10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Leyfðu sérgreininni að velja þig!

Ég hef alltaf haft áhuga á mannlega þætt-inum, því húmanistíska. Hvað ligg-ur að baki þeim persónum sem við hittum? Hvað hefur á daga þeirra drifið? Hvernig líður þeim? Það byrjaði þegar ég sem ungur drengur fékk að heimsækja ömmu mína í vinnuna hennar á sjúkra- og öldrunardeildinni á sjúkrahúsinu á Húsavík. Hún hafði svo mikinn áhuga á ,,fólkinu sínu”, þeim sem hún sinnti. Ég gat varið heilu dögunum í að ræða við skjólstæðinga hennar og fylgjast með því sem á daga þeirra dreif. Þessi áhugi á mannlega þættinum gerði það síðar að verkum að ég var alfarið ákveðinn í að leggja stund á geðlækningar, jafnvel áður en ég komst inn í grunnnámið. Svo ákveðinn var ég að ég sótti um vinnu á Kleppi um leið og ég byrjaði námið og starfaði þar undir handleiðslu Guðfinns P. Sigurfinnssonar og fleiri nokkur sumur og meðfram kúrsinum í geðlæknisfræði. Að aflokinni þeirri önn var komið að kúrsinum í fæðinga- og kvensjúkdómum og ég var sannfærður að sá kúrs snerist bara um að komast í gegnum hann án þess að lenda of mikið upp á kant við ljósmæðurnar og/eða vera sendur út úr herberginu við ólíkar aðstæður. En ég hafði svo ótrúlega rangt fyrir mér!

Kúrsinn var í alla staði frábær og starfsfólkið og sjúklingarnir einnig. Ég mun aldrei gleyma fyrstu fæðingunni sem ég var viðstaddur. Læknanemarnir fengu oft það hlutverk að vera sjálfir inni á stofunni á upphafsstigi fæðingar og þá reyndi maður mest að vera ekki fyrir og halda uppi léttu spjalli við konuna sem var í fæðingu og þá sem voru með henni. Í umræddri fæðingu benti lítið til, samkvæmt mínu mati, að nokkuð væri að gerast þar til allt í einu að konan, sem þá var standandi, fór að rembast. Ég spratt upp og hringdi bjöllunni og hjálpaði konunni upp í rúmið og skyndilega sá ég í höfuð barnsins. Á sama tíma kom ljósmóðirin inn og við hjálpuðumst að við fæðinguna. Að fæðingu lokinni settist ég inn á kaffistofu, felldi ófá gleðitár og það varð ekki aftur snúið. Þetta var mín sérgrein! Ekki spillti fyrir að áhugi minn á mannlega þættinum og geðlækningum kom að góðum notum í þessari sérgrein. Við vinnum mikið með hið sálræna og samband læknis og sjúklings skiptir ótrúlega miklu. Það gefur starfinu líka aukið gildi að vera forvitinn um sjúklingana og gefa af sér.

Ég var lengi á Íslandi að loknu kandídatsári. Ég öðlaðist mikla reynslu og fékk að vinna lengi á skurðdeild og svæf-ingadeild, ásamt því að sinna félags-málum sem formaður Félags almennra lækna (FAL) og klára meistaranám. Þegar komið var að því að fara til útlanda varð Lundur fyrir valinu. Til Lundar kom ég 2016 og kláraði sérnám í upphafi árs 2018. Eftir það hef ég unnið sem sérfræðilæknir og verðandi yfirlæknir, ásamt því að stunda doktorsnám síðan 2020. Auk þess var ég virkur í félagsmálum í læknafélaginu hér í Svíþjóð 2016-2021. Klínískt sinni ég einkum konum í áhættumæðravernd og fer fyrir teyminu sem sinnir konum með fæðingahræðslu/ótta. Frá 2023 hef ég auk klíníska starfsins og doktorsnámsins einnig sinnt yfirmannsstöðu sem sviðsstjóri yfir sérnámslæknunum (ST sektionschef) á kvennadeildinni í Lundi. Þar erum við með um 20 sérnámslækna og það gefur starfinu nýja og spennandi vídd, þó það sé á stundum ansi mikið að gera.

Í ár voru 20 ár frá því ég byrjaði í læknis-fræði. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að 20 árum síðar myndi ég vera starfandi fæðingarlæknir, vísinda- og yfirmaður. Að fá að sinna fæðingarþjónustu og upplifa hamingjuna og þakk-lætið sem fylgir því er ómetanlegt. Ég myndi ekki vilja skipta á minni sérgrein og nokkurri annarri og hvet alla til að láta hjartað ráða för og leyfa sérnáminu að velja sig!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica