0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi. Alþjóðleg samvinna á daginn og kertaljós um kvöld

Dagur í lífi nokkuð vel erns eftirlaunalæknis

07:45 Vakna eins og flesta daga svona bara þegar það gerist. Enginn morgunfundur kl. 08.00 sem þarf að mæta á. Súrmjólk með morgunkorni og rúsínum plús kaffi og brauðsneið, hlusta á útvarpið. Allt rólegt.

09:20 Kominn af stað á bílnum til að kaupa slökkvitæki sem þarf í íbúð leigjanda míns. Endurnýjaði leigusamninginn um daginn og áttaði mig á að þetta vantaði ásamt viðbótarreykskynjara til að hafa öryggismálin í lagi.

10:10 Leiðindarigning og rok. Ekki beint veðrið til að hjóla niður á Kvennadeild. Tek strætó, enda erfitt að leggja bíl við spítalann. Hef fengið að vera á ágætri skrifstofu í kjallaranum frá því ég fór á eftirlaun. 78 ára karl er vel geymdur þar niðri. Þau segja á deildinni að ég sé í dagvistun. En þetta hefur bjargað mér eftir að ég missti eiginkonuna fyrir nær sex árum – eftir meira en hálfa öld af hamingju. Ég hef stað til að fara á yfir daginn. Hef getað sinnt rannsóknavinnu og nefndarstörfum fyrir heilbrigðisyfirvöld þar sem reynsla og þekking fyrri ára kemur enn að notum. Klínískri starfsævi lauk fyrir tíu árum. Sakna ekki sjúklinganna.

10:30 Lít fyrst á netskeytin. Sé að starfsmaður landlæknis hringir eftir klukkustund og sný mér að skilaboðum frá kollega í Noregi. Ég hef unnið með honum að yfirlitsgrein um þungunarrof á Norðurlöndum. Hann átti frumkvæðið og frumvinnuna, en ég hef lagt sitthvað til, ekki síst í skrifunum. Greinin er að fara í gott bandarískt-alþjóðlegt tímarit. Vinn lokaleiðréttingar í „track changes“ með hliðsjón af ábendingum ritstjórans. Lærði að höndla svona þegar ég var sjálfur aðalritstjóri norræna tímaritsins í mínu fagi. Landlæknisembættið hringir á tilsettum tíma og ég skýri frá framgangi verkefnis sem þau báðu mig að vinna.

11:45 Held áfram með greinina og er að ljúka því þegar svengdin segir til sín kl. 13.00. Ágætt að fá sér hádegismat á Lansanum. Elda þá ekki í kvöld.

13:20 Klára greinina, skrifa kolleganum í Ósló og sendi allt til hans. Vonandi verður hún endanlega samþykkt til birtingar eftir „minor changes“. Undirbý með símtali og netskeyti komu klúbbs lækna frá Bretlandi í næstu viku. Aðstoða íslenskan kollega í undirbúningnum. Hann fluttist til Skotlands fyrir löngu og er virkur meðlimur í klúbbnum. Tvö netskeyti í viðbót, meðal annars vegna rannsóknaverkefnis.

14:20 Tek skutluna inn í Fossvog. Spjalla við gamlan nemanda sem er mér samferða í bílnum. Undirbý mig fyrir fund um mál sem varðar sérnám og sest í Blásali á 7. hæð.

15:00 Ég hef verið formaður svonefndrar mats- og hæfisnefndar í átta ár og sú reynsla nýtist nú á klukkustundar góðum fundi til að finna lausn á ákveðnu vandamáli. Lausnin finnst.

16:05 Geng úr Fossvognum heim í Safamýri í úðarigningu. Fær mér kaffisopa. Gott að slaka á. Læknablaðið er komið. Lít í það og sé pistilinn „Dagur í lífi
Get ég ekki skrifað um minn dag?

17:15 Fer til bróður míns. Hann var að taka til í geymslu þriðja bróðurins sem er kominn á hjúkrunarheimili. Við ræðum málið. Bjarga 101 árs gömlu guðfræðikveri sem pabbi fékk sem barn og merkti sér. Mágkonan býður mér að borða með þeim og ég þigg það með þökkum.

19:00 Kominn heim og slaka bara á. Les bók um Tyrkjaránið, enda nýkominn úr ferð til Marokkó þar sem sögulegur bær frá þeim tíma var meðal annars heimsóttur. Skip ránsmannanna í Grindavík og við Bessastaði kom þarna að heimahöfn með fanga sína og góss eftir mánaðarferð frá Íslandi sumarið 1627.

21:30 Skrepp niður á Kvennadeild til að ná í gagnamöppur mats- og hæfisnefndar sem ég ætla að skila til nýs formanns í heilbrigðisráðuneytinu á morgun ásamt USB-kubbi með öllum gögnum nefndarinnar. Nú má leggja alveg við dyr Kvennadeildar. Allt sett í skottið.

22:30 Kveiki á kertum eins og ég hef gert öll kvöld þegar ég er heima, í nær sex ár. Það þarf ekki fleiri ljós í stofunni. Sakna hennar alla daga. En er um leið þakklátur fyrir allt sem lífið hefur gefið mér.

U13-Reynir-Tomas-Geirsson

Reynir Tómas Geirsson stundar vísindin og heldur í tengslin þótt klínískri starfsævi hafi lokið fyrir áratug. Dagurinn er þéttskipaður. Mynd/gagÞetta vefsvæði byggir á Eplica