09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Dagur í lífi læknis í Stokkhólmi
06:10 Vekjaraklukkan hringir, síðasta hringingin og sú mikilvægasta. Búin að snúsa síðan 5:50. Tek mér tíma í að svara skilaboðum sem hafa borist eftir að ég fór að sofa. Ég hef verið morgunþreytt alla virka daga frá því ég man eftir mér. Hef þess vegna náð að straumlínulaga morgunverkferlana, hér fer ekki ein mínúta til spillis. Uppáhellingin er undirbúin kvöldinu áður, þarf bara að kveikja á á könnunni á leið inn á baðherbergi. Sturta og lágmarks snurfus þennan daginn. Kaffið klárt þegar ég kem af baðinu. Enginn morgunmatur, hver hefur tíma fyrir svoleiðis?
06:45 Verð að drífa mig út að ná lest-inni. Það tekur mig um klukkustund að komast í vinnuna á Karolinska í Huddinge. Á morgnana er þetta svo sem allt í lagi með hlaðvarp og kaffi en ég er töluvert óþolinmóðari á heimleið. Síðustu mánuðina áður en ég flutti út vann ég á Akureyri. Þar rúllaði ég fram úr rúminu, hafði mig til og komst í vinnuna á 15 mínútum, þetta voru því ansi erfið umskipti fyrir mig.
7:45 Komin í vinnuna. Skipti um föt og fer upp á 8. hæð þar sem blóðskilun er. Vinnuaðstaðan mín er í litlu glerbúri, þar er fínt að sitja í rólegheitum fyrir morgunfund, fara yfir blóðprufur og staðfesta nótur. Ber ábyrgð á 44 skilunarsjúklingum þannig að það er nóg af prufum í hverri viku.
8:15 Morgunfundur hefst, akademíska korterið sem skiptir öllu. Farið yfir vaktina, hugsa til þess hversu fegin ég er að vera búin að taka síðustu vakt fyrir sumarfrí. Áhugavert tilfelli á deildinni sem við förum yfir, C3 gauklabólga. Heilluð af þekkingu kollega minna. Fer niður á skilun eftir fund, fæ mér meira kaffi og hefst svo handa við að senda beiðnir fyrir ígræðsluuppvinnslu sjúklings.
10:00 Fundurinn í skilunarsalnum. Farið yfir sjúklinga dagsins með hjúkrunarfræðingunum. Sumarstarfsmaður kom með „fika“, tek mér smá bita og maula yfir tölvunni. Labba hring í salnum, athuga með nokkra sjúklinga þar sem við höfum verið að breyta þurrþyngd. Til allrar hamingju eru allir fistlar til friðs, eftir mikið vesen undanfarið.
12:00 Loksins hádegismatur. Sól úti og við sitjum nokkur úti á svölum. Allir reyna að sitja í skugganum nema ég sem bretti upp ermar, tek af mér gleraugun og sný mér upp í sólina. Er með flatkökur og Hleðslu í nesti. Allir gestir sem koma til mín greiða flatköku- og hleðslutoll.
Það er engin skilun eftir hádegi á fimmtudögum og þá er ég með göngudeild. Tvær fyrstu komur í dag og tvö eftirlit. Fyrri fyrsta koman frekar snúin, maður sem hætti að mæta í eftirlit en er nú kominn aftur til okkar og nú þarf að byrja að undirbúa skilunarmeðferð. Sem betur fer tvöfaldur tími, að mörgu er að hyggja. Hinar komurnar ganga ágætlega, engar óvæntar uppákomur. Langur símalisti sem ég hef sem betur ferið náð að saxa á í vikunni. Er ennþá að venjast því að diktera. Ritararnir láta þó nóturnar mínar líta mun betur út, þegar ég les yfir eftir á hugsa ég stundum: kann ég þetta orð? Ég vinn oftast lengur á göngudeildardögum, klára í dag klukkan rúmlega 17. Ákveð að taka lestina áleiðis heim og labba heim frá Södermalm.
19:10 Kem heim eftir sjö. Nenni ekki að elda frekar en fyrri daginn. Hef tekið ástfóstri við kvarg, sem er einhverskonar súrostur og – voga ég mér að segja það? – betri en skyr. Horfi á útprentaðan bókar-kafla úr kennslubók á eldhúsborðinu. Borða úti á svölum, tek útprentið með mér samviskunnar vegna. Hef litla einbeitingu eftir langan dag. Sæki ferðatöskuna í geymsluna, flug heim til Íslands eftir 2 daga. Mamma og pabbi hringja á facetime, hversdagslegt samtal, þau að snæða kvöldmat og ég að reyna pakka niður fyrir heimferðina. Verður ekki mikið úr verki. Líklega best að geyma þetta fyrir nóttina fyrir flug.
Undirbý mig fyrir háttinn og geri uppáhellingu morgundagsins klára, rauður rúbín frá Akureyri. Sofna út frá hlaðvarpi um fótboltasumarið 2010. Eftir nokkra klukkutíma byrjar þetta svo allt upp á nýtt.