10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Er leikskólavandi Reykjavíkurborgar mannauðsvandi Landspítala? Berglind Bergmann

Það er áþreifanleg mannekla í heilbrigðiskerfinu okkar og umfram eftirspurn eftir þjónustu lækna. Á málþingi Embættis landlæknis um sjúklingaöryggi í septembermánuði sagði landlæknir að mikilvægasta leiðin til að efla sjúklingaöryggi í kerfinu okkar eins og staðan er, væri að efla mönnun.1 Með fjölgun Íslendinga og öldrun þjóðar mun ástandið ekki batna nema gripið verði til róttækra aðgerða. Nú þegar fimm ár eru í opnun nýs Landspítala hefur heilbrigðisráðherra nýlega rætt um nauðsyn þess að stækka bráðamóttökuna í Fossvogi.2 Legurýmum mun ekki fjölga á Nýjum Landspítala og því er farið að benda á nauðsyn þess að halda Landspítalanum í Fossvogi áfram gangandi eftir opnun Nýs Landspítala.3 En hverjir eiga að manna allar þessar nýju stöður þegar manneklan er þegar til staðar?

Fleiri eru nú teknir inn í Læknadeild og margir stunda læknisfræði erlendis. Einhverjir horfa með vonaraugum á eflingu sérnáms á Íslandi sem eina helstu leiðina til að takast á við áskoranir framtíðar. Sérnám á Íslandi hefur svo sannarlega stóreflst síðustu árin og læknum sem taka sérnám sitt hérlendis að hluta eða að fullu hefur snarlega fjölgað og eru nú á þriðja hundrað,4 þar af um 200 á Landspítala.5 Afleiðingin er ört stækkandi hópur fótgönguliða á Landspítalanum sem manna staðarvaktir dag sem nótt og standa í framlínunni. Svipaða sögu má segja á heilsugæslunni. Þessir læknar, sem alla jafnan eru ungt fólk á barneignaraldri, vakna nú upp við vondan draum. Martröðin er leikskólavandi höfuðborgarsvæðisins, og þá sérstaklega Reykjavíkurborgar. Sé tekið mið af meðalaldri barna við inngöngu á leikskóla í Reykjavík, þurfa foreldrar að bíða í að minnsta kosti tíu mánuði eftir plássi í kjölfar fæðingarorlofs. Þann tíma velst annað foreldrið til þess að vera heima og gæta barns síns, án tekna og með tilheyrandi hléi á ferli sínum. Ég horfi á kollega drífa sig fyrr út í sérnám af þessum sökum, aðra minnka starfshlutfall eða jafnvel fara í launalaust leyfi til að vera heima með barninu sínu sem ekki fékk leikskólapláss. Dýr barnapössun fyrir samfélagið. Ég efast ekki um að svipuð sé raunin hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Sjálf fann ég mig knúna til þess að gera hlé á sérnámi mínu í lyflækningum á Landspítala í kjölfar fæðingarorlofa. Ég flutti með eins og tveggja ára börn, hund og mann í Borgarnes, sem gerði mér kleift að starfa áfram sem læknir, tryggja börnum mínum leikskólapláss og maðurinn minn gat jafnframt sinnt sinni vinnu. Við sem höfum unnið á lyflækningasviði Landspítalans finnum áþreifanlegan mun þegar einn læknir dettur út vegna stuttra veikinda. Hvað þá að missa lækni úr vinnu í marga mánuði eða ár, sem vill vinna, en kubbar í staðinn heima hjá sér og gerir hlé á sérnámi sínu til að vera áfram heima með barnið sitt sem ætti að vera komið á leikskóla og fá þar sína félagslegu örvun og allt hið góða sem fylgir leikskóladvölinni?

Hér áður fyrr, þegar gamli Borgar-spítalinn og Landspítalinn við Hringbraut voru aðskildar stofnanir, voru ýmsar góðar afleiðingar samkeppni um mannauðinn augljósar. Þá bauðst starfsfólki forgangur í leikskólapláss á Birkiborg ef það vann á Borgarspítala, svo dæmi séu nefnd. Aðrir hafa lagt til að Landspítali stofni leikskóla fyrir starfsfólk sitt6,7 en fyrirmyndir að slíkum leikskólum má finna á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum. Fyrir 16 árum fóru forsvarsmenn Landspítalans þess á leit við Reykjavíkurborg að fá að koma á fót ungbarnaleikskóla til þess að vinna á manneklu,8 en slíkt myndi óneitanlega brúa fyrrnefnt tíu mánaða bil þar sem foreldrarnir komast ekki í vinnu eins og staðan er í dag.

Það ætti að vera öllum ljóst að leikskólavandinn er svo sannarlega mannauðsvandi Landspítala. Það er mikil synd í ljósi þeirrar öflugu vinnu sem farið hefur í uppbyggingu sérnáms hérlendis, sem og blóðugur missir fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi, að missa unga lækna úr vinnu sinni.

Heimildir

1. Málþing um sjúklingaöryggi (youtube.com) https://www.youtube.com/watch?v=y_T0zgC1h8E

2. https://www.visir.is/g/20242619127d/timabaert-ad-staekka-bradamottokuna-a-landspitalanum

3. https://www.visir.is/g/20242619594d/vill-halda-borgar-spitalanum-opnum-thegar-ad-nyi-spitalinn-opnar

4. https://www.laeknabladid.is/tolublod/2024/03/nr/8595

5. Málþing um sérnám á Íslandi á Læknadögum 2024

6. Þegar von er á barni - Thelma Kristinsdóttir fyrir Læknablaðið tölublað 9/2024

7. https://vidreisn.is/2022/04/leikskoli-fyrir-landspitala/

8. https://www.visir.is/g/20081839931d/lsh-vill-reka-ungbarnaleikskola-til-ad-vinna-a-manneklu



Þetta vefsvæði byggir á Eplica