04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Vísindi á heimsmælikvarða við endurbættar aðstæður, - vegvísaverkefni Rannís

Það hillir undir síðustu handtökin tengd fyrsta vegvísaverkefni Rannís til að efla grunninnviði fyrir vísindastarf hér á landi. Hans Tómas Björnsson, einn þriggja sem leitt hefur verkefnið, segir vísindamenn nú geta sameinast í öflugri aðstöðu. Þeir þurfi ekki að dreifa kröftunum víða við misgóðar aðstæður

„Öflugir innviðir eru mikilvægir svo íslenskir vísindamenn geti stundað vísindi í heimsklassa og einnig til að tryggja að vísindafólk vilji koma heim með rannsóknir sínar,“ segir Hans Tómas Björnsson, yfirlæknir í klínískri erfðafræði við Landspítala og prófessor í færsluvísindum við Háskóla Íslands.

Teymi Tómasar. Kijin Jang, Juan Ouyang, Meghna Vinod, Tinna Reynisdóttir, Katrín Möller, Sara Þöll Halldórsdóttir, Agnes Ulfig, Arnhildur Tómasdóttir, Hans Tómas Björnsson, Kaan Okay, og Jóhann Örn Thorarensen. Mynd/Birta Dröfn Jónsdóttir

Hans Tómas hefur leitt eitt þeirra verkefna sem valið var sem vegvísir til uppbyggingar á öflugri vísindaaðstöðu hér á landi. Verkefnið hlaut hæsta styrkinn úr innviðasjóði Rannís í síðustu úthlutun. Honum til halds og trausts hafa verið Jóna Freysdóttir fyrir Landspítala og Eiríkur Steingrímsson fyrir Háskóla Íslands.

Aðstaðan, sem er hýst á fjórum stöðum, nýtist fyrir klínískar og akademískar rannsóknir, sem og rannsóknir sprotafyrirtækja, og hlaut verkefnið 120 milljóna króna styrk, þann hæsta úr Innviðasjóði við úthlutun í janúar 2024. „Nú höfum við góð tæki á fáum stöðum sem margir geta nýtt,“ segir hann.

Allt að 60 komu að undirbúningi umsóknarinnar. Heildarúthlutun fyrir þennan vegvísi hefur verið 300 milljónir króna en þetta var síðasta úthlutun. Verkið er einn af sex vegvísum Rannís þar sem grunninnviðir í rannsóknarstarfi eru styrktir. Vegvísirinn nefnist Frá sameindum til sniðlækninga: heildstæð aðstaða fyrir nútíma lífvísindi en nú hefur verið auglýst eftir nýjum verkefnum á vegvísi.

Innviðir sem gera gagn

„Við höfum lagt áherslu á innviði sem gera gagn fyrir mjög marga: smásjár, raðgreiningu, frumuflokkun og tilraunadýraaðstöðu,“ segir Hans. Lífvísindasetur Háskóla Íslands heldur utan um þessa kjarnaaðstöðu en frumuflokkun og raðgreining er hýst á Landspítala, smásjáraðstaðan hjá Háskólanum og dýratilraunaaðstaða var byggð upp í samstarfi við þekkingarfyrirtækið ArcticLAS. Allir fjármunir voru nýttir til uppbyggingar aðstöðu sem á að nýtast öllu vísindasamfélaginu.

„Við notuðum þessa 120 milljón króna úthlutun til þess að kaupa vél sem getur mælt flúrljómun í frumum annars vegar og svo búnað sem tengist sviði sem heitir optogenetics; búnaður þar sem ljós er notað til að virkja taugafrumur í lifandi dýrum,“ segir hann. Þessi búnaður er sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. „Þetta tæki er á öllum stærri stöðum og opnar nú möguleika fyrir rannsakendur sem vilja nýta þá tækni.“

Hans Tómas segir afar mikilvægt að vísindaumhverfi hér á landi sé samkeppnishæft við umheiminn. Aðstaðan sé grunnur að kjarnastarfsemi vísinda hér á landi. Viðhalda þurfi henni. „Svona græjur virka oft ekki nema í 10 ár þannig að það þarf alltaf að vera að endurnýja búnað og kaupa nýja tækni.“ Allir vísindamenn hér á landi geti nýtt þessa öflugu vísindaaðstöðu.

Vel heppnað verkefni

„Ég tel að þetta hafi verið mjög vel heppnað hjá Rannís,“ segir hann, og að tugir vísindamanna nýti nú hvert úrræði án endurgjalds. Sjálfur nýti hann aðstöðuna til rannsókna. „Já, sérstaklega tilraunadýra- og raðgreiningaraðstöðuna. Þar hafa framfarirnar verið miklar og mikilvægt að halda aðstöðunni í góðu standi.“

Hans Tómas hefur allt frá því að hann kom heim til Íslands haft annan fótinn við Johns Hopkins-sjúkrahúsið í Baltimore þar sem hann starfaði áður. Þangað heldur hann í viku í mánuði eða tvær á tveggja mánaða fresti. Þaðan útskrifaðist hann úr mannerfðafræði 2007 og barnalækningum og klínískri erfðafræði árið 2012.

„Ég stunda þó orðið meira vísindi hér heima en úti,“ segir hann, en beðinn um samanburð segir hann ákveðna hluti ódýrari úti. Þar sé einnig meira aðgengi að rannsóknarfé. „Ég hef haft annan fótinn ytra til að halda mér við og hafa tenginguna út. Ég vinn með mikið af sjaldgæfum sjúkdómum og það er gott að geta leitað álits á sérhæfðum stað.“

Þessi leggur verkefnisins er á enda. „Ég vona að þessi eða annar sambærilegur vegvísir verði þá í boði sem tryggir þessar grunnstoðir til framtíðar.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica