markmiðin eru skýr. Það er séð til þess að þú fáir eins góða reynslu og hægt er til þess að undirbúa þig til þess að starfa á eigin vegum. Ég lauk sérnámi við The University of Vermont og flutti svo til Los Angeles í Kaliforníu til að hefja fellows-hip í tauga- og vöðvalækningum. Tíminn í fellowshipi var mjög góður, þar sem var farið dýpra inn í undirsérhæfinguna. Ég kynntist frábærum sérfræðingum sem hafa mikinn metnað fyrir sinni grein og sá ógrynni af tilfellum sem ég mun seint gleyma.

Ég starfa núna á Landspítala og held líka úti göngudeild á Heilsuklasanum. Ég er mjög sátt við mína sérgrein og finnst það stór kostur að geta framkvæmt vöðvarit samhliða klíníkinni. Það brýtur upp dagana og þó ég hafi aldrei verið neitt sérstaklega inngripsglöð, er gaman að gera eitthvað allt annað og geta bætt tæknilegu atriðin.

Ég hefði ekki endilega getað ímyndað mér að enda á þessum stað þegar ég byrjaði í læknisfræði, verandi frekar tækniheft manneskja, en ég trúi ekki mikið á að skipuleggja hluti of langt fram í tímann. Mikilvægast af öllu held ég sé að hafa gaman af því sem maður gerir, eins klisjukennt og það hljómar. Þó hver einn og einasti dagur sé ekki endilega frábær þá þarf að vera ákveðinn neisti eða löngun til þess að vilja læra meira og bæta sig. Flestar sérgreinar eru nú sem betur fer þannig gerðar að bjóða upp á fjölbreytta möguleika, og þannig eru taugalækningar klárlega, þar sem eru spennandi hlutir að gerast í flestum undirsérgreinum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica