04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Minning - Thomas Max Achenbach - 1940-2023

Látinn er góður vinur, prófessor Thomas Max Achenbach, 83 ára að aldri. Dánarmein hans var krabbamein. Tom, eins og hann var vanalega kallaður, var einn þekktasti frumkvöðull í forvörnum barna- og unglingageðlækninga í heiminum. Hann þróaði matslista til greiningar á hegðun og líðan barna af mikilli víðsýni snemma á starfsferli sínum og urðu þessir skimunar- eða matslistar þeir mest notuðu um heim allan.

Tom lauk BA-prófi í sálfræði frá Yale-háskóla árið 1962 og doktorsprófi frá Minnesota-háskóla 1966. Tom varð síðar prófessor við háskólann í Vermont, Burlington, árið 1980 til dauðadags. Hann stofnaði rannsóknarsetur þar sem kallað var „Research Center for Children, Youth and Families“ árið 2000.

Árið 1971 var Tom eitt ár í rannsóknarvinnu með Jean Piaget í Genf við félagsvísindarannsóknir. Í framhaldi af því vann hann í 5 ár við National Institute of Mental Health í Washington. Eftir að hann varð prófessor í Vermont þróaði hann „Achenbach System of Empirically Based Assessment“ (ASEBA) sem hafa verið mest notuðu mats- og skimunarlistar í heiminum í dag og hafa þeir verið þýddir á 110 tungumál. Þetta eru matslistar til að meta geðraskanir barna og unglinga á frumstigi en ekki greiningarlistar. Listar þessir hafa allir verið þýddir á íslensku og hafa nú þegar fest rætur í íslensku samfélagi. Frá þeim hafa þróast fjölmargar rannsóknir innan félags-, mennta- og heilbrigðisvísinda á Íslandi. Tom kom fjórum sinnum til Íslands til að greina frá vísindastarfi sínu.

Óhætt er að segja að Tom hafi verið ímynd hins fullkomna vísindamanns þar sem hann hélt áfram rannsóknum sínum og skrifum vísindagreina til æviloka. Tom þróaði í samstarfi við rannsakendur við UVM alþjóðlegt þverfaglegt vísindasamstarf um skimunarlistana í að minnsta kosti 57 þjóðlöndum og skrifaði hann meira en 300 vísindagreinar og margar bækur um matslistana. Tom var gjöfull á hvatningu, ráðgjöf og leiðsögn og andlát hans á því eftir að snerta marga rannsakendur út um allan heim.

Tom var einstaklega eftirminnilegur og hafði sérstakan áhuga á menningu, tónlist og umhverfismálum. Hann var skapandi, frumlegur og gagnrýninn í hugsun og hvatti samstarfsmenn sína til þess að taka þátt í því vísindastarfi sem hann sinnti. Hans verður sárt saknað bæði vegna þess hve jákvæður hann var og fyrir frumkvöðlastarf sitt og yfirgripsmikil vísindastörf og óbilandi hvatningu til samstarfsmanna víða um heim.

Minning hans mun lengi lifa.

Helga Hannesdóttir

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica