12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna. Heilbrigðismál í fyrsta sæti – verðugt verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Theódór Skúli Sigurðsson
Nú eru kosningar til Alþingis nýafstaðnar, verið að telja upp úr kjörkössunum og línur mögulega að skýrast varðandi hvaða stjórnmálaflokkar muni mynda ríkisstjórn til næstu fjögurra ára. Verk-efnin eru ærin, ekki síst í heilbrigðismálunum, sem þjóðin setti enn og aftur í fyrsta sætið sem mikilvægasta kosningamál kosninganna í ár.
Læknisráð
Í júní 2021 sendu yfir 1000 íslenskir læknar undirskriftarlista með áskorun til stjórnvalda um áherslur og vandamál í heilbrigðismálum í sex liðum sem þeir töldu brýnast að leysa. Áherslumálin voru skortur á úrræðum í öldunarþjónustu, vandamál Landspítalans, verkefni heilsugæslunnar, málefni sjálfstætt starfandi lækna, öryggi heilbrigðisstarfsfólks og skortur á faglegu samráði við lækna varðandi umfangsmiklar kerfisbreytingar. Stjórn Læknafélag Íslands hefur haft fyrrnefndar áherslur að leiðarljósi æ síðan í sínum störfum og krafist úrbóta í fjölda mála er varða velferð sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Verkfall lækna, er ein birtingarmynd þessa ákalls, sem snýst ekki eingöngu um kjaraleiðréttingu, heldur einnig tímabærar úrbætur innan heilbrigðiskerfisins. Tíminn verður að leiða í ljós, hvort eitthvað hafi áunnist eftir að læknar stigu fram sumarið 2021 og kröfðust þess að á sig yrði hlustað.
Willum Þór Þórsson
Fráfarandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson birtist eins og skýstrókur inn í heilbrigðisráðneytinu fyrir rúmum þremur árum á erfiðum tímum í skugga alvarlegs heimsfaraldurs. Willum kom í kjölfar lélegra heilbrigðisráðherra, sem höfðu í besta falli ekki gert neitt, á meðan aðrir höfðu skilið eftir sig rjúkandi rústir og sviðna jörð. Af mikilli eljusemi og með uppbrettar ermar, tókst hann óhræddur á við slökkvistarfið sem fól í sér endurreisn íslenska heilbrigðiskerfis-ins. Augljóst var að hann hafði tekið til sín áskorun íslenskra lækna. Á þeim stutta tíma sem Willum var heilbrigðisráðherra varð honum ótrúlega mikið úr verki. Helst mætti telja samninga við sjálfstætt starfandi lækna, lög um réttarstöðu heilbrigðisstarfsmanna, skýrslu um mannafla í læknisþjónustu, skipun lækna í óteljandi starfshópa heilbrigðisráðuneytisins í helstu málum, stofnun stjórnar Landspítalans, innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar á Landspítalanum og lækkun fjölmargra gjalda til heilbrigðisþjónustu.
En hvert er leyndarmál Willums? Hvernig tókst honum að ávinna sér virðingu og lof lækna, auk mótherja í stjórnmálum, í einum af mest krefjandi ráðherrastólum Íslands? Svarið er einfaldlega að gamli kennarinn og reyndi þjálfarinn kann að hlusta. Willum gaf sér tíma til að fara vandlega yfir málin, meta stöðuna og vinna í þágu kjósenda, með því að þora að höggva á hnúta sem aðrir töldu óleysanlega. Með jákvæðni, hvatningu og hrósi tókst honum að ná því besta út úr fagfólki sem vildi leggja sín lóð á vogaskálarnar og leysa vandamál heilbrigðiskerfisins.
Við erum rétt að byrja, auðvitað er heilmikið ógert eftir áratuga innviðaskuld og ráðaleysi í heilbrigðismálum. Stærsta áskorunin er ennþá skortur á hjúkrunarrýmum og um leið viðvarandi fráflæðivandi sjúklinga af heilbrigðisstofnunum sem komast ekki í viðeigandi vistunarúrræði að lokinni meðferð. Nýleg yfirtaka stjórnvalda um áætlanir, fjármögnun og uppbyggingu hjúkrunarrýma að fullu, úr höndum hægvirkra borgar- og sveitastjórna, er klárlega skref í rétta átt. Áform um stóraukinn fjölda hjúkrunarrýma virðast loksins ætla að verða að veruleika, enda ekki seinna vænna vegna öldrunar þjóðarinnar.
Að lokum vil ég gefa verðandi heilbrigðisráðherra eftirfarandi heilræði: „er ekki best að vera eins og Willum?“. Hlustaðu á góð ráð, ekki láta eins og þú vitir best, vertu auðmjúkur gagnvart verkefninu og þá mun þér farnast vel í starfi.