12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Ríkið sýnir sjúklingum þessa lands algjört virðingarleysi með því að vera seint til samninga

Sigurveig Pétursdóttir formaður aðgerðahóps Læknafélags Íslands furðar sig á að ríkið dragi endurtekið lappirnar við samningagerð í viðtali við Læknablaðið

Verkfallið 2014 var öllum erfitt, bæði læknum og sjúklingum segir Sigurveig Pétursdóttir formaður aðgerðahóps Læknafélags Íslands.

Það skipulagsleysi eða áhugaleysi að hefja ekki viðræður fyrr er erfitt að skilja með það í huga að enginn fer vel út úr verkfalli.

Viðbragð ríkisins við fyrstu verkfallsboðun var að mínu mati virðingarleysi við sjúklinga og lækna.

Sigurveig segir enn fremur að það verkfall sem í upphafi var skipulagt hafi verið mildara og skipulagt í þaula þannig að hagsmunir sjúklinga væru hafðir í heiðri eins og unnt var. Ríkinu hugnaðist það ekki og þvingaði lækna í víðtækari aðgerðir sem auðvitað bitna harðar á sjúklingunum.

Læknar hafa alltaf verið afhuga verkfalli en neyðst þangað. Bæði nú og 2014 var samninganefnd ríkisins sein að borðinu, ekki byrjaðar samningaviðræður fyrr en samningur var útrunninn. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að kergja kemst í hóp lækna, þeim finnst þeir virtir að vettugi. Einnig er svo að þetta verklag laðar ekki að lækna sem eru að sérhæfa sig erlendis þar sem víða er það svo að samningar ná í stórum dráttum alltaf saman.

Sú reynsla sem fékkst af verkfallinu 2014 hefði átt að nýtast samninganefnd ríkisins og örva til þess að hefja samningaviðræður tímanlega til að reyna að forðast verkföll sem eru öllum afar þungbær. Ef verkfall teygist á langinn getur tekið mjög langan tíma að vinna niður þá biðlista sem lengjast. Við þekkjum vel vandann sem skapast af slíku, bæði frá fyrra verkfalli og svo einnig frá Covid tímum þar sem heilbrigðiskerfið þurfti að minnka alla valkvæða starfsemi vegna farsóttarinnar.

Mín áskorun til stjórnvalda er því: Látum aldrei aftur samninga dragast, heldur semjum tímanlega og forðumst að komast á það stig að verkföll séu skipulögð. Berum virðingu fyrir opinbera heilbrigðiskerfinu og styrkjum það. Velferð þjóðarinnar er í beinu samhengi við heilbrigði hennar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica