11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
„Leviosa komið til fyrstu notenda“
segja Davíð Þórisson og Matthías Leifsson
Davíð Þórisson og Matthías Leifsson hafa unnið ásamt samstarfsfólki að þróun nýs sjúkraskrárkerfis undanfarin tvö ár. Þeir urðu góðfúslega fyrir svörum um nýja kerfið.
Hvað er Leviosa?
Framleiðnitól! Leviosa er fyrsta sjúkraskráningarkerfið á Íslandi sem keyrir á vafra og er hýst í skýinu – það eitt og sér býður upp á ótal nýja möguleika. Leviosa er nútímalegt og gerir heilbrigðisstarfsfólk margfalt skilvirkara. Og úthvíldara þegar tæknin minnkar skriffinnskuna!
Hver er tilgangurinn með kerfinu?
Að einfalda vinnu heilbrigðisstarfsfólks með því að straumlínulaga klínískt vinnulag í nútímalegu notendaviðmóti. Okkar djúpa þekking á störfum lækna, þörfum þeirra og heilbrigðis-kerfinu almennt gerir okkur kleift að hugsa upp á nýtt hvað er útópískt sjúkraskrárkerfi sem setur notandann í fyrsta sæti.
Er kerfið tilbúið til notkunar?
Já – en við þurfum að bæta í verkfærakistuna til að ná stærri og flóknari stofum og erum á hraðri leið með að tikka í þau box. Við erum afar stolt af því að hafa á um tveimur árum þróað heildstætt sjúkraskrárkerfi sem er komið þetta langt og í rekstur. Leviosa hefur allar grunneiningar tilbúnar í dag – sjúkraskrárhlutann, dagatal og skipulag og reikningagerð. Samþætting við Heklunetið, Sjúkratryggingar, Þjóðskrá, SMS-þjónustu og fleira er komin í loftið. Styrkleiki okkar felst í klínískri þekkingu í þróun lausnarinnar – auk þess sem við erum með öflugt 11 manna teymi sem brennur fyrir verkefnið.
Viðbrögð notenda?
Kerfið fór í loftið í vor og við höfum fengið afar góð fyrstu viðbrögð. Við vorum heppin að fá þolinmóða notendur með okkur til að byrja með þar sem eðlilega þurfti að hrista nokkra „barnasjúkdóma“ úr kerfinu en það hefur gengið vel og við uppfærum kerfið á 1-2 vikna fresti og þróumst því hratt. Við vinnum náið með notendum okkar að besta flæðið í gegnum stofurnar þeirra og aðlaga að þeirra óskum. Við erum að bæta við fleiri læknastofum í vetur og hlökkum mikið til frekara samstarfs – og minnum á að við erum alltaf tilbúin í kaffibollaspjall við stéttina þarna úti.
Hver er samkeppnisstaða ykkar gagnvart öðrum kerfum?
Það hefur ekki komið nýtt sjúkraskrárkerfi á íslenskan markað í um 20 ár og einkennist markaðurinn í dag af fákeppni með einum markaðsráðandi aðila. Megnið af innviðum og framþróun síðastliðin 20 ár í sjúkraskrármálum hafa verið kostuð af hinu opinbera og farið í gegnum eitt fyrirtæki sem stuðlar að ósamkeppnishæfu umhverfi. Í flestum nágrannaríkjum okkar er búið að vinda ofan af slíkum viðskiptasamböndum til að efla framþróun með hagsmuni heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga að leiðarljósi. Við sjáum líka erlendis að þar er áherslan í heilbrigðistækni svipuð og Stafrænt Ísland hefur byggt upp innviði hérna heima, leggja grunninn að samtengingum og þjónusta svo aðila jafnt í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Þetta er auðvitað svekkjandi staða en við höfum fyrst og fremst nýtt mótbyrinn í hvatningu fyrir okkur til að hafa áhrif á þennan markað.
Hvernig hafið þið fjármagnað þróunarvinnuna?
Að megninu til er þróunarvinnan fjármögnuð af styrkjum og englafjárfestum – en við héldum einnig kynningu fyrir hundruði lækna og eru um 120 þeirra fjárfestar og þátttakendur í Leviosa-vegferðinni í dag. Það er skýrt ákall um eitthvað nýtt og betra.
Á hvaða hátt er ykkar kerfi betra en það sem nú þegar er í notkun?
Okkar viðskiptavinir eru hvað ánægðastir með hraða. Leviosa einfaldlega virkar og frýs ekki eða hrynur á ögurstundu. Flæðið í lausninni er gott og við erum sérstaklega stolt af sjúkraskráningarhlutanum þar sem er búið að hugsa fyrir minnstu smáatriðum þannig að læknirinn geti „bara unnið“. Hann á ekki að þurfa að berjast við músina eða fara krókaleiðir til að klára einföld verkefni. Þessum árangri höfum við náð með nánu samstarfi við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk.