11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

100 öldungadeildarfélagar í 30 ára afmæli

Þann 4. október 2024 komu ríflega 100 hressir Öldungadeildarfélagar og makar þeirra saman í Hlíðasmáranum og gerðu sér glaðan dag. Tilefnið var 30 ára afmæli deildarinnar.

Fyrsta klukkutímann voru vísindin í öndvegi á gleðilegum framtíðarnótum. Þau Þóra Steingrímsdóttir, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir, Ragnar Freyr Yngvarsson, gigtarlæknir, og Vilhjálmur Vilmarsson, myndgreiningalæknir sögðu okkur frá því nýjasta. Ekki einasta eru sérsvið þeirra ólík heldur er eðli nýjunganna líka með gjörólíkum hætti.

Í fæðingarfræðinni hafa mjög einfaldar lausnir leitt til mikilla framfara – hvers vegna hafði engum dottið í hug áður að setja blöðru inn í blæðandi leg eftir fæðingu og fylla af vatni þar til hún þrýstir saman blæðandi æðunum? Svo einfalt! Í gigtarlækningunum hefur skilningur  á myrkviðum og myrkraverkum boðefna ónæmiskerfisins leitt til þróunar sem gleður jafnt sjúklinga sem lyfjafyrirtæki – skýringartafla með 25 dálkum og 40 línum fór aðeins fyrir ofan garð og neðan. Og sniðugir verkfræðingar ganga til liðs við æðaþræðara sem geta krækt í sega og þeir geta líka lokað fyrir göt. Með þessum ráðum hefði Siglufjarðar-Geiri kannski haldið áfram að syngja um lífsins lotterí.

Nú var kominn tími til að njóta veitinga og tóku gestir vel til matar síns og drykkjar, svo að ekki var arða eftir í veislulok. Hæfilega endurnærð gátum við veitt Óttari formanni óskipta athygli og meðtekið sögu og boðskap deildarinnar sem hefur gert sér grein fyrir að hagsmunir og hamingja félagsmanna felast ekki í lífeyrisgreiðslum og aukavinnu heldur mannlegum samskiptum og gleði.

Jóhann Alfreð uppistandari lét aðeins bíða eftir sér, en formaður var ekki af baki dottinn og sagði vel valdar sögur úr íslenskri fyndni með sínum hætti. Uppistandarinn stóð sig líka ágætlega. Að lokum fyllti Blood band B undir stjórn Páls Torfa húsið af hljómum og gleði, og Jóhanna kveikti allavega í sumum að syngja með.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica