12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Liprir pennar. „Vituð þér enn eða hvað?“ Ludvig Guðmundsson
Á vormánuðum 2023 var hópurinn „Aldin – eldri aðgerðarsinnar gegn loftslagsvá“ stofnaður. Nafnið er tvírætt og bendir til aldurs hópsins en einnig til þess að reynsla hans megi skoðast sem ávöxtur langrar ævi sem geti vonandi nýst til góðs.
Aldin hefur hvatt til aðgerða sem geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og frekari hlýnun jarðarinnar, jafnframt því að veita yfirvöldum og öðrum sem eiga hlut að máli aðhald.
Eins og mál standa nú hefur hitastig jarðar hækkað um nær 1,5 gráður frá upphafi iðnbyltingar en það eru þau mörk sem talið er að megi helst ekki fara yfir ef ekki á illa að fara. Hins vegar stefnir í að hitastigið hækki um allt að 3 gráður um næstu aldamót ef losun heldur áfram með sama móti. Gerist það verður víða á jörðinni illbyggilegt vegna veðuröfga. Til þess að hægt verði að koma í veg fyrir það, þurfum við að láta hendur standa fram úr ermum en ekki láta vonleysi og afneitun ná tökum á okkur. Það er hægt að snúa til betri vegar.
Aldin hefur tekið sér fyrir hendur margvísleg verkefni í þessu skyni. Má þar nefna þátttöku í málþingum og ráðstefnum um loftslagsmál, greinaskrifum, fyrirspurnum og ábendingum til yfirvalda og stjórnmálaflokka, sett upp mótmælaborða og framið gjörning með meiru.
Helstu þættir sem við Íslendingar gætum lagfært snúa að verndun votlendis og gróðurþekju, draga úr notkun jarðaefnaeldsneytis, minnka mengun af völdum stóriðju, gera matvælaframleiðslu og matarvenjur/matarsóun umhverfisvænni, minnka losun tengda byggingariðnaði og fleira.
Aldin lýsti ánægju með ákvæði kjarasamninga um fríar skólamáltíðir sem nota mætti til mótunar betri og vistvænni matarvenja nýrrar kynslóðar. Sameiginlegar skólamáltíðir gætu einnig ýtt undir samveru barna og dregið úr félagslegri einangrun. Mikilvægt er að skoða þetta sem tækifæri en ekki bara kostnaðarbagga á sveitarfélögin.
Aldin hefur bent á að ríkasta fólkið mengar mest með lifnaðarháttum sínum. Má þar nefna ýmsan ferðamáta; einkabíla, flug, skemmtiferðaskip, að ekki sé talað um einkaþotur og lystisnekkjur. Til dæmis losar farþegi í farþegaflugi til Tenerife jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og íbúi í Eþíópíu gerir á einu ári og farþegi í einkaþotu mengar 10-15 sinnum meira. Bent hefur verið á að hægt sé að kolefnisjafna flugið til dæmis með skógrækt. Það er góðra gjalda vert. Hins vegar nær jöfnunin bara til um fjórða hluta þess sem mengast. Það má því varla nota þessa leið til að réttlæta miklar og endurteknar flugferðir.
Ríkisstjórnin lagði fram drög að uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum síðastliðið vor. Vinnuhópur á vegum Aldins skoðaði þær ítarlega og gerði athugasemdir og tillögur. Var það mat vinnuhópsins að þar væri mikið um góðar viljayfirlýsingar en fátt um handfastar aðgerðir á næstunni. Þarna þurfa stjórnvöld að gera miklu betur.
Hættan á veikingu Golfstraumsins
Loks þarf að nefna hnattstöðu Íslands þegar kemur að loftslagsvánni. Það eru talsverðar líkur á að loftslagshlýnunin geti valdið því að Golfstraumurinn veikist mjög eða hrynji með þeim afleiðingum að það kólni mjög á Íslandi og svæði þar í kring (AMOC færiband hafstrauma í Atlantshafi). Þá má gera ráð fyrir „litlu ísöld“ hér svipaðri þeirri sem ríkti hér á miðöldum. Landkostir mundu þá versna mjög. Ef þetta gerist, má gera ráð fyrir að það taki Golfstrauminn nokkrar aldir að ná sér ef það þá gerist yfirhöfuð. Þeir sem hafa í einfeldni sinni talið að lítilsháttar hlýnun hér á landi sé af hinu góða, þurfa því að endurskoða hug sinn.
Miklu betur þarf að gera í loftslagsmálum. Slíkt ætti að vera gerlegt ef vilji er fyrir hendi og menn hafa þrek til að horfa fram á veginn en gleyma sér ekki alveg í búksorgum líðandi dags þó þeim þurfi líka að sinna.
Þess má geta að næsti fundur Aldins verður haldinn miðvikudaginn 4. desember kl. 10 í safnaðarheimili Neskirkju. Þar mun Halldór Björnsson fagstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofunni fjalla um hættuna á veikingu Golfstraumsins og aðrar veðurfarsbreytingar sem geta haft áhrif á Íslandi í framtíðinni.