11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín: Barna- og unglingageðlækningar. Myndi velja að nýju. Gísli Baldursson

Það að ég varð barna-og unglinga-geð-læknir átti sér langan aðdraganda. Eftir kandídatsárið vakti margt áhuga, ég ætlaði á tímabili í háls- nef og eyrnalækningar, heimilislækningar, öldrunarlækningar og ekki voru geðlækningar langt undan. Að lokum fór svo að við héldum til Svíþjóðar þar sem ég lauk námi í heimilislækningum. Gaf mér samt góðan tíma og prófaði margar deildir áður en ég hóf skipulagt sérnám í heimilislækningum enda óákveðinn og um margt að velja. Mikil áhrif á það val hafði að fjölskyldan langaði að nýju til Egilsstaða þar sem við höfðum búið um skeið og líkað vel. Þar bjuggum við í 5 ár þar sem ég öðlaðist dýrmæta reynslu áður en við ákváðum að flytja suður og þá var kominn tími á breytingar. Á þessum árum var mjög erfitt að fá stöður í Reykjavík fyrir heimilislækna, sem varð til þess að allnokkrir kollegar skiptu um sérgrein. Geðlækningarnar höfðu aldrei verið langt undan hjá mér og eftir að hafa rætt við Ólaf Guðmundsson skólabróður minn ákvað ég að prófa barnageðlækningar. Eftir því hef ég aldrei séð. Fékk mikið metið upp í sérnámið og varð sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum fáeinum árum síðar.

Að starfa sem barna- og unglinga-geð-læknir á þessu tímabili hefur að mörgu leyti verið rússíbani. Breytingar hafa verið hraðar og bráðaþjónusta til dæmis margfaldast á tímabilinu. Margar ástæður kunna að liggja þar að baki en líklegt að samfélagsmiðlar, og að einhverju leyti breytt samfélagsmynd, hafi haft áhrif. Ég vissi lítið um starfsemina þegar ég byrjaði, við fengum litla kynningu í náminu og ég hélt að allt snerist um djúpsálfræði eða víðlíka efni. Komst fljótlega að öðru, um er að ræða víðfeðma sérgrein sem tengist, auk geðrænna einkenna, þroskafræðilegum frávikum, taugasjúkdómum og svo mörgu öðru. Þessar miklu breytingar hafa síðan leitt til fjölda tækifæra til að taka þátt í margvíslegum og ólíkum vísindaverkefnum.

Ég held að ég segi sannleikann þegar ég fullyrði að hafa ekki leiðst einn dag síðan ég byrjaði á Barna-og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), árið 1998 og starfa þar enn. Það sem einkennir starfsemina er teymisvinna og náið samstarf með öðrum faghópum. Starfið er mjög gefandi og ég veit að það hefur gert deildina að æ vinsælli vinnustað með árunum. Einnig hefur verið gaman að sjá mikla fjölgun sérnámslækna á síðari árum. Sjálfur tel ég það vera vegna betri kynningar á sérgreininni þannig að læknarnir sjá þá miklu möguleika sem framundan eru, bæði með tilliti til lækninga en einnig vísindaverkefna. Framtíð sérgreinarinnar er björt og ljóst að mikil þörf og eftirspurn eftir sérfræðiþjónustu verður til staðar í framtíðinni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica