10. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Fæðinga- og Kvensjúkdómalækningar. Hulda Hjartardóttir
Meðganga og fæðing eru töfrar og leyndardómur
Ég ætlaði alls ekki að verða læknir þegar ég var í menntaskóla heldur hafði ég hugsað mér að leggja málvísindi fyrir mig. Ég hef alltaf haft gaman af tungumálum og fór í máladeild til að undirbúa mig fyrir nám því tengdu. En lífið tekur oft óvænta stefnu og þannig fór að ég varð ófrísk og fæddi frumburðinn á fyrsta ári í námi í málvísindum í Háskóla Íslands. Þetta ferli allt saman, meðgangan og fæðingin, vakti slíkan áhuga hjá mér að ég fór að viða að mér kennslubókum í Bóksölu stúdenta um þessi fræði og einnig að skoða námsvísi HÍ um læknisfræði. Ég ákvað að láta slag standa og skrá mig í læknisfræði næsta haust á eftir og hætta í málvísindunum.
Ég ætlaði bara að láta á það reyna hvort ég kæmist í gegnum numerus clausus þrátt fyrir lítinn undirbúning í raungreinum. Það tókst og ég fann fljótt að þetta átti mjög vel við mig og ég sá fyrir mér meira spennandi starf en það sem hefði legið fyrir hefði ég klárað málvísindin. Mér fundust flestar sérgreinar spennandi eftir því sem ég kynntist þeim í gegnum læknanámið og á kandidatsári en þó hafði fæðingarhjálpin alltaf yfirhöndina og ég fékk þjálfun á Kvennadeild Landspítalans í tvö ár eftir að kandídatsárinu lauk.
Ég velti auðvitað mikið fyrir mér hvert ég ætti síðan að stefna til að verða fullnuma í faginu. Mér fannst að þeir sérfræðingar sem höfðu fengið þjálfun sína í faginu í Bretlandi, með prófessorinn Reyni Tómas Geirsson í fararbroddi, væru mjög vel að sér bæði faglega og klínískt og einsetti mér að reyna að komast þangað. Til að greiða fyrir því tók ég fyrri hluta sérfræðiprófsins og fékk svo fyrir algjöra tilviljun stöðu í Leeds í Englandi. Þar og í nágrannaborginni Bradford var ég við sérnám í sjö ár.
Þarna voru góð sjúkrahús og mikill metnaður í starfinu. Ég kynntist bæði rannsóknastarfi og öllum hliðum kvensjúkdóma og fæðingarhjálpar og sérhæfði mig að auki í ómskoðunum á meðgöngu. Með þetta í farteskinu flutti ég aftur heim og hóf störf á Kvennadeild Landspítalans þar sem ég hef starfað óslitið síðan. Að vísu tók ég eins árs leyfi og vann á fæðingadeild í Stafangri í Noregi fyrir rúmum 10 árum og eignaðist þar góða vini og fékk uppörvun til að taka upp þráðinn í rannsóknum á nýjan leik. Það leiddi síðan til doktorsnáms og ritgerðar sem ég varði fyrir þremur árum.
Það sem heldur áhuganum á að starfa við þetta fag gangandi er sá leyndardómur og töfrar sem meðganga og fæðing eru. Mér hefur alltaf verið hugleikið að reyna að stuðla að því að sem flestar konur geti fætt eðlilega. Fæðing er lífsmótandi atburður og ef vel gengur eitt það jákvæðasta og sterkasta sem kona gengur í gegnum. Á hinn bóginn getur það verið það erfiðasta sem kona hefur upplifað og getur valdið henni langvarandi erfiðleikum á ýmsa lund og því mikilvægt að þessar konur séu eins fáar og hægt er.
Rannsóknavinna mín hefur því beinst að vaxtarbroddi innan fagsins þar sem ómskoðanir í fæðingu eru nú að auka skilning okkar á þessu flókna ferli. Í leiðinni uppgötvar maður hve mörgum spurningum er ósvarað og hve margt í þessu ferli er á huldu enn þann dag í dag. Í rannsóknum mínum gat ég sameinað bæði langa klíníska reynslu mína og þekkingu á ómskoðunum og vona að mér takist að örva fleiri til dáða í þeim efnum.