12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi. Sjúkraflutningar og hefndarhangs. Jóhann Ævarsson

00:05 Er með bakvaktina fyrir bráðamóttökuna á Selfossi og héraðsvaktina. Hringi og tek stöðuna á bráðamóttökunni til að skima fyrir málum sem síðar gætu komið upp. Þaulvanur barnaskurðlæknir tekur á móti mér í símanum og glæðast þá vonir um óslitinn nætursvefn. Velti fyrir mér hvort ég eigi að láta undan þörfinni um það sem ég hef nefnt hefndarhangs (bedtime revenge procrastination), sem er svefnfrestun þegar manni líður þannig að tími fyrir mann sjálfan hafi verið af of skornum skammti yfir daginn. Ófyrirsjáanlega tekur skynsemin völd og svefn tekur við.

06:30 Vekjaraklukkan hringir. Ég læðist meðfram veggjum til að vekja ekki árrisulan fimm ára mann, og þar af leiðandi dæma makann til að fara á fætur fyrr en raunveruleg þörf er þá. 

06:55 Held af stað áleiðis á mölina, heiðin er greiðfær. Viss valkvíði um val á áhlustun, en rokkaðir kántrítónar Sams Donald, verða fyrir valinu. Þar sem ég er á pallbíl, kemur upp þörf til að bæta við í bílinn hundi og riffli, til að uppfylla klínísk skilmerki redneck-triad.

07:40 Mæti í Skógarhlíðina. Er vanalega mættur snemma til að spara mér umferð, ergelsi, og óþarfa dvöl í vel þróuðu ranghugmyndakerfi um yfirburðahæfi mitt sem ökumanns, samanborið við alla aðra sem ég sé. 

07:55 Öll kerfi ræst upp. Blá birta fimm skjáa keyrir niður afgangs melatónín og fyrsti kaffibolli dagsins kemur hjartanu af stað. Við yfirferð mála er í gangi einn aktívur flutningur á Vesturlandinu en það er mánudagur svo að sá friður verður skammvinnur. 

08:05 Á vaktina mætir þaulvanur svæfingalæknir á sína fyrstu vakt, ég aðlaga hann að nýju starfi með svikaraheilkennið í vasanum, að leiðbeina fyrrum leiðbeinanda mínum. 

9:32 Sex sjúkraflutningar í gangi á landinu. Enginn af þeim er forgangsflutningur og enn er allt með kyrrum kjörum. Hjátrúin í bráðageiranum segir að þögnin muni verða rofin með látum, því lengri sem þögnin er, því stærra verður rofið.

09:57 Fáum þyrlulækni í heimsókn til að skoða starfsemina, og ég rúlla í gegnum tölvupóstsamskiptin. Nýti tækifærið í pappírsvinnu fyrst að lærlingur minn sér um símann og fjarskiptin. Ótvíræður kostur að geta skotist á salernið án þess að það sé yfirvofandi truflun á versta tíma. 

10:28 Förum saman yfir mál skjólstæðinga á leið frá Vestmannaeyjum og Keflavík og komum þeim í réttan farveg. 

13:32 Sautján sjúkraflutningar í gangi á landinu og níu bíða. Reyni að forgangsraða verkefnum eftir bestu getu, en ljóst að margir þurfa að bíða lengur eftir að bjargir séu tiltækar. Ráðgjafir eru ráðlagðar og meldingar mótteknar og skoðaðar með tilliti til annars farvegs en bráðamóttökuna í Fossvogi, þar sem rúmlega þrjátíu manns bíða eftir innlögn í hús, og sá sem lengst hefur beðið hefur verið þar í 141 klukkustund og 30 mínútur.

16:45 Kominn heim. Tengdó bjargar okkur á mánudögum, því mamman er í mastersnámi og kemur seint heim. Við feðgarnir unum okkur við stofuborðið, hann að leira og pabbinn að mála litla plastkarla. Skylduheimsókn í bílskúrinn þar sem leisermælirinn er vasaljós sem finnur skrímsli. Við finnum þau nokkur og sigrum með geislaverðum okkar. Sjónvarpið heimavið hefur verið „bilað“ síðastliðnar átta vikur, en ég viðurkenni fyrstur og fúslega að, til dæmis, klukkan 6:30 að morgni um helgar þá söknum við feðgarnir þess jafnmikið. 

18:40 Upplifi uppeldissigur þegar sonurinn óskar eftir „Darth Vader laginu” og við hlustum saman á sinfóníu undir stjórn Johns Williams. 

19:00 Lestur og móðirin kemur heim. Fyrir valinu í kvöld verður hin sígilda Herra Þögull.

21:00 Vinur kemur í heimsókn, og þá breytist stofuborðið í vígvöll í dystópískri framtíð þar sem leikið er með áðurnefnda plastkarla þar sem tveir miðaldra menn lifa sig inn í leikinn og rökræða reglur. Ég vann ekki í þetta skiptið, en það koma önnur kvöld.

23:00 Glími við löngunina í hefndar-hangs …



Þetta vefsvæði byggir á Eplica